Verðbréfaviðskipti

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 16:12:39 (4623)

2003-03-10 16:12:39# 128. lþ. 93.4 fundur 347. mál: #A verðbréfaviðskipti# (heildarlög, EES-reglur) frv. 33/2003, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[16:12]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég styð frv. um verðbréfaviðskipti sem hér er til umræðu og vil láta það koma fram í upphafi máls míns. Ég styð einnig þær brtt. sem formaður efh.- og viðskn. hefur lýst. Ég hef engu að síður skrifað undir nál. með fyrirvara. Fyrirvari minn gengur út á flutning minn á brtt. sem styrkir enn frekar aðhald með verðbréfaviðskiptum. Þar tek ég upp örfáar tillögur sem Fjármálaeftirlitið var með en efh.- og viðskn. taldi ekki ástæðu til að taka upp. Jafnframt tek ég upp tillögu frá Neytendasamtökunum.

Ég held að sú heildarlöggjöf um verðbréfaviðskipti sé til verulegra bóta en hún fjallar aðallega um reglur um hegðun á verðbréfamarkaði og reglur um réttindi og skyldur þeirra sem heimild hafa til verðbréfaviðskipta.

Það eru örfá atriði sem ég vil sérstaklega draga fram varðandi þær breytingar sem hér er verið að gera. Ákvæði um réttindi og skyldur fjármálafyrirtækja eru gerðar ítarlegri og fyllri. Ég tel afar jákvætt að flöggunarreglur eru hertar með þeim hætti að flaggað verður við hvern hálfan tug prósenta sem hlutur aðila eykst. Með þessu frv. eru líka innleidd ný refsiúrræði, stjórnvaldssektir sem Fjármálaeftirlitinu er heimilt að beita við tilteknum brotum á ákvæðum laganna um innherjaviðskipti.

[16:15]

Ég tel líka ástæðu til að fagna sérstaklega þeirri samstöðu sem náðist í nefndinni með því að taka upp ákvæði sem hefur verið nokkuð í umræðunni en það fjallar um það að margir hafa talið nauðsynlegt að lækka það hlutfall atkvæðisréttar sem leiðir til yfirtökuskyldu, eins og fram kemur í nefndarálitinu, herra forseti, sem ég ætla að vitna í, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að hluthafar eru í flestum tilvikum komnir með ráðandi hlut áður en skylda til yfirtökutilboðs stofnast samkvæmt gildandi reglum. Með lægra hlutfalli atkvæðisréttar sem leiðir til yfirtökuskyldu eru hagsmunir hluthafa í yfirteknu félagi betur tryggðir. Þá er talið að lækkun hlutfallsins leiði til skilvirkari hlutabréfamarkaðar. Nefndin leggur af þessum sökum til að hlutfallið verði lækkað niður í 40%. Ljóst er að slíkt atkvæðamagn gerir hluthöfum í flestum tilvikum kleift að hafa ráðandi áhrif á stjórnun félaga.``

Ég hefði, herra forseti, vel talið að það ætti að koma til skoðunar að lækka þetta hlutfall enn meira. Raunar er tekið undir það í nál. að að taka beri það til gaumgæfilegrar skoðunar hvort rétt sé að lækka hlutfallið enn meira.

Ég vil þá víkja að þeim fjórum brtt. sem ég flyt.

Í fyrsta lagi geri ég brtt. við 4. gr. Ég legg til að þar bætist við ný málsgrein sem orðist svo, með leyfi forseta:

,,Fjármálafyrirtæki skulu starfa í samræmi við leiðbeiningarreglur sem Fjármálaeftirlitið gefur út um það hvað teljist góðir viðskiptahættir í verðbréfaviðskiptum.``

Þetta er tillaga sem Neytendasamtökin leggja til og segja um þá tillögu sína að þau telji að vísun 4. gr. til góðra viðskiptahátta sé skírskotun til einhvers sem er afar lítið mótað, eins og er í frv. núna, enda eru venjur í verðbréfaviðskiptum hér á landi takmarkaðar. Af þessum sökum leggja samtökin til að Fjármálaeftirlitið gefi út leiðbeinandi reglur sem fjármálafyrirtækjum beri að starfa eftir.

Þetta er tillaga sem ég vil gera að minni og flyt hér sem tillögu til breytinga við þetta frv.

