Heilbrigðisþjónusta

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 21:36:13 (4645)

2003-03-10 21:36:13# 128. lþ. 94.33 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv. 78/2003, Frsm. JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[21:36]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (andsvar):

Herra forseti. Það eru eingöngu nokkur atriði sem ég vildi halda til haga vegna ræðu hv. þm. Þuríðar Backman.

Í fyrsta lagi virtist mér hv. þm. hafa látið að því liggja að í nál. heilbr.- og trn. sé því haldið fram að niðurlagning stjórnanna sé hluti af samkomulagi ráðuneytisins um kostnaðarskiptinguna. Það segir ekki í nál. heilbr.- og trn. að svo sé. Þar er hins vegar bent á að í umræðu um þetta mál hafi verið látið að því liggja að hluti af samkomulaginu væri að leggja stjórnirnar niður. Þannig var það aldrei. Það fór einhver misskilningur af stað um að því væri haldið fram að hluti af samkomulaginu fælist í þessu en það er alla vega löngu leiðrétt. Þetta er umræða sem átti sér stað einhvern tíma fyrir síðustu jól. Í áliti heilbr.- og trn. kemur a.m.k. hvergi fram að þær séu hluti af samkomulaginu.

Við getum svo sem rætt um hvaða fyrirkomulag sé best við stjórnir þessara stofnana langt fram á nótt. Mergurinn málsins er kannski sá, eins og hv. þm. Þuríður Backman hafði orð á áðan, að stjórnirnar áttu erfitt með að finna sér hlutverk og vita hvar þær stóðu. Sérstaklega var þetta óljóst eftir að lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins var breytt og valdsvið og ábyrgð forstöðumanna þeirra aukin til mikilla muna.

Hugmyndin um að breyta þurfi þessu fyrirkomulagi með stjórnirnar er svo sem ekki gripin af himnum ofan. En af því að hv. þm. hafði orð á og vísaði til umsagna frá læknaráði, hjúkrunarráði og stjórn Heilbrigðisstofnunar Austurlands, vil ég taka fram að á því landsvæði er þetta rekið undir einni heilbrigðisstofnun, sem ég hef verið einna hrifnust af. Ég vil taka fram að þær umsagnir hef ég ekki séð vegna þess að þær bárust ekki nefndinni fyrr en löngu eftir að allir frestir voru liðnir og eftir að nefndin afgreiddi málið.