Verðbréfaviðskipti

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 16:23:56 (4624)

2003-03-10 16:23:56# 128. lþ. 93.4 fundur 347. mál: #A verðbréfaviðskipti# (heildarlög, EES-reglur) frv. 33/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[16:23]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Í nál. með frv. kemur fram að þetta sé í tíunda skipti sem breyting er gerð á lögum um verðbréfaviðskipti frá því að þau voru sett fyrst árið 1996. Fyrirsjáanlegt er að breytinga er enn von, að þörf er á frv. í haust til að samræma lögin því sem er að gerast á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þetta er til marks um hve þróunin er ör á þessu sviði.

Í nefndinni var ekki ágreiningur um frv. eins og hér hefur komið fram. Menn deildu eða öllu heldur skiptust á skoðunum um það því að engar miklar deilur risu í nefndinni út af frv. hve stór skref menn ættu að stíga á þessu stigi. Ég er sammála hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að það hefði mátt stíga ívið stærri skref að ýmsu leyti og þær tillögur sem hún hefur talað fyrir, þær brtt. við frv., eru í samræmi við ábendingar sem fram komu frá Neytendasamtökunum og Fjármálaeftirlitinu.

Hins vegar er alveg ljóst að frv. er til mikilla bóta. Um það er samstaða þegar á heildina er litið. Fyrirvari minn við undirskrift undir nál. var þessi: Ég mun styðja þær brtt. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talaði fyrir en að öðru leyti mun ég styðja þetta frv.