Almannavarnir o.fl.

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 22:22:02 (4654)

2003-03-10 22:22:02# 128. lþ. 94.34 fundur 464. mál: #A almannavarnir o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv. 44/2003, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[22:22]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Við ræðum um breytingu á lögum um almannavarnir, lögreglulögum og nokkrum fleiri lögum sem nauðsynlegt hefur verið talið að breyta vegna þessa frv., verði það að lögum.

Frv. hefur fengið nokkuð góða meðferð í hv. allshn. Fyrir nefndina hafa komið flestir þeir sem eitthvað hafa haft til málsins að leggja. Ber að þakka formanni nefndarinnar fyrir vinnubrögðin við meðferð þessa máls. Það er ekki hægt að kenna hv. allshn. um hvernig þetta mál er fyrir þingið komið. Frv. er flutt af hæstv. dómsmrh. og ég vil segja í upphafi máls míns að þær breytingar sem meiri hluti nefndarinnar hefur reynt að gera á frv. eru flestar til bóta. Hins vegar var aldrei frá upphafi möguleiki á að bjarga þessu frv.

Við meðferð frv. hefur komið í ljós að það er erfitt að átta sig á því hvernig þessar hugmyndir urðu til. Við yfirferð í nefndinni kom fram hjá ráðuneytisstjóra dómsmrn. að upphaflega hugmyndin hafi verið að spara á fjárlögum í aðdraganda fjárlagagerðarinnar. Eins og fram kemur í frv. er hugmyndin sú að spara ríkisframlög til þessa málaflokks, almannavarna, úr 40 millj. rúmum niður í 20 millj., þ.e. draga saman á fjárlögum til málaflokksins um u.þ.b. 51--52% miðað við árið 2002.

Upphaflega hugmyndin virðist ekki lúta að því að auka almannavarnir eða neitt í þá veru. Enda er vandséð að samdráttur um 52% í útgjöldum til þessa málaflokks sé til að efla almannavarnir í landinu. Hvaða niðurstöðu geta menn dregið af því ef samdráttur í framlögum til þessa málaflokks um rúm 50% leiðir til þess að almannavörnum verði betur fyrir komið heldur en áður var? Maður spyr sig: Hvað voru menn þá að gera áður ef þetta er til að auka öryggi landsmanna, eins og látið er í veðri vaka í frv.?

Ég leyfi mér einnig að mótmæla því að aðeins örfáir af þeim sem komu fyrir nefndina hafi gert verulegar athugasemdir við frv. Án þess að ég ætli að telja þá upp hér gerðu flestir sem við teljum að hafi góða þekkingu á þessum málum miklar athugasemdir við frv.

Hugmyndin með þessu frv. er sú að færa Almannavarnir ríkisins undir ríkislögreglustjóra, þ.e. að gera almannavarnir að deild hjá ríkislögreglustjóra. Almannavarnir ríkisins hafa verið lítil ríkisstofnun sem hefur fyrst og fremst haft það hlutverk að samhæfa aðgerðir þegar slík vá er fyrir dyrum að það heyri undir almannavarnir. Eins hefur henni verið ætlað að vinna forvarnastarf og upplýsingastarf auk þess að gera áætlanir um hvernig eigi að bregðast þegar almannavarnaástand kemur upp.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að gera grein fyrir nál. minni hluta allshn. og fara síðan yfir nokkrar af þeim umsögnum sem bárust. Auk þessa ætla ég að gera almenna grein fyrir afstöðu okkar í minni hluta allshn.

Auk mín stendur að þessu áliti hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir. Ögmundur Jónasson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu. Auk þess veit ég að hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, sem sæti á í nefndinni, styður það álit sem ég ætla hér að gera grein fyrir.

Markmið frumvarpsins er að leggja niður Almannavarnir ríkisins sem sérstaka stofnun og færa starfsemina til deildar sem heyrir undir embætti ríkislögreglustjóra. Þessar hugmyndir ganga þvert á áætlanir Almannavarna ríkisins um uppbyggingu almannavarna í landinu. Þar sem frumvarpið hvorki eflir né eykur öryggi almennings í landinu, en er líklegt til að hafa gagnstæð áhrif, er mikilvægt að Alþingi hafni því.

Komið hefur fram að ekkert samráð var haft við framkvæmdastjóra Almannavarna áður en frumvarpið var samið og á meðan það var í smíðum. Einnig kom fram á fundi allsherjarnefndar að upphafið að því að leggja stofnunina niður var leit ráðuneytisins að leið til að spara í rekstrinum. Minni hlutinn gagnrýnir ekki þann vilja dómsmálaráðherra að spara í ríkisrekstrinum en svo virðist sem í óðagotinu við undirbúning fjárlaga hafi þessi ákvörðun verið tekin án þess að skoðað hafi verið hvaða áhrif það kynni að hafa á almannavarnir í landinu.

