Meðhöndlun úrgangs

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 16:51:26 (4630)

2003-03-10 16:51:26# 128. lþ. 93.26 fundur 338. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv. 55/2003, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[16:51]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef það á að fara að skilja að lífrænt sorp og annað sorp þá kostar það peninga, mikla peninga. Spurningin er síðan hvort þetta verði allt sett í sama hauginn þegar búið er að flokka það af því að kostnaðurinn er svo gífurlegur við að koma því í lóg.

Það er rétt hjá hv. þm. að sums staðar erlendis eru staðir með ílátum fyrir sorp þar sem hægt er að flokka sorp. Það er ekki gert ráð fyrir því í skipulagi í íslenskum bæjarfélögum. Það þyrfti þá að breyta því. En ég er hræddur um að það yrði verulega breyting á uppbyggingu hverfanna eins og þau eru í dag.

En ég segi: Hvers vegna ekki að nota þetta gas sem gæti nýst okkur í áratugi? Við vitum að þetta er óæskilegt efni og eins og einhver sagði eru náttúrlega fleiri sem framleiða þetta gas en bara sorphaugar. Hér eru líka skepnur sem gera það. Hvað á að ganga langt í þessum efnum?

Ég er að vara við því að kostnaðurinn verði svo gífurlegur að þetta verði ókleift verkefni. Það er mjög létt í vasa að segja að flokkun sorps muni hafa í för með sér sparnað til framtíðar. Þetta kostar. Stofnkostnaðurinn er gífurlegur og sorphirðan verður mun dýrari. Er ekki betra að hafa niðurbrotið hraðara og nýta gasið sem úr því kemur í okkar þágu?