Tollalög

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 20:06:12 (4638)

2003-03-10 20:06:12# 128. lþ. 94.35 fundur 611. mál: #A tollalög# (aðaltollhöfn í Kópavogi) frv. 32/2003, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[20:06]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir þetta nál. um breyting á tollalögum. Með frumvarpinu er lagt til að Kópavogshöfn verði aðaltollhöfn sem hefur þá þýðingu að skip sem eru í förum til og frá landinu geta fengið fyrstu og síðustu tollafgreiðslu hér á landi við höfnina. Ég tel að þetta sé ágætismál og styð það.

Ég taldi ekki ástæðu til þess að hafa fyrirvara í málinu en þó hef ég nokkuð við vinnubrögð sem viðhöfð voru í þessu máli að athuga. Í fyrsta lagi kom málið mjög seint fram og hefði þurft að skoða það betur í nefnd, m.a. hjá svæðisskipulagi á höfuðborgarsvæðinu sem hefði þurft að koma að málinu.

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að fara aðeins ofan í umsögn sem barst frá Árna Þór Sigurðssyni, forseta borgarstjórnar Reykjavíkur, formanni Hafnasambands sveitarfélaga, þar sem gagnrýni hans á þetta mál kemur fram. Vil ég fara yfir það álit. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Málið hefur m.a. verið sent til umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga og Hafnasambands sveitarfélaga en stjórnir þeirra hafa kosið að senda ekki umsögn um málið. Ástæðurnar eru augljósar, hagsmunir aðildarsveitarfélaga og aðildarhafna kunna að rekast á í þessu máli og því ekki eðlilegt að landssambönd af þessum toga taki afstöðu til málsins.

Ég vil þó ekki láta hjá líða að benda þér og nefndinni á að málið getur m.a. varðað svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins. Það skipulag var samþykkt af öllum sveitarstjórnunum átta á svæðinu sl. vor og var skipulagið staðfest af umhverfisráðherra þann 20. desember og hefur þannig gildi skv. 12. og 13. gr. skipulagslaga, nr. 73/1997, með síðari breytingum. Í svæðisskipulaginu er m.a. fjallað um hafnamál. Þar segir m.a. um uppbyggingu hafnanna á svæðinu:

,,Uppbygging hafna á höfuðborgarsvæðinu er mikilvægur hluti af svæðisskipulaginu og þessar hafnir eru miðstöðvar vöruflutninga til og frá landinu. Reykjavíkurhöfn verður áfram ráðandi vöruflutningahöfn á Íslandi, einkum fyrir gámaflutninga, olíu og fleira. Hafnarfjarðarhöfn verður efld sem þjónustuhöfn, m.a. fyrir fiskiskipaflotann, auk þess að vera áfram stór flutningahöfn. Miðað er við að Straumsvíkurhöfn geti stækkað í tengslum við stækkun álvers þar eða aðra stóriðju í næsta nágrenni. Ekki verði gert ráð fyrir öðrum vöruflutningahöfnum á höfuðborgarsvæðinu. Kópavogshöfn hefur takmarkaða möguleika á stækkun með landfyllingum og viðlegurými. Hlutverk hennar verður fyrst og fremst á sviði viðgerða og þjónustu.````

Herra forseti. Hér lýkur tilvitnun í það sem segir í svæðisskipulaginu um hafnamál.

Í lok þessarar umsagnar frá formanni Hafnasambands sveitarfélaga segir, með leyfi forseta:

,,Þessi stefnumörkun í svæðisskipulaginu er skýr og var samþykkt eins og áður segir af sveitarstjórnunum öllum á svæðinu á síðasta ári.

Umhverfisráðherra hefur staðfest svæðisskipulag sem gengur út frá þessari stefnu. Það frumvarp til breytinga á tollalögum sem nefndin hefur til umfjöllunar fer að mati undirritaðs ljóslega í bága við þessa stefnumörkun og staðfest skipulag. Verður ekki séð að hægt sé að byggja Kópavogshöfn upp eins og frumvarpið gerir ráð fyrir nema að undangenginni umfjöllun samvinnunefndar um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og, ef nefndin fellst á að breyta skipulaginu í þessa veru, að fara með slíka skipulagsbreytingu í samræmi við ákvæði 14. gr. skipulagslaga.``

Herra forseti. Ég taldi ástæðu til að halda þessu sjónarmiði sem hér kemur fram hjá formanni Hafnasambands sveitarfélaga til haga. Þar kemur ljóslega fram, herra forseti, að hann telur að þessi breyting á tollalögum brjóti í bága við þessa stefnumörkun sem hann lýsti í sinni umsögn og staðfest skipulag og telur hann að ekki sé hægt að byggja Kópavogshöfn upp eins og frv. gerir ráð fyrir nema að undangenginni umfjöllun samvinnunefndar um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og er nauðsynlegt að það sjónarmið komi inn í þessa umræðu þegar við erum að fjalla um þetta mál.

Þó ber að árétta, eins og fram kom í upphafi umsagnarinnar, að málið var sent til umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Hafnasambands sveitarfélaga sem kaus að senda ekki inn umsögn um málið. Það hlýtur að vega ansi þungt þegar þessir aðilar telja ekki ástæðu til að senda inn umsögn um málið. Vera má að á því séu skiptar skoðanir hvort breyta þurfi svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins miðað við þá breytingu sem hér er verið að gera á tollalögunum. En því miður, herra forseti, fékkst ekki úr því skorið á þeim stutta tíma sem nefndin hafði málið til umfjöllunar.

Herra forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir þeirri umsögn sem kom um þetta mál. Gagnrýni mín beinist eingöngu að því að nefndin hafði ekki tíma, tök eða tækifæri til þess að staðreyna það sem fram kemur í umsögninni um að frv. gangi gegn svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Á það verður þá að reyna síðar og hlýtur að vega þungt í því sambandi, eins og ég nefndi, að Samband íslenskra sveitarfélaga og Hafnasamband sveitarfélaga kusu að senda ekki inn umsögn um þetta mál.