Almannavarnir hafa það hlutverk fyrst og fremst að samhæfa aðgerðir viðbragðsaðila þegar áföll verða. Þar koma við sögu ríkisstofnanir, sveitarfélög, sjúkrastofnanir, björgunarsveitir, vísindamenn, fjölmiðlar, einkaaðilar og aðrir þeir sem hönd geta lagt á plóg þegar hætta steðjar að. Almannavarnir eru því fyrst og fremst vettvangur aðila sem koma saman og samhæfa björgunaraðgerðir.

Í athugasemdum við frumvarpið er nefnt að það feli í sér aukið öryggi og eflingu almannavarna. Telja verður harla ólíklegt að verði sérhæfðum starfsmönnum á þessu sviði fækkað um þriðjung og framlög til málaflokksins dregin saman um helming muni það leiða til aukins öryggis og eflingar almannavarna.

Þá er nefnt að breytingin feli í sér styttingu boðleiða í almannavarnaástandi og einföldun á stjórnskipulagi almannavarna. Hvað varðar styttingu á boðleiðum er aðeins eitt um það að segja, en samkvæmt núverandi skipulagi geta boðleiðir ekki verið styttri af því að allir sem koma að almannavarnaástandi eiga sæti í almannavarnaráði.

[22:30]

Því verður að halda til haga að almannavarnir snúast ekki fyrst og fremst um lögreglu og löggæslumál. Það er aðeins einn þáttur starfseminnar. Aðrir sem koma að henni eru t.d. slökkvilið, læknar, hjúkrunarfólk o.fl.

Því er mat minni hlutans að frumvarpið, verði það að lögum, muni ekki leiða til aukins öryggis landsmanna ef og þegar til almannavarnaástands kemur. Minni hlutinn óttast að málið sé ekki nægilega undirbúið og því skynsamlegt að fresta því og vinna frekar hafi menn raunverulegan áhuga á því að efla almannavarnir í landinu.

Margir sem komu fyrir nefndina gerðu athugasemdir við það fyrirkomulag sem stefnt er að með frumvarpinu. Mat minni hlutans er að breytingartillögur meiri hluta allsherjarnefndar við frumvarpið séu til bóta en það breyti ekki þeirri staðreynd, út frá almannavarnasjónarmiðum, að ekki sé hægt að bjarga frumvarpinu vegna þess hversu illa ígrundað það er í upphafi.

Þetta vildi ég segja, virðulegi forseti, og um leið og ég geri grein fyrir áliti minni hluta allshn. vil ég líka ítreka það sjónarmið sem við setjum hér fram og allir sem að þessum málum koma viðurkenna, en það er að almannavarnir eru ekki og geta ekki verið eingöngu lögreglumál. Það eru svo miklu fleiri sem koma að almannavarnaástandi eins og ég hef nefnt.

Það hefur verið nefnt nokkrum sinnum í umræðum á hinu háa Alþingi hversu mjög embætti ríkislögreglustjóra hefur þanist út og líkast til eru ekki dæmi um slíkt áður. Það embætti var upphaflega hugsað sem lítið samræmingarembætti í löggæslumálum í landinu og með því yrði sú starfemi flutt úr dómsmrn. sem þar var og laut að þessum málaflokki. Hugmyndin í upphafi var sú að koma á fót litlu samræmingarembætti. Nokkur ár eru síðan þessar hugmyndir voru settar á flot en eftir að til embættisins var stofnað hefur það þanist út svo mjög að ekki þekkjast önnur dæmi. Meira að segja var það svo, virðulegi forseti, að þegar ríkislögreglustjóri kom fyrir nefndina gat hann þess að hann hefði ekki verið með hugmyndir eða verið með í ráðum þegar ákveðið var eða hugmyndirnar settar fram um að færa þetta til ríkislögreglustjóra. Þetta kemur fram í skriflegu áliti sem hann sendi allshn.

Það er því dálítið sérstætt þegar menn hugsa til þess að hvorki fulltrúar Almannavarna ríkisins né sá sem á að taka við málaflokknum voru með í ráðum þegar ákveðið var að fara þessa leið. Þess vegna er það líka mjög sérstætt að fullyrt sé að sú leið, þ.e. að fækka sérhæfðum starfsmönnum á þessu sviði og draga úr fjárframlögum um helming, sé til þess fallin að auka öryggi landsmanna.

