Heilbrigðisþjónusta

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 21:05:52 (4644)

2003-03-10 21:05:52# 128. lþ. 94.33 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv. 78/2003, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[21:05]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu eins og kynnt hefur verið. Þetta frv. var lagt fram skömmu fyrir jólaleyfi þingmanna. Ég vil láta það koma fram í upphafi að ég var erlendis við þá umræðu og tók ekki þátt í henni og sömuleiðis var ég svo óheppin að vera fjarverandi þann dag sem heilbrn. afgreiddi málið og tók það úr nefnd, þannig að ég skrifa hvorki undir nál. frá nefndinni né er með sérstakt nál. sem ég hefði nú verið með ef ég hefði verið á þessum síðasta fundi. Ég vildi að þetta kæmi fram hvað varðar aðkomu mína að umræðunni fyrir jólin, því ég tók ekki þátt í henni.

En ég mæli hér fyrir breytingartillögum en engu nál. sem ganga út á það, án þess að ég sé að lýsa því nánar, að halda inni stjórnum heilbrigðisstofnana, þ.e. heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa sem rekin eru af ríkinu, fyrir utan Landspítala -- háskólasjúkrahús. Þar er og verður áfram sérstjórn.

Með breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem voru samþykkt árið 1996 breyttist starfssvið og ábyrgð framkvæmdastjóra heilbrigðisstofnana og við það að ábyrgðin er algjörlega þeirra hvað varðar rekstur stofnananna varð hlutverk stjórna heilbrigðisstofnana svolítið í lausu lofti og hafa allir fundið fyrir því að skýra þurfi hlutverk stjórnanna betur. Það er alveg ljóst að stjórnir heilbrigðisstofnana eiga að hafa eftirlit með rekstri og eins að vera ráðgefandi, en þetta er ekki nægilega skýrt og ég geri tillögu um það að hlutverk stjórna verði skýrt í lögunum.

En sannarlega hafa komið misvísandi umsagnir frá heilbrigðisstofnunum. Stór hluti þeirra sem hafa gefið umsögn vilja hafa stjórnirnar áfram og telja það mikilvægt til þess að tengja viðkomandi heilbrigðisstofnanir við íbúa svæðisins, við sveitarstjórnirnar og telja þetta samráð vera mikilvægt, og það er það. Og þó svo að hv. heilbrn. hafi lagt fram brtt. þar sem koma eigi á sambandi við íbúa viðkomandi svæðis og sveitarstjórnir með reglubundnum fundum allt að fjórum sinnum á ári, þá er það ekki það sama og að hafa þetta samráð í gegnum stjórnir. Það er annars konar nálgun og mér finnst að það geti farið mjög vel saman að halda núverandi stjórnum og hafa þær eins skipaðar og þær eru í dag, því þetta er fyrst og fremst til ráðgjafar og til þess að styrkja sambandið á milli þeirra sem fara með framkvæmd stofnunarinnar og út í samfélagið og ná þar samhljómi við það sem sveitarstjórnirnar eru að gera og inn á það svið þar sem áhugi íbúanna liggur varðandi ákveðin verkefni og tvinnast þá oft saman áhuginn á svæðinu að fara í átaksverkefni þar sem aðilar geta hjálpast að, t.d. í fíkniefnaforvörnum eða varðandi ofbeldi, einelti, samþættingu skóla, félagsþjónustu og heilsugæsluþjónustu. Þennan samþættingarþátt þurfum við að efla miklu meira og þarna geta stjórnirnar með fulltrúum frá sveitarfélögunum komið að og verið miklu ábyrgari heldur en að bara séu haldnir fundir.

Þess vegna legg ég til og styð það að við styrkjum framkvæmdastjórnirnar eins og gert er í brtt. hv. heilbr.- og trn., að framkvæmdastjórnirnar fái ákveðna lagastoð, hægt verði að stækka þær ef áhugi er á því, en þær eru fyrst og fremst framkvæmdastjórnir og virka sem slíkar og ég tel ekki heppilegt að þær séu stórar. Þriggja manna framkvæmdastjórn hefur virkað mjög vel og þó svo að bætt verði við fulltrúa frá starfsmönnum gæti það gengið, en ég tel að miklu stærri framkvæmdastjórnir yrðu ekki mjög virkar.

