Meðhöndlun úrgangs

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 16:28:46 (4625)

2003-03-10 16:28:46# 128. lþ. 93.26 fundur 338. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv. 55/2003, Frsm. MS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[16:28]

Frsm. umhvn. (Magnús Stefánsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður lék á mig. Ég hélt að hann mundi tala lengur. En svona er þetta nú stundum.

Ég mæli fyrir nál. frá umhvn. um frv. til laga um meðhöndlun úrgangs. Frumvarpið er samið með hliðsjón af tilskipun Evrópusambandsins um urðun úrgangs en jafnframt er tekið mið af eldri tilskipunum á þessu sviði. Markmið frumvarpsins er að stuðla að því að meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið og valdi ekki mengun. Auk þess er það markmið laganna að draga skipulega úr myndun úrgangsefna eftir því sem unnt er með endurnotkun og endurnýtingu. Nefndin leggur áherslu á að tilskipunin er byggð á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Með sjálfbærri þróun eða sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda er átt við þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum. Hugmyndafræðin byggist m.a. á því að náttúruauðlindir skuli ekki nýttar á þann hátt að af hljótist mengun eða að umhverfinu sé spillt á annan hátt. Nefndin bendir á að gæta verður jafnt að öllum þremur þáttunum sem hugmyndafræðin er spunnin úr, þ.e. þeim efnahagslega, samfélagslega og vistfræðilega. Mikilvægt er að tengja ævinlega saman efnahagslegar og vistfræðilegar forsendur þegar fjallað er um meðhöndlun úrgangs og gæta þess að vistfræðilegum forsendum sé gert jafnhátt undir höfði og hinum efnahagslegu og tæknilegu.

[16:30]

Við umfjöllun málsins hjá nefndinni hafa sveitarfélög í landinu látið í ljós áhyggjur af verulegum kostnaðarauka sem miklar líkur eru á að lögfesting frumvarpsins muni hafa í för með sér. Hefur nefndin leitað leiða til að staðreyna að einhverju marki kostnaðinn við lögfestingu þess. Hins vegar hefur komið fram á fundum nefndarinnar með ýmsum aðilum að óvissuþættir varðandi framkvæmd laganna og reglugerða sem settar verða samkvæmt þeim eru það miklir að raunhæfu kostnaðarmati verður ekki komið við. Í tilskipun Evrópusambandsins eru sett fram markmið um að draga úr magni lífræns úrgangs sem fer til urðunar á ákveðnu tímabili, þ.e. næstu 15--20 ár. Sveitarfélögin munu þurfa að ákveða hvaða leiðir þau telja vænlegast að fara til að ná þessu markmiði. Mun það einnig hafa áhrif á það hver kostnaðaraukinn verður en fyrir liggur að hvaða leið sem valin verður mun hann verða töluverður. Tímafrestur sá sem Ísland hefur til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart EES-samningnum er hins vegar liðinn og hefur formleg athugasemd vegna innleiðingar tilskipunarinnar borist umhverfisráðuneytinu frá Eftirlitsstofnun EFTA.

Í ljósi framangreinds mælist nefndin til þess að umhverfisráðherra beiti sér fyrir því að tryggt verði að markmiðum laganna verði náð með eins litlum kostnaðarauka og unnt er. Jafnframt að leitast verði við að tryggja að áhrif og framkvæmd laganna verði könnuð eftir því sem reynsla fæst af framkvæmd þeirra og sveitarfélögunum verði tryggðar tekjur til að standa undir þeim kostnaðarauka sem af þeim hlýst. Leggur nefndin til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem gert er ráð fyrir að samráðsnefnd umhverfisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga verði sett á laggirnar og starfi frá gildistöku laganna til ársins 2010 um framkvæmd laganna. Nefndin skal skipuð sex mönnum, þremur frá hvorum aðila, og skal hlutverk hennar vera að fylgjast með þróun meðhöndlunar úrgangs hérlendis og á Evrópska efnahagssvæðinu. Nefndin skal einkum fylgjast með hvernig markmiðum laganna er náð og meta þann kostnað sem af hlýst og skila árlega skýrslu til umhverfisráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga þar um og setja eftir þörfum fram tillögur um hvernig kostnaðinum verði mætt.

Í 15. gr. frumvarpsins eru reglur um starfsleyfistryggingu sem rekstraraðila urðunarstaðar er skylt að leggja fram og skal vera í gildi vegna vöktunar urðunarstaðar í 30 ár eftir að honum er lokað. Nokkur umræða fór fram í nefndinni um ákvæðið sem getur verið afar íþyngjandi fyrir rekstraraðila. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kemur fram að tvær leiðir komi einkum til greina til að uppfylla ákvæðið eftir því hvort rekstraraðili er einkaaðili eða sveitarfélag. Áætlað er að árlegur kostnaður við eftirlit á urðunarstað sé á bilinu 0,2--1,5 millj. kr. á ári eða allt upp í 45 millj. kr. á 30 árum. Sé sveitarfélag rekstraraðili er litið svo á að það geti ábyrgst þá fjárhæð sem starfsleyfistrygging miðast við. Ef hins vegar rekstraraðili er einkaaðili þarf hann að safna tilskilinni fjárhæð í sérstakan tryggingarsjóð. Við umfjöllun málsins var rætt um hvort þetta ákvæði leiddi til þess að einkaaðilar yrðu ekki samkeppnisfærir við rekstraraðila sem væri sveitarfélag. Í 11. gr. er gjaldtökuheimild þar sem rekstraraðila er gert að innheimta gjald fyrir allan kostnað við förgun úrgangs, þar með talið trygginguna eða jafngildi hennar. Skiptir þar ekki máli hvort rekstraraðili er sveitarfélag eða einkaaðili. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að þessir aðilar verði í sömu stöðu.

Í 2. mgr. 17. gr. kemur fram að vakta skuli urðunarstað svo lengi sem telja má að mengunarhætta stafi af honum, eða að jafnaði í 30 ár frá lokun hans. Lítur nefndin svo á að Umhverfisstofnun meti þörfina á vöktun og að meginreglan sé að urðunarstaður skuli vaktaður í 30 ár en víkja megi frá tímaviðmiðinu í báðar áttir.

Herra forseti. Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frv. sem koma fram á þingskjali 1117 og mælir með samþykkt frv. með þeim breytingum.

Undir þetta álit skrifa auk mín hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Ásta Möller og Ísólfur Gylfi Pálmason. Gunnar Birgisson skrifar undir með fyrirvara.

Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru Kristján Pálsson, Katrín Fjeldsted og Jóhann Ársælsson.