Eins og ég sagði í upphafi er ekki við hv. þm. í allshn. að sakast. Ég held meira að segja að meiri hluti allshn. hafi reynt að gera sitt til að lagfæra það sem þó virðist ekki vera hægt. En þessi vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar og þau eru ekki til eftirbreytni. Vel má vera að hv. þm. hafi verið í einhverjum vandræðum þegar þeir voru að koma saman fjárlögum en það skiptir miklu máli að þeir beri ekki niður bara einhvers staðar þegar verið er að skaða jafnmikilvæga starfsemi og starfsemi almannavarna.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að fara nokkuð vel og vandlega yfir umsögn sem kom frá Almannavörnum ríkisins og gera nokkuð skilmerkilega grein fyrir þeim sjónarmiðum sem þar koma fram, einkanlega vegna þess að þar held ég og tel að sé mest þekking þeirra sem að slíkum málum koma. Það er líka mjög sérstætt að Almannavarnir ríkisins hefur verið óumdeild stofnun, hún hefur notið mikillar virðingar af því að Almannavarnir ríkisins eru fyrst og fremst samhæfingaraðili aðgerða þegar almannavarnaástand kemur upp.

Þessi umsögn er ekki mjög löng, virðulegi forseti, aðeins nokkrar síður, og ég ætla að fara nokkuð vandlega yfir hana, en þar segir, með leyfi forseta --- ég sé að hv. þm. Ögmundur Jónasson sprettur upp við þetta og er augljóst að áhugi hans á málinu er mikill og kinkar hann kolli og ætla ég nú að reyna að upplýsa hann um þau sjónarmið sem fram koma hjá þeim sem mesta þekkingu hafa á málinu hér á landi. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í bréfi allsherjarnefndar, dags. 16. des. 2002, til Almannavarna ríkisins er óskað eftir umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannavarnir o.fl., 464. mál.

Markmið þessa frumvarps`` --- ég er, með leyfi forseta, að lesa upp úr bréfi sem er dagsett 20. jan. 2003 --- ,,er að leggja niður Almannavarnir ríkisins sem sérstaka stofnun og færa starfsemina til deildar undir embætti ríkislögreglustjóra og leggja niður almannavarnaráð og færa verkefni þess til embættis ríkislögreglustjóra. Þessar hugmyndir ganga þvert á áætlanir Almannavarna ríkisins um uppbyggingu almannavarna í landinu. Þar sem frumvarpið hvorki eflir almannavarnir né eykur öryggi landsmanna, en er líklegt til þess að hafa gagnstæð áhrif, er mikilvægt að það verði ekki samþykkt. Því mun undirrituð ekki gera athugasemdir við einstakar greinar þess heldur fjalla nokkuð um greinargerðina með frumvarpinu og um málið í heild.``

Undir þetta skrifar Sólveig Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að fara vandlega yfir umsögnina, því ég held að í henni komi fram kjarninn í þessari umræðu. Í henni eru dregnar fram helstu röksemdir fyrir því af hverju þessi leið er mjög svo gagnrýniverð. Ég vil þó segja áður en ég fer yfir umsögnina að almennt voru flestir ef ekki allir sem gáfu umsögn og komu fyrir nefndina þeirrar skoðunar að mikilvægt væri að endurskoða lög um Almannavarnir ríkisins. Hins vegar voru þeir færri sem vildu fara þá leið sem hér um ræðir.

Þó er kannski rétt að taka fram að gefnu tilefni, af því að hv. formaður nefndarinnar taldi hér upp hverjir voru með, hverjir voru á móti og hverjir voru hlutlausir, að sýslumennirnir í landinu voru almennt á því að þessa leið ætti að fara. Ég held að það sé mikilvægt að það liggi hér fyrir í umræðunni. (Gripið fram í.)

En, með leyfi forseta, ætla ég að fara yfir þá umsögn sem ég vitnaði til áðan og bera niður í henni þar sem ég tel mikilvægt að koma á framfæri:

,,Í greinargerðinni eru nefndar þrjár meginröksemdir fyrir frumvarpinu.

Í fyrsta lagi: nefnt er að breytingarnar feli í sér aukið öryggi og eflingu almannavarna í landinu.