Mér finnst það geta farið alveg saman að halda stjórnunum eins og þær eru í dag og eins skipuðum og þá á þessari forsendu, en jafnframt að skjóta stoðum undir framkvæmdastjórnirnar og að auk þess séu haldnir fundir reglulega með starfsmönnum stofnananna, ekki veitir af, og eins með íbúum viðkomandi svæðis. Með því mundum við vera að stórauka íbúalýðræði og við mundum líka vera að efla atvinnulýðræði og ég tel að við eigum að standa vörð um þetta, enda vil ég benda á að hæstv. heilbrrh. hefur óskað eftir tilnefningu í nefnd sem á að yfirfara öll lögin um heilbrigðisþjónustu, allt innihaldið, uppbygginguna og hvernig við viljum hafa heilbrigðisþjónustuna í landinu. Þetta er nefnd sem á að gefa sér a.m.k. ár ef ekki meira til að starfa. Það á að ná víðtækri sátt um niðurstöður þeirrar nefndar og ég tel að við eigum að geyma allar svona breytingar og vísa þeim inn í þá nefnd. Það er ástæðulaust að vera að rífa þetta upp eins og þetta er í dag.

Ég legg til að við núverandi lagagrein um stjórnir heilsugæslustöðvanna bætist nýr svohljóðandi málsliður: ,,Hlutverk stjórnar er að hafa eftirlit með rekstri heilsugæslustöðva og vera ráðgefandi varðandi þjónustu stofnunarinnar.`` Festa þetta. Þetta er hlutverk þeirra. Það er framkvæmdastjórinn sem fer með æðsta vald og er ábyrgur gagnvart ráðherra. En ég tel mig geta talað af nokkurri reynslu að það á eftir að myndast mikið tómarúm hjá framkvæmdastjórum víða um land að hafa ekki stjórnirnar sér til ráðgjafar og stuðnings við erfiðar ákvarðanatökur því erfiðar ákvarðanatökur bíða margra. Töluvert fjármagn vantar og á sumum stöðum vantar mikið fjármagn inn í reksturinn eins og hann er í dag. Stofnanirnar voru reknar með halla á síðasta ári og sá halli var ekki bættur. Það kom aukafjármagn til sárafárra heilbrigðisstofnana fyrir rekstur á þessu ári, þannig að fyrirsjáanlegt er að vandinn verður mikill þegar líður á árið og þá þarf að skera niður. Víða er búið að spara á öllum þeim sviðum sem hægt er að spara, segja upp stöðu hér og stöðu þar og klípa niður einstök atriði, hafa ódýrari matvöru og leita allra ódýrustu leiða til þess að reka stofnunina og það er bara ekki hægt að finna fleiri smugur. Og þá er komið að þeim punkti að skera þurfi niður þjónustuna. Það er kannski ekki síst með þjónustuna sem snýr að íbúum viðkomandi svæðis sem skiptir okkur öll svo miklu máli, og þar sé ég stjórnina vera þennan mikla stuðning við framkvæmdastjóra og framkvæmdastjórn við að taka þessar afdrifaríku ákvarðanir þegar kemur að því að skera niður ákveðna rekstrarþætti ef fjármagn kemur ekki inn í reksturinn eins og þarf. Þegar ekki er hægt að finna fleiri litlar smugur kemur að því að velja.

[21:15]

Eigum við að loka fæðingardeildinni? Eigum við að loka einni af þessum þremur heilsugæslustöðvum af því að fólk getur keyrt á hálftíma eða þrem korterum á milli? Eigum við e.t.v. að loka alzheimer-deildinni eða öldrunardeildinni? Hvað eigum við að gera? Þetta eru allt ákvarðanir sem eru og verða sársaukafullar og það er mikilvægt að vinna málið með íbúum svæðisins. Er hægt að ná samstöðu um hvar eigi að skera niður eða er hægt að standa saman um að benda á lausnir og knýja á um meira fjármagn?

