Meðhöndlun úrgangs

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 16:55:17 (4632)

2003-03-10 16:55:17# 128. lþ. 93.26 fundur 338. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv. 55/2003, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[16:55]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er allt rétt. Ég þekki til hins sama í mínu sveitarfélagi. Við höfum verið með tilraun með grænar fjölskyldur til að gera slíka hluti. Þetta er gott mál ef fólk er í sérbýli en málið vandast í svona málum í fjölbýli. Það er einungis hægt að taka ákveðinn hluta úrgangsins svona. Hvað á þá að gera við hitt? Eigum við ekki að reyna að nýta þetta okkur til framdráttar og horfa til framtíðarkynslóðanna? Þarf ekki að brjóta þetta sorp hraðar niður með því að blanda þessu saman að einhverjum hluta?

Aftur á móti er ég sammála því að það þarf meiri fræðslu í þessum málaflokki, bæði í leikskólum og í grunnskólum, til að koma á hugarfarsbreytingu og draga úr sorpi. Við erum neysluþjóðfélag. Við kaupum mikið og hendum miklu og ég held að á margan hátt sé hægt að laga þau mál. Ég er fylgjandi því.

En ég er ekki fylgjandi lagasetningu sem verður íþyngjandi og hefur gífurlegan kostnað í för með sér án þess að markmið hennar náist.