Almenn hegningarlög

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 15:57:57 (4620)

2003-03-10 15:57:57# 128. lþ. 93.39 fundur 567. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum og mansal) frv. 40/2003, JBjart
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[15:57]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Ég kem hingað fyrst og fremst til að lýsa yfir stuðningi við þetta frv. Það kemur fram í nál. hv. allshn. hverjir stóðu að því og ég er þar ekki tiltekin sem ein af þeim. Hins vegar var ég þá fjarverandi ásamt Lúðvíki Bergvinssyni en það er rétt sem fram kom í ræðum hjá þeim sem hafa fjallað um þetta mál að það var mjög góð samstaða um það í nefndinni. Það var mjög vel yfir málið farið og það rætt frá ýmsum hliðum, m.a. um annað en frv. beinlínis gengur út á, til að mynda vitnaverndina sem við erum flest sammála um að þurfi að koma á hér á landi til þess að þessi refsiákvæði verði í það heila tekið virk. Það er, eins og einhver benti á, ekki nóg að gera það refsivert meðan það er enginn sem þorir eða hefur aðstæður til að kæra vegna ótta. Þá horfum við fyrst og fremst til þeirra sem koma erlendis frá, jafnvel vegabréfs- og réttindalausir með öllu, um ótta þeirra til að vitna gegn þeim sem hlut eiga að máli.

Vegna ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, þar sem hann nefnir að í nál. sé sérstaklega tekið fram að nefndin gangi út frá því að innihald ákvæðisins í hegningarlögunum verði túlkað í samræmi við ákvæði í svonefndum Palermó-samningi, langar mig að fá að útskýra það stuttlega. Þegar hæstv. dómsmrh. mælti fyrir þessu frv. og þessu ákvæði um mansalið hafði ég orð á því í ræðu minni að það væri ekki nákvæmlega sama orðalagið í ákvæðinu og væri að finna í bókuninni sjálfri. Það sem við gerum með þessu frv. er í rauninni að taka upp og þýða danska ákvæðið um sama efni en það er aðeins sterkara til orða tekið í bókuninni með Palermó-samningnum sem fjallar um mansalið og þess vegna spannst sú umræða í hv. allshn. hvort við gengjum eitthvað skemur en samningurinn gerði ráð fyrir. Þeir embættismenn úr dómsmrn. sem komu á fund nefndarinnar fullvissuðu okkur þó um að við skýringu á ákvæðinu yrði sérstaklega horft til orðalagsins eins og það er í bókuninni. Nefndin vildi samt sem áður taka það skýrt fram að ætlunin væri ekki að veita minni vernd en bókunin gerir ráð fyrir.

[16:00]

Varðandi orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um Palermó-samninginn og fullgildingu hans vildi ég leiðrétta misskilning meðan hv. formaður allshn. gerir það ekki. Sem varaformaður nefndarinnar vil ég benda á að Palermó-samningurinn gengur út á allt annað og meira en einungis mansalið. Umfjöllunin um mansalið er í ákveðinni bókun við þennan samning. Hann fjallar hins vegar um margt fleira, í rauninni um aðgerðir gegn alþjóðlegri og skipulegri glæpa\-starfsemi. Þar er margt undir en meðal þeirra skýringa sem fengust á fundum í allshn. var sú að þýðingarvinnu væri ekki lokið en að því væri unnið jafnt og þétt. Að því loknu yrði tekin afstaða til þess hvort breyta þurfi fleiri íslenskum lögum en almennum hegningarlögum til að hægt væri að fullgilda hann. Eftir því sem ég best gat skilið, þá er sú vinna í gangi núna.

Hér hefur orðið töluverð umræða hjá hv. þingmönnum um að fara sömu leið og farin hefur verið í Svíþjóð, um að gera kaup á vændi refsiverð og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Guðrún Ögmundsdóttir hafa aðeins tekist á um hvar gögn væri að finna sem færðu rök fyrir því að þetta sé til bóta. Ég vil lýsa stuðningi við það að þetta verði skoðað mjög vel en leyfi mér að benda á að Svíar eru þeir einu sem farið hafa þessa leið, að gera kaup á vændi refsiverð. Það er ekki ýkjalangt síðan þeir gerðu það og einhvers staðar hlýtur að vera hægt að komast í gögn, hvort sem er á netinu eða annars staðar, skýrslur sem fjalla nánar um hvaða áhrif þetta hefur haft, bæði á vændi sem slíkt í Svíþjóð og mansal.

Þegar kemur að því að gera vændiskaupin refsiverð er við það að eiga að í umræðunni er ákveðinn tvískinnungur sem kannski má segja að nærtækt sé að benda á í norrænum velferðarsamfélögum þar sem menn eru betur í stakk búnir til að taka á hvers konar félagslegri meinsemd sem er oftar en ekki orsök vændis. Tvískinnungurinn gengur kannski fyrst og fremst út á það að margir gefa sér að þær konur sem selja vændi séu að gera það af fúsum og frjálsum vilja. Þetta verður sérstaklega krítískt þegar horft er til mansalsins og hins mikla flutnings á konum og börnum frá austantjaldslöndunum fyrrum, frá Eystrasaltslöndunum, Póllandi, Úkraínu og víðar til Evrópu. Þá eru menn fyrst og fremst að nýta sér, ekki bara villu og blekkingu heldur efnahagslegar og félagslegar mjög bágar aðstæður kvenna í þessum löndum. Allt tal um það að þetta eigi ekki að gera í ljósi atvinnufrelsis og frelsis kvennanna til að ákveða framtíð sína og gæfu er tiltekinn tvískinnungur en oftar en ekki það sem menn bera fyrir sig þegar þeir lýsa andstöðu sinni við að þetta eigi að gera refsivert.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, herra forseti, þá styð ég þetta frv. mjög. Ég vil leggja áherslu á það sem fram kom hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og Guðrúnu Ögmundsdóttur, að það er mikilsvert að við hefjum undirbúning að því að ganga þetta skref Svía til fulls. Ég sé enga ástæðu til að draga á langinn að setjast yfir það mál og vænti þess jafnvel að sú vinna sé í gangi í dómsmrn. Á ágætri ráðstefnu hjá Evrópuþinginu sem ég og Kolbrún Halldórsdóttir sátum saman var m.a. gerð grein fyrir þessari lagabreytingu Svía. Hún vakti mikla athygli þar og það voru margir sem gáfu undir fótinn með það, sérstaklega minnist ég afstöðu Dana á þeirri ráðstefnu að þetta væri kannski rétt og eðlileg leið sem fleiri ríki en Svíar ættu að stefna að.