Þetta er sannarlega enn eitt skrefið til miðstýringar. Þótt stjórnirnar hafi átt erfitt með að finna sér hlutverk eða vita hvar þær stæðu hafa þær verið þarna og ég er alveg sannfærð um það, herra forseti, að þar sem hefur verið unnið að því af mikilli eljusemi að sameina heilbrigðisstofnanir, sjúkrahús og heilsugæslustöðvar, á stórum svæðum, eins og í Þingeyjarsýslu og á Austurlandi, skiptu stjórnirnar máli. Aldrei hefði tekist að koma á fót Heilbrigðisstofnun Austurlands nema vegna þess að þar var stjórn sem sveitarfélögin, svæðin, gátu tilnefnt í. Þar með vissu þau að þau hefðu aðgang að stjórnun stofnunarinnar, a.m.k. möguleika á að standa vörð um þjónustuna í sveitarfélaginu sínu. Ef þessi stjórn hefði ekki verið til staðar er ég alveg sannfærð um að Heilbrigðisstofnun Austurlands væri ekki til í dag. Þetta var samnefnari, þetta var það sem fólk gat séð sem tryggingu fyrir því að eiga aðild að stofnuninni á viðkomandi svæði.

Þegar fjármagn er takmarkað eru allir á varðbergi um það hvort þjónustan haldist og það er eðlilegt að fólk sé á varðbergi með að halda fulltrúum sínum inni í þessum stjórnum.

Það má líka benda á að það var sömuleiðis aðgerð til miðstýringar að leggja niður embætti héraðslækna fyrir ári. Það má segja að á þeim svæðum þar sem búið var að steypa saman heilbrigðisstofnunum, sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum, í eitt hafi hlutverk héraðslækna á því svæði minnkað eða orðið annað þegar það færðist yfir á stjórn þessara stofnana. Eftir sátu þá önnur svæði þar sem sameining hefur ekki átt sér stað og verður hugsanlega ekki á næstunni, þar sem embætti héraðslæknisins var mikilvægt. Það er rétt að það komi fram að embættunum var á sínum tíma ætlað meira hlutverk en þau höfðu nokkurn tíma tækifæri til að þróast í. Þegar allt sogast hingað miðlægt dafna heldur ekki embætti eins og héraðslæknaembættin hefðu átt að hafa tækifæri til.

Auk þess er rétt að það komi fram að sveitarstjórnirnar spara ekkert með þessu frv. Þó að þær losni undan 15% þátttöku í byggingu og rekstri sjúkrastofnana, heilsugæslu og sjúkrahúsa, mun framlag jöfnunarsjóðs minnka í sama mæli og framlag þeirra hafði verið til þessa reksturs. Hér er því eingöngu verið að ná fram hreinni verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga en það er enginn sparnaður hvað varðar sveitarfélögin við þessa aðgerð.

Ég vil benda á að í brtt. á þskj. nr. 1149 sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Jón Bjarnason eru meðflutningsmenn mínir að leggjum við til að það eigi einnig við um sjúkrahúsin, fyrir utan Landspítalann -- háskólasjúkrahús, að áfram verði skipað samsvarandi í þær stjórnir.

Hv. þm. Kristján Möller vitnaði til ýmissa umsagna heilbrigðisstofnana um frv. og sannarlega dró hann þar fram umsagnir þeirra stofnana sem leggjast alfarið gegn þessari breytingu sem við tökum undir sem flytjum hér brtt. Það er aðeins eðlismunur á tillögum okkar. Samfylkingin vill breyta samsetningu stjórnanna þannig að rekstri stofnananna verði alfarið komið yfir á ríkissjóð en við leggjum til að þær verði óbreyttar, og þá vísum við til þessa íbúalýðræðis.

Ég ætla ekki, herra forseti, að lesa hér allt upp sem hv. þm. Kristján Möller las áðan. Ég vil draga sérstaklega fram, því að það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra og það kemur fram í nál. hv. heilbr.- og trn., að það er fullt samkomulag á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytisins, en það kemur fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frv., með leyfi forseta:

,,Í aðdraganda að gerð umrædds samkomulags var aldrei að því vikið einu orði að stjórnir umræddra stofnana yrðu lagðar niður í tengslum við brotthvarf fulltrúa sveitarfélaga í stjórn tilgreindra heilbrigðisstofnana. Þá fyrirhuguðu ákvörðun er ekki með neinum hætti hægt að tengja við umrætt samkomulag. Í samkomulaginu kemur einvörðungu fram að sveitarfélögin afsala sér lögbundnum rétti til tilnefningar í stjórnir hlutaðeigandi stofnana um leið og þátttaka þeirra í stofnkostnaði og viðhaldi stofnananna fellur niður.

