Heilbrigðisþjónusta

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 22:01:54 (4651)

2003-03-10 22:01:54# 128. lþ. 94.33 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv. 78/2003, Frsm. JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[22:01]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Jóns Bjarnasonar um tilhneigingu í tíð þessarar ríkisstjórnar til að auka og efla miðstýringu vil ég fá að benda hv. þingmanni á að sum okkar horfa fram á við, við horfum til þess að það er ýmislegt sem breytist í þessu umhverfi, og ég vil árétta við hv. þingmann að þau lög sem samþykkt voru 1996, um aukna ábyrgð og valdsvið forstöðumanna stofnana, fara ekki saman við þá breytingu sem gerð var til að efla stjórnir sjúkrahúsanna og rekstur þeirra. Það fer ekki saman að vera á sama tíma með þessar stjórnir sem, eins og hv. þm. Þuríður Backman sagði áðan --- hún er nú í sama þingflokki og hv. þm. Jón Bjarnason --- hefðu átt erfitt með að fóta sig og hefðu verið í vandræðum með að vita hvert hlutverk þeirra væri.

Af því að hv. þm. nefndi það að umsagnir hefðu bent á mikilvægi þessara stjórna ætla ég að fá að ítreka það sem ég sagði fyrr í þessari umræðu: Af öllum þeim aðilum sem sent var þetta frv. til umsagnar, og þeir skiptu mörgum tugum, sinntu því ekki nema ellefu að skila umsögnum og þar af voru sex umsagnir sem studdu það eindregið að þessi breyting yrði gerð.

Að endingu vil ég leggja áherslu á það að í þeirri brtt. sem hv. heilbr.- og trn. leggur til við frv. er ekki verið að tala um neinar innri stjórnir. Það er verið að tala um framkvæmdastjórnir sem séu framkvæmdastjóra til samráðs og honum til ráðgjafar og til þess að bakka hann upp í störfum sínum til viðbótar því sem við leggjum til um reglulega samráðsfundi með sveitarstjórnum.