Í frumvarpinu er lagt til að fækka sérhæfðum starfsmönnum um þriðjung eða helming og minnka fjárframlag til starfseminnar um 51% (21,2 milljónir). Það er ekki trúverðugt að það muni efla almannavarnir í landinu. Almannavarnir ríkisins, sem sérstök hlutlaus stofnun, hefur átt greiðan aðgang að ýmsum stofnunum og aðilum. Þegar staða stofnunarinnar verður lækkuð í stjórnkerfinu frá því að vera sérstök ríkisstofnun í það að vera lítil deild undir ríkislögreglustjóra munu þau samskipti verða erfiðari. Þá munu boðleiðir milli þeirra sem starfa daglega að almannavarnamálum og æðstu manna almannavarna lengjast. Enn fremur hafa Almannavarnir ríkisins, sem sérstök hlutlaus stofnun, öðlast álit meðal landsmanna og greinilega notið velvilja mjög margra sem sinna störfum er snerta almannavarnir. Það má fastlega búast við að skrifstofa innan embættis ríkislögreglustjóra njóti ekki sömu velvildar. Allt þetta mun veikja almannavarnir í landinu, því meir sem lengra líður.``

Áfram segir þar sem verið er að fjalla um, með leyfi forseta, meginröksemdir fyrir frv. sem eru þrjár, og er hér farið yfir þær og athugasemdir gerðar.

,,Í öðru lagi: nefnt er að breytingin feli í sér styttingu á boðleiðum í almannavarnaástandi og einföldun á stjórnskipulagi almannavarna.

Hvað varðar styttingu á boðleiðum má benda á að samkvæmt núverandi skipulagi eru í samhæfingarstöð almannavarna, þegar neyðarástand ríkir, almannavarnaráð, framkvæmdastjóri þess og aðrir starfsmenn stofnunarinnar. Í almannavarnaráði sitja forstjóri Landhelgisgæslunnar, (núverandi formaður), landlæknir, ríkislögreglustjóri, vegamálastjóri og forstjóri Landssímans. Samhæfingarstöðin er í beinu sambandi við þann lögreglustjóra sem stýrir störfum á vettvangi og aðra þá sem hafa verið virkjaðir til björgunaraðgerða. Þá eiga allar mikilvægar stofnanir, frjáls félagasamtök og aðilar tengiliði í samhæfingarstöðinni eða geta verið kallaðir til. Boðleiðir geta ekki verið styttri. Þetta skipulag hefur reynst vel og ekki kunnugt um nein dæmi þess að boðleiðir hafi verið svo langar að það hafi valdið töfum.

Í þriðja lagi: nefnt er að í breytingunum sé talinn felast nokkur sparnaður.

Það er vafalaust rétt að helmings niðurskurður á framkvæmdafé stofnunarinnar og fækkun starfsmanna muni spara fé til skemmri tíma litið, en óvíst er um sparnað þegar til lengri tíma er litið.

Í upphafi greinargerðarinnar með frumvarpinu segir að frumvarpið sé samið í dómsmálaráðuneytinu og það ber þess greinileg merki. Í frumvarpinu og greinargerðinni eru nær eingöngu gerðar breytingar sem snúa að því ráðuneyti. (Undantekning er þó ákvæði um aukið frelsi sveitarstjórna til þess að skipa almannavarnanefndir, bæði hvað varðar mannaval og samvinnu sveitarfélaga. Það er til bóta.) Almannavarnir snúast ekki fyrst og fremst um lögreglu- og löggæslumál. Það er aðeins einn þáttur starfseminnar. Aðrir sem koma oft og mikið við almannavarna- og björgunarstörf eru t.d. slökkvilið, læknar og hjúkrunarfólk, björgunarsveitir, sjúkraflutningamenn, Vegagerðin og þeir sem annast fjarskipti. Þá hefur Landhelgisgæslan oft þýðingarmiklu hlutverki að gegna við björgun. Aðkoma æðstu manna á þessum sviðum er tryggð með núverandi fyrirkomulagi, bæði er lýtur að skipulagningu og þegar almannavarnaástand ríkir. Samkvæmt frumvarpinu verða þau tengsl rofin og í stað þeirra komi óskilgreind ,,samstarfsnefnd``.`` --- Hér er þó rétt að hafa í huga að þessu hefur verið breytt í meðförum nefndarinnar. Svo segir áfram, með leyfi forseta:

,,Í viðbrögðum við áföllum skiptir meginmáli að samhæfing þeirra sem bregðast við sé góð. Þar koma við sögu ríkisstofnanir, sveitarfélög, sjúkrastofnanir, björgunarsveitir, vísindamenn, fjölmiðlar, einkaaðilar og aðrir þeir sem geta lagt hönd á plóginn á hættu- og neyðarstundu. Almannavarnir ríkisins hafa það hlutverk fyrst og fremst að tryggja samstarf aðila og að samhæfing aðgerða gangi fyrir sig eins vel og hægt er og að tryggja upplýsingastreymi á milli þeirra sem þurfa á upplýsingum að halda, bæði þeirra sem vinna að neyðaraðstoð og fjölmiðla. Færa má rök fyrir því að Almannavarnir ríkisins, sem sérstök hlutlaus stofnun, sé líklegri til þess að fá alla aðila til að starfa saman heldur en skrifstofa á vegum embættis ríkislögreglustjóra. Frumvarpið tekur ekkert tillit til þessa samhæfingarstarfs né er það rætt í greinargerð.