Ég vil líka nefna að ég tek upp aðra brtt. frá Neytendasamtökunum, en fram kemur í umsögn Neytendasamtakanna að þeir telja eðlilegt að áður en staðlaðir, viðvarandi samningar komi til framkvæmda séu þeir yfirfarnir af Fjármálaeftirlitinu. Ég hygg að það sé afar mikilvægt og mikil neytendavernd í því fólgin og öryggi að áður en slíkir viðvarandi staðlar í samningum komi til framkvæmda séu þeir yfirfarnir af Neytendasamtökunum. Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að taka þetta upp og geri um það tillögu sem er 2. töluliður í brtt. minni sem ég flyt.

Loks tek ég upp tillögur frá Fjármálaeftirlitinu. Það er í fyrsta lagi við 8. gr. frv. Sú brtt. fjallar um óskráð verðbréf og óskráða afleiðusamninga, en í umsögn Fjármálaeftirlitsins um þessa brtt. segir, með leyfi forseta:

,,Fjármálaeftirlitið telur rétt að vekja athygli á því að í 8. gr. frv. er fólgin þrenging á vernd fjárfesta við kaup á óskráðum verðbréfum frá því sem er í 27. gr. gildandi laga. Þrengingin á sér stað með tvennum hætti. Í fyrsta lagi er í frumvarpinu notað hugtakið ,,óskráð verðbréf``, en hugtakið verðbréf hefur þrengri merkingu samkvæmt frumvarpinu en það hefur í núgildandi lögum og af því leiðir að ákvæðið í frumvarpinu tekur ekki til óskráðra afleiðusasmninga líkt og núgildandi ákvæði gerir. Í öðru lagi eru fjármálafyrirtæki undanskilin skyldu til þess að leggja mat á þekkingu, fjárhag og reynslu viðskiptavinar við sölu á óskráðum verðbréfum hafi þau upphaflega verið seld í almennu útboði. Það er mat Fjármálaeftirlitsins að þessi þrenging sé óheppileg þar sem ljóst er að áhætta fjárfesta sem kaupa þær fjármálaafurðir sem hér eru undanskildar kann að vera jafnmikil eða meiri en þeirra sem kaupa önnur óskráð verðbréf.``

Ég tel, herra forseti, að full rök séu til þess að taka upp þessa brtt. Fjármálaeftirlitsins og fæ ekki skilið að meiri hluti efh.- og viðskn. hafi ekki tekið upp þá tillögu.

Þess vegna flyt ég í 3. tölul. brtt. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Við 8. gr.

,,a. 1. málsliður orðist svo: Sala fjármálafyrirtækis eða milliganga þess um sölu á óskráðum verðbréfum og óskráðum afleiðusamningum til annarra en fagfjárfesta er háð því að lagt hafi verið mat á faglega þekkingu, fjárhag og reynslu viðskiptavinar, enda sé ekki um að ræða sölu eða milligöngu í almennu útboði verðbréfa.``

Samkvæmt þessu hljóðar b-liður 3. tölul. brtt. svo, með leyfi forseta:

,,b. Fyrirsögn greinarinnar orðist svo: Sala óskráðra verðbréfa og óskráðra afleiðusamninga.``

Loks tek ég upp brtt. og er hún frá Neytendasamtökunum. Hún fjallar um breytingu á 2. mgr. 55. gr. frv. sem fjallar um sektir.

Neytendasamtökin segja í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,Neytendasamtökin telja óásættanlegt að til að brot á II. kafla laganna um réttindi og skyldur varði sektum verði brotið annaðhvort að vera gróft eða ítrekað. Hér er nánast farið fram á ásetning. Að mati Neytendasamtakanna verða neytendur að geta treyst því að fjármálafyrirtækjum sé veitt raunverulegt aðhald.``

Þeir mæla með breytingu sem miðar að því að réttindi og skyldur skv. II. kafla laganna falli undir þessi sektarákvæði. Tel ég að þetta veiti nauðsynlegt aðhald og tek því upp þessar tillögur Neytendasamtakanna.

Herra forseti. Ég get lokið máli mínu. Ég ítreka það að ég styð frv., styð brtt. meiri hlutans í þessu efni sem ég tel að séu allar til bóta og styrki frv., en flyt örfáar brtt. eins og ég hef hér lýst. Það eru tillögur frá Neytendasamtökunum og Fjármálaeftirlitinu. Það eru hvort tveggja mikilvægir eftirlitsaðilar með því að verðbréfamarkaðurinn virði leikreglur og að þar sé haldið uppi eðlilegum leikreglum til þess að sá markaður virki eðlilega. Þessar tillögur eru því til þess fallnar að veita frekara aðhald með verðbréfaviðskiptum og vænti ég þess að þingheimur líti jákvætt á það þegar til atkvæðagreiðslu á þessum tillögum kemur.