Almenn hegningarlög

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 15:40:45 (4618)

2003-03-10 15:40:45# 128. lþ. 93.39 fundur 567. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum og mansal) frv. 40/2003, GÖ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[15:40]

Guðrún Ögmundsdóttir (andsvar):

Ég þekki einmitt afar vel til samtaka norrænna kvenna gegn ofbeldi. Ég vann með danskri grein sömu samtaka. Auðvitað vitum við að þetta læknar ekki allt. Aðalatriðið er að við séum algjörlega með opin augun í því sem við erum að gera og að við höfum úrræði og neyðarlínu.

Okkur vantar mjög margt hér. Þó að þetta hafi allt verið meira eða minna neðan jarðar hér líka hefur þetta verið í miklu minni mæli en annars staðar í Skandinavíu. Ég vil koma ákveðnum hjálparúrræðum hér á koppinn, hvort sem er fyrir íslenskar konur eða erlendar konur. Ég hef sagt það hvar sem er og hvenær sem er.

Þetta með karlana og kaup þeirra á vændi, að bregðast við því læknar ekki það sem ég vil ná til. Það er ekki spurning. En við sjáum til hvernig fer í atkvæðagreiðslunni. Það er aldrei að vita, hv. þm., hvað ég geri.