[22:45]

Það er ljóst af lestri frumvarpsins og greinargerðarinnar að þeir sem sömdu þessi skjöl hafa litla þekkingu á starfsemi almannavarna og hafa ekki leitað til neinna sem þekkingu hafa á málaflokknum. Víða er að finna fullyrðingar, sem koma þeim sem sinna almannavörnum og hafa þekkingu á þeim málum, spánskt fyrir sjónir. Það sem talið er þessu frumvarpi til ágætis eru breytingar sem þegar er farið að vinna að og hafa ekkert með frumvarpið að gera. Almannavarnir ríkisins hafa t.d. haft frumkvæði að því að samnýta húsnæði sem verið er að byggja í Skógarhlíð. Stofnunin hefur gert leigusamning um húsnæði fyrir skrifstofur sínar á efstu hæð í Skógarhlíð og samhæfingarstöð í kjallaranum. Þar á að byggja upp sameiginlega aðstöðu fyrir alla þá sem sinna stjórnun og samhæfingu á landsvísu. Þá verður aðstaða Almannavarna ríkisins við hliðina á Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar og Neyðarlínunni. Um það er full samstaða og samvinna. Þessi mál voru í góðum farvegi áður en þetta frumvarp varð til.

Þótt þetta frumvarp sé ónýtt er mikil þörf á að endurskoða lög um almannavarnir. Það þarf t.d. að skilgreina Almannavarnir ríkisins sem stofnun og marka henni starfssvið. Það þarf að skilgreina betur valdsvið almannavarnaráðs og framkvæmdastjóra, bæði í daglegum rekstri og við almannavarnaástand. Í gildandi lögum er ekki tekið á því hvernig staðið skuli að uppbyggingu eftir áfall. Það er ekki síður mikilvægur þáttur í viðbrögðum við neyðarástandi og þarf að vera skilgreint í lögum sem verksvið almannavarna.

Ákveða þarf undir hvaða ráðuneyti stofnunin á að heyra. Störf almannavarna eru svo margvísleg og koma inn á svið svo margra fagráðuneyta að stofnunin ætti að heyra undir forsætisráðuneytið. Það ráðuneyti getur samhæft störf annarra ráðuneyta. Því til stuðnings má benda á að ýmis dæmi eru um að forsætisráðuneytið hafi gripið inn í þennan málaflokk. Þegar snjóflóðin urðu á Vestfjörðum 1995 voru viðbrögð ríkisins skipulögð af hálfu forsætisráðuneytisins. Sama gerðist þegar auknar líkur voru á að eldstöðin Katla í Mýrdalsjökli færi að gjósa í lok síðustu aldar og einnig þegar skipulögð voru viðbrögð ríkisins varðandi jarðskjálftana á Suðurlandi sumarið 2000.

Dæmi um máttleysi fagráðuneytisins`` --- þ.e. dómsmálaráðuneytisins --- ,,til þess að samhæfa störf eru viðbrögðin við ógninni sem stafaði af hugsanlegum hryðjuverkum af völdum miltisbrands. Þar komu að málum lögregla, slökkvilið, heilbrigðisaðilar (landlæknir, slysadeildir, sjúkrabílar og rannsóknarstofnanir), póstþjónusta (flokkunarstöðvar, bréfberar), opinberir aðilar (forsætisráðherra) og rannsóknaraðilar (ríkislögreglustjóri). Ástandið þá sýndi að sá ráðherra sem er æðsti maður almannavarna hefði átt að hafa vald sem nauðsynlegt var til þess að tryggja samhæfðar aðgerðir. Málið fór þó vel að lokum, það dó út vegna þess að ekkert miltisbrandstilfelli kom upp. Á þeim 7 árum sem undirrituð hefur verið framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins stendur þessi aðgerð upp úr, sem mál, sem illa var staðið að.

