Heilbrigðisþjónusta

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 21:43:30 (4649)

2003-03-10 21:43:30# 128. lþ. 94.33 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv. 78/2003, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[21:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum hér að ræða frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990. Eins og komið hefur fram hef ég skrifað undir nál. heilbr.- og trn. með fyrirvara ásamt hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni. Ég kem upp til að gera grein fyrir þeim fyrirvara sem við gerum við þetta mál.

Eins og reyndar hefur komið fram í ræðu hv. þm. Kristjáns Möllers fyrr á fundinum leggjum við jafnaðarmenn, eða Samfylkingin, mikla áherslu á íbúalýðræði. Það hefur verið álit ýmissa í okkar hópi að það að fella niður stjórnirnar væri tilhneiging til aukinnar miðstýringar og aukinnar stjórnar framkvæmdarvaldsins í þessum málaflokki. Reyndar hefur einnig komið fram að valdsvið stjórna heilbrigðisstofnana hefur minnkað mjög mikið eftir að lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna voru samþykkt. Síðan hefur hlutverk þeirra aðallega verið eftirlit og ráðgjöf. Það var niðurstaða hæstv. ráðherra að í kjölfar breytinga sem urðu vegna samkomulags ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga, um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga, að ríkið yfirtæki 15% hlutdeild sveitarfélaganna í stofnkostnaði, meiri háttar viðhaldi og tækjakaupum heilsugæslustöðva, svæðissjúkrahúsa, deildasjúkrahúsa og almennra sjúkrahúsa. Sveitarfélögin munu hins vegar áfram láta í té lóðir undir þessar stofnanir, ríkissjóði að kostnaðarlausu.

Í framhaldi af þessu afsala sveitarfélögin sér rétti til tilnefninga í stjórnir umræddra stofnana, þ.e. um leið og þátttaka þeirra í stofnkostnaði og viðhaldi fellur niður. Frv. gerir sem sagt ráð fyrir því að stjórnir þessara stofnana verði lagðar niður.

Við í Samfylkingunni höfum verið þessu andvíg. Hins vegar var mjög komið til móts við þá sem gagnrýndu þetta harðlega og stöndum við að brtt. nefndarinnar þar sem gert er ráð fyrir að framkvæmdastjórnir starfi við þessar stofnanir. Við tökum sem sagt undir þær brtt. en þar sem brtt. hv. þm. Kristjáns Möllers gengur lengra munum við auðvitað styðja tillögu hans um að stjórnirnar starfi áfram. Verði hún felld munum við að sjálfsögðu styðja tillögu nefndarinnar þar sem komið er til móts við kröfu okkar um aðkomu fleiri að stjórnum stofnananna. Ég hefði reyndar viljað sjá íbúana koma meira að þeim stjórnum. Það er ákveðin opnun í tillögunni frá nefndinni sem getur séð til þess. Ég vil geta þess að við munum að sjálfsögðu styðja tillögu nefndarinnar þegar hún kemur til atkvæða, verði tillaga hv. þm. Kristjáns Möllers felld.

Eins og komið hefur fram í umræðunni er þetta ákvæði um niðurfellingu stjórnanna allumdeilt. Margir eru andvígir því. Hér er búið að lesa upp allmargar umsagnir um þetta mál og ætla ég ekki að fara að tína það til enda tel ég mig búna að gera ágæta grein fyrir fyrirvara mínum.