Samband íslenskra sveitarfélaga gerir fyrir sitt leyti engar athugasemdir við að áfram verði skipaðar stjórnir fyrir hlutaðeigandi stofnanir þótt sveitarfélögin eigi ekki lögbundinn rétt til tilnefningar fulltrúa sinna í þær stjórnir.``

Það verður að vera alveg skýrt að þetta var ekki hluti af þessu samkomulagi enda hefur Samband íslenskra sveitarfélaga ekkert umboð til þess að semja svona án þess að vera þá með umboð frá sveitarstjórnum. Samband íslenskra sveitarfélaga hafði ekki þetta umboð enda var þetta ekki hluti af samkomulaginu. Þess vegna má það ekki standa eftir hér í gögnum frá þingi, bæði í ræðu hæstv. heilbrrh. og í nál., að þetta hafi verið samkomulag. Það var það ekki.

Með tilliti til þess að það er verið að endurskoða öll lögin og fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu í landinu legg ég til að þessi hugmynd verði lögð til hliðar þó að við hreinsum svolítið til hvað varðar verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og máum út þessa 15% þátttöku sveitarfélaganna, þ.e. í byggingum framtíðarinnar og rekstrarkostnaði frá og með að það yrði þá samþykkt að fella niður 15%.

Svo eru fagfélögin, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggst eindregið gegn þessu og er auk þess með hugmyndir um hjúkrunarráð sem er ekki nýtt af nálinni. Svo lengi sem ég hef starfað við hjúkrun hefur verið einlægur áhugi hjúkrunarfræðinga að koma á hjúkrunarráðum, samsvarandi læknaráðum, til að fá umsagnir þeirrar fagstéttar hvað varðar ákvarðanatöku í ýmsum stjórnunaraðgerðum heilbrigðisstofnananna, ekki síður en læknaráðsins.

Það vildi svo illa til að umsögn frá Heilbrigðisstofnun Austurlands barst ekki hv. heilbr.- og trn. Ég fór að leita eftir henni og sá að sú stofnun hafði sent umsögn en það hafði bara orðið eitthvert óhapp hvað varðaði afgreiðslu hennar, hún hafði aldrei farið frá stofnuninni. Ég er með hana hér undir höndum en hún komst ekki til afgreiðslu heilbr.- og trn.

Mig langar, með leyfi herra forseta, að lesa þessa umsögn:

,,Framkvæmdastjórn HSA`` --- sem er Heilbrigðisstofnun Austurlands --- ,,hefur leitað eftir áliti frá lækna- og hjúkrunarráði HSA um ofangreint frumvarp. Báðir aðilar hafa svarað erindinu og fylgja tilvitnanir í umsagnir. Þær eru efnislega líkar og framkvæmdastjórn er þeim sammála.

Álit hjúkrunarráðs er svohljóðandi: Forsendur fyrir breytingu laga eru sagðar samningar milli ríkis og sveitarfélaga um niðurfellingu 15% hlutdeildar sveitarfélaga í stofnkostnaði og almennu viðhaldi innan heilbrigðisstofnana. Ríkið ætlar að sama skapi að fella niður sömu upphæð til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Helstu breytingar í þessu frv. eru að leggja niður stjórnir heilsugæslustöðva og heilbrigðisstofnana.

Okkar álit: Þó að stjórnir við heilbrigðisstofnanir hafi ekki haft bein völd hafa þær verið ráðgefandi afl og getað endurspeglað vilja og skoðanir starfsmanna og íbúa svæðisins sem eiga að njóta þjónustunnar. Við teljum að það samræmist ekki nútímalýðræði og réttlátri byggðastefnu að framkvæmdastjóri, sem er skipaður af ráðherra og starfar í hans umboði, fari með öll völd og ákvarðanir innan hverrar heilbrigðisstofnunar. Á sama tíma starfar forstjóri Landspítala -- háskólasjúkrahúss í umboði sjö manna stjórnarnefndar og ráðuneytis.``

Undir þetta skrifar Rut Guðbjörnsdóttir.