Sem fyrr segir þarf að semja ný lög um almannavarnir og full þörf er á að efla Almannavarnir ríkisins. Aðstaða stofnunarinnar er allsendis ófullnægjandi. Við stofnunina starfa 6 starfsmenn. Það er ekki nóg til þess að viðhalda þeim viðbúnaði sem þarf að vera til staðar ef hann á að nýtast vel þegar á reynir eða til þess að fylgja eftir nýjungum og þróun sem er að verða á almannavörnum í heiminum. Undirrituð hefur, í samvinnu við starfsmenn stofnunarinnar, gert greiningu á framtíðarþörfum stofnunarinnar, þar á meðal starfsmannaþörf. Fram kemur að starfsmannafjöldi þarf að lágmarki að vera 11 manns svo viðunandi sé. Í framhaldi af því hefur verið samin ítarleg skýrsla um framtíðarþörf Almannavarna ríkisins. Undirrituð gerði grein fyrir þörfunum þegar skýrslan var kynnt og afhent núverandi dómsmálaráðherra á fundi í upphafi árs 2000. Ráðherra er því vel kunnugt um tillögur Almannavarna ríkisins um aðgerðir sem nauðsynlegar eru til forvarna svo unnt sé að bregðast við náttúruhamförum og öðrum stóráföllum á viðunandi hátt. Ástæða var til þess að ætla að dómsmálaráðuneytið væri sammála stefnumótun stofnunarinnar í meginatriðum því að í bréfi ráðuneytisins til Almannavarna ríkisins, sem dagsett er 14. júní 2001 segir:

,,Ráðuneytið hefur haft til skoðunar ársáætlun 2001 og þriggja ára áætlun fyrir Almannavarnir ríkisins. Það er mat ráðuneytisins að sú þriggja ára áætlun sem skilað hefur verið sé prýðilega úr garði gerð, enda eru þar njörvuð niður vel skilgreind markmið, sem raunhæft er að ætla að verði lokið innan þriggja ára. Jafnframt eru þetta verkefni sem hafa verið framarlega í forgangsröð og eðlilegt þykir að hrundið verði í framkvæmd.

Þá er til fyrirmyndar hve framsetningin á ársáætluninni er skipuleg og aðgengileg. Fellst ráðuneytið á téða áætlun stofnunarinnar og samþykkir hana hvað markmiðin snertir.````

Það er mikilvægt, virðulegi forseti, að þessi afstaða ráðuneytisins liggi fyrir hér í umræðunni á hinu háa Alþingi því að það er ljóst að sú leið sem hæstv. dómsmrh. hefur ákveðið að fara með framlagningu þessa frv. er algjörlega á skjön við þær hugmyndir sem þarna voru lagðar fram.

Svo heldur áfram í bréfi, með leyfi forseta:

,,Það kom undirritaðri því á óvart þegar tilkynnt var að dómsmálaráðherra hefði ákveðið þær breytingar sem felast í frumvarpinu, án nokkurra viðræðna við almannavarnaráð, Almannavarnir ríkisins eða aðra aðila með þekkingu á málefninu.

Spurningarnar sem alþingismenn þurfa nú að svara eru hvort þróa eigi öflugar almannavarnir í landinu og hvort við höfum efni á því að eyða til þess 80 til 100 milljónum króna á ári. Sé svarið já, er mikilvægt að þetta frumvarp nái ekki fram að ganga og að hefja heildarendurskoðun laga um almannavarnir sem fyrst. Að því verki þarf að koma fólk með þekkingu á málaflokknum og þeim margvíslegu störfum sem þarf að sinna við neyðaraðstoð. Almannavarnir ríkisins starfi í óbreyttu formi þar til endurskoðun laga og endurskipulagningu er lokið.``

Undir þetta ritar Sólveig Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins, 20. janúar 2003.

Það er mat mitt, virðulegi forseti, að í þessari umsögn komi fram þær meginathugasemdir sem draga fram þá afstöðu sem minni hlutinn hefur í þessu máli. Við teljum mjög alvarlegt, virðulegi forseti, að sú leið skuli vera farin sem hér er ákveðið að fara. Almannavarnir geta og eiga að vera samhæfingaraðili fyrir þá sem koma að almannavarnaástandi. Við hljótum að spyrja í þessu samhengi þar sem ætlunin er að flytja þessi verkefni yfir til ríkislögreglustjóra: Þýðir það það í almannavarnaástandi að hann hafi yfir læknum og heilbrigðisfólki að segja? Ganga þessi lög framar læknalögum og lögum um heilbrigðisstéttir almennt? Eða vita menn í raun og veru á hvaða vegferð þeir eru með því að setja málið í þann farveg sem hér er ætlunin að gera?

Það er líka fróðlegt, virðulegi forseti, að velta fyrir sér þeirri umsögn sem Rauði kross Íslands lét frá sér vegna þessa tiltekna frumvarps. Í henni segir m.a., með leyfi forseta:

,,Almannavarnir ríkisins eru lítil sjálfstæð stofnun sem hefur getið sér gott orð og staðið undir þeim skyldum og væntingum sem til hennar eru gerðar. Stofnuninni hefur tekist að byggja upp á jafnréttisgrundvelli góð tengsl við samstarfsaðila, ríkisstofnanir, vísindastofnanir og frjáls félagasamtök og hefur henni oft tekist að sameina ólík sjónarmið.

Rauði kross Íslands óttast að þessi sérkenni, sem hafa stuðlað að velgengni Almannavarna ríkisins, kunni að glatast ef stofnunin verður að deild í stórri stofnun og vægi almannavarna verði minna. Ef af breytingunum verður, telur Rauði krossinn mikilvægt að Almannavarnir fái tilhlýðilegan sess innan embættis ríkislögreglustjóra.``

Þessar athugasemdir koma frá Rauða krossinum sem augljóslega hefur af því miklar áhyggjur að Almannavarnir ríkisins verði lagðar niður.

Fleiri umsagnir, virðulegi forseti, hafa borist allsherjarnefnd þar sem gerðar eru verulegar athugasemdir við frumvarpið, t.d. ætla ég að leyfa mér, virðulegi forseti, að bera hér niður í umsögn Vegagerðarinnar.

Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Verkefnum, sem Almannavarnir ríkisins sinna og skilgreind eru í gildandi lögum, má í grófum dráttum skipta í þrennt, forvarnavinnu, (t.d. gerð neyðaráætlana, æfingar, kennsla, samráð við vísindamenn og margt fleira), eftirlit með almannavarnanefndum og búnaði þeirra og í þriðja lagi stýringu og samhæfingu í almannavarnaástandi. Fyrri tveir verkefnaflokkarnir svara í aðalatriðum til þeirra verkefna sem almannavarnanefndum eru falin í héraði, en sá þriðji er á valdsviði lögreglunnar, og því hægt að taka undir það að boðleiðir í almannavarnaástandi styttast. Ekki er þó kunnugt um tilvik í fortíðinni þar sem langar boðleiðir í hættuástandi hafa komið að sök. Þá sýnist unnt að stytta og styrkja boðleiðir milli ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra í héraði án þess að flytja málaflokkinn. Má í því sambandi hafa til hliðsjónar ákvæði í gildandi almannavarnalögum um valdsvið landlæknis, en bæði eiga þessi embætti aðild að almannavarnaráði.

Mikill meiri hluti starfs Almannavarna ríkisins beinist að tveim fyrri verkefnaflokkunum. Ekki verður séð, að þessi verkefni falli sérstaklega vel að starfi lögreglunnar, enda ekki gert ráð fyrir því, að lögreglan í héraði taki þessi verkefni til sín. Raunar má færa ýmis rök fyrir því, að lítil sjálfstæð stofnun sé betur til þess fallin að sinna þeim heldur en enn þá minni deild í stórri stofnun. Hér skal einungis bent á tvennt. Hið fyrra er að hætt er við, að erfiðara sé að fá hæft starfsfólk í mjög smáa deild í stórri stofnun. Þá má búast við, að hið mikla sjálfboðaliðastarf, sem Almannavarnir ríkisins treysta á í mörgum greinum (og þá er ekki bara hugsað til björgunar- og hjálparsveita) verði ekki eins auðfengið hjá stórri stofnun.

Samkvæmt frumvarpinu á samstarfsnefnd um almannavarnir að leysa almannavarnaráð af hólmi.`` --- Þessu hefur reyndar verið breytt.

,,Í umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið kemur fram, að rúmur helmingur af fjárveitingum til Almannavarna ríkisins sparist við þessar breytingar. Ekki skal það dregið í efa, en ekki er sú staðreynd líkleg til að efla almannavarnir eins og stefnt er að.

[23:00]

Komið hefur fram af hálfu dómsmálaráðuneytisins við kynningu þessa máls að ráðuneytið telji heildarendurskoðun laga um almannavarnir brýnar og ráðuneytið muni beita sér fyrir henni hið bráðasta. Tekið er undir þetta sjónarmið, enda lögin að stofni til orðin gömul. Eðlileg verktilhögun er að ráðast í þá endurskoðun og laga síðan skipulagið að nýjum lögum, en ekki að breyta skipulaginu fyrst og endurskoða lögin á eftir.