[21:30]

Álit læknaráðs er svohljóðandi:

,,Frumvarpið fjallar m.a. um að ríkið yfirtaki kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði, meiri háttar viðhaldi og rekstri sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva og að stjórnir heilbrigðisstofnana verði lagðar niður frá 1. janúar 2003. Læknaráðið óttast afleiðingar þess að stjórnir heilbrigðisstofnana verði lagðar niður og heimamenn missi þar með möguleika á að hafa áhrif á framgang heilbrigðismála á sínu svæði.``

Fyrir hönd læknaráðs HSA undirritar Jón H. Sen þessa umsögn.

En fleiri frá þeirri stofnun, þ.e. stjórn HSA, ályktuðu um málið. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Stjórn Heilbrigðisstofnunar Austurlands hefur tekið til umfjöllunar á fundi sínum 18. desember 2002 frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, 453. mál.``

Ég ætla að sleppa lýsingum þeirra á því um hvað frumvarpið fjallar og fara í miðja greinina:

,,Stjórnin leggur áherslu á að hlutverk stjórna heilbrigðisstofnana verði skoðað gaumgæfilega frá öllum sjónarhornum og metið áður en ráðist verður í svo viðamiklar breytingar á stjórnkerfi þeirra sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Alhæfing sú sem sett er fram í ljósi áðurnefndrar skýrslu varðandi skörun á valdsviði stjórna og framkvæmdastjórna er varhugaverð.`` --- Þarna er vísað til skýrslu nefndar sem hæstv. heilbrrh. skipaði til að gera úttekt á stjórnsviðinu.

,,Stjórnir heilbrigðisstofnana hafa myndað bakland framkvæmdastjóra við ákvarðanatökur og endurspegla vilja íbúa og sveitarfélaga sem lúta að þjónustu en ekki eingöngu framkvæmdum. Þar sem starfssvæði stofnana er víðfeðmt, eins og gerist á Austurlandi, skiptir miklu máli að sjónarmið dreifðra byggða nái inn á borð þeirra sem ákvarðanir taka. Stjórnin treystir því að áfram verði staðbundnar stjórnir yfir heilbrigðisstofnunum. Tillagan var rædd og samþykkt.``

Herra forseti. Það skiptir mjög miklu máli þar sem búið er að sameina heilbrigðisstofnanir á víðfeðmu svæði að taka tillit til mjög mismunandi sjónarmiða og halda stjórnunum. Þannig geta allir setið við sama borð. Þannig komast að sjónarmið þeirra sem fjær eru ekki síður en þeirra sem nær eru.

Áðan var vitnað til umsagnar heilsugæslustöðvarinnar á Sólvangi í Hafnarfirði. Ég ætla ekki að gera það aftur en þar er mjög eindregið lagst gegn þessari breytingu. Á sama hátt gerir heilsugæslustöðin á Akureyri góða grein fyrir því hvers vegna hún leggst ge gn því að stjórnirnar verði lagðar af.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara yfir fleiri umsagnir en fjmrh. skipaði í byrjun árs 2000 nefnd til að gera úttekt á ákvæðum laga um ábyrgð, valdsvið og stjórnunarumboð forstöðumanna ríkisstofnana. Hún komst að þeirri niðurstöðu að ríkisstofnanir hefðu ekki eiginlegar stjórnir. Ég mismælti mig áðan og sagði heilbrrh. hafa skipað nefndina en það var fjmrh. sem skipaði þessa nefnd og kom þeirri vinnu í gang.

Ég tel, herra forseti, að ég sé búin að gera brtt. mínum nokkuð góð skil. Munurinn á brtt. okkar í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði og Samfylkingarinnar er sá að við leggjum til að stjórnirnar séu óbreyttar, eins skipaðar og þær eru í dag, en hlutverk þeirra verði gert skýrara í lögum.