Með vísun til framanritaðs er lagt til að heildarendurskoðun laga um almannavarnir verði hraðað eins og frekast er unnt og afstaða tekin til frumvarpsins við þá endurskoðun.``

Undir þetta ritar vegamálastjóri, reyndar sá sem nú hefur nýlátið af störfum.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns er augljóst að ríkislögreglustjóri hafði litla sem enga aðkomu að þessum breytingum og eins kom það fram þegar hann kom fyrir allshn. Ég ætla að leyfa mér að vitna í umsögn hans, með leyfi forseta, --- og ég sé að forseti kinkar kolli svo leyfið er augljóslega fengið:

,,Þær breytingar sem stefnt er að með frumvarpi þessu hafa vakið blendin viðbrögð ýmissa aðila og skal af því tilefni áréttað að ríkislögreglustjóri hafði enga aðkomu að þeim breytingum sem nú er stefnt að.``

Það er því augljóst, virðulegi forseti, að þeir aðilar sem nú sinna þessum málum og sá aðili sem á að taka við þessum málaflokki virðast ekki hafa verið með í för þegar þessi hugmynd fyrst kom fram. Í frv. er líka að finna ýmislegt sem veldur manni ég segi kannski ekki hugarangri, en a.m.k. verður að segja alveg eins og er að maður er dálítið hugsi yfir ýmsu sem hérna kemur fram.

Ein spurningin sem einn gesta allshn. spurði var hvenær almannavarnaástand verður. Dæmið var tekið um stórbruna, ef um hann væri að ræða, þá gætu málin á einhverjum tímapunkti æxlast þannig að bruni sem menn álitu upphaflega ekki vera þess eðlis að hann skapaði almannavarnaástand, gerði það. Og menn veltu því líka fyrir sér hvenær ríkislögreglustjóri tæki þá við af slökkviliðinu. Hvenær væri ástandið orðið að því almannavarnaástandi að viðbrögð og aðgerðir á staðnum heyrðu undir ríkislögreglustjóra en ekki lengur slökkviliðið? Við þessu voru lítil sem engin svör frekar en mörgu öðru sem þarna kom upp. Menn spurðu líka og óskuðu eftir dæmum úr fortíðinni sem skýrðu hvers vegna þessi leið væri farin. Menn reyndu að kalla fram tilvik úr fortíðinni sem skýrðu hvers vegna nauðsyn væri á þessari breytingu, í stað þess að fara þá leið sem ég held að allir hafi verið sammála um að rétt væri að fara, þ.e. að fara í heildarendurskoðun á þessum lögum, en ekki þær bráðaaðgerðir sem í er ráðist án þess að nokkur fái séð að það muni á nokkurn hátt auka öryggi almennings í landinu.

Þá kom líka fram hjá sveitarfélögunum sem gerðu athugasemdir við frv. að þau vildu frá tryggingu fyrir því að ef ráðist yrði í aðgerðir á þeirra kostnað og um þær tæki ríkislögreglustjóri ákvarðanir, að kostnaður vegna þeirra lenti ekki á sveitarfélögunum. Vitaskuld er mjög erfitt eins og málið er lagt upp að veita einhverja tryggingu fyrir því.

Þá kemur reyndar fram í frv. eins og það liggur fyrir að opnað er á heimildir að almannavarnanefndir taki yfir fleiri umdæmi. Síðan segir í frv. að ráðherra, í þessu tilviki hæstv. dómsmrh., taki um það ákvörðun undir hvaða lögreglustjóra almannavarnanefndin heyri. Með öðrum orðum er hér að finna hugmyndir um að lögreglustjórar, einstaka lögreglustjórar verði sviptir valdi sínu í sínu umdæmi ef ráðherra tekur þá ákvörðun að einhver annar taki yfir það svið, þ.e. með sameiginlegri almannavarnanefnd. Þetta er mjög stór breyting, en eins og ég sagði í upphafi og þurfti kannski ekki að koma neitt sérlega á óvart, þá gerði enginn sýslumaður í landinu, a.m.k. af þeim sem veittu umsögn vegna málsins, athugasemdir við málið, a.m.k. ekki við málið í heild þó nokkrar athugasemdir kæmu reyndar fram um einstaka þætti.

Það er því alveg ljóst, virðulegi forseti, að það er eitthvað allt annað sem býr að baki þessu frv. heldur en það að tryggja eða bæta öryggi almennings í landinu. Og þó að við tökum ekki annað en það að starfsmönnum skuli fækkað á þessu sviði og fjárframlög til verkefnisins dregið saman um rúmlega helming, þá staðfestir það eitt vitaskuld að frv. mun ekki auka öryggi almennings í landinu.

Ég hef rakið helstu sjónarmiðin sem komu fram á fundum allshn., því nokkrir fundir voru nú haldnir um málið, sem mér finnst skipta verulegu máli að komi fram í þessari umræðu. Ég vil líka segja að verði þetta frv. að lögum, þá vil ég lýsa því yfir að það er algerlega á ábyrgð meiri hluta eða þeirra þingmanna sem styðja þá hv. ríkisstjórn sem nú situr. Ég vil lýsa því yfir að ég vil ekki bera neina ábyrgð á þessu máli.