Almannavarnir o.fl.

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 23:12:47 (4657)

2003-03-10 23:12:47# 128. lþ. 94.34 fundur 464. mál: #A almannavarnir o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv. 44/2003, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[23:12]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu kemur sérhæfðum starfsmönnum til með að fjölga þegar þeir fjórir sérhæfðu starfsmenn Almannavarna ríkisins fara yfir til ríkislögreglustjóra og njóta þar m.a. stuðnings og starfsemi þeirra manna í sérsveitinni hjá lögreglunni sem sjá um fjarskiptamiðstöð lögreglunnar og allra þeirra sem koma á einn eða annan hátt að leit og björgun.

Síðan er hitt, sem er ekki heldur rétt, að ekki hafi verið haft samráð við þá aðila sem þetta mál snertir. Það er alveg ljóst og kom fram á fundi nefndarinnar að haft var samráð við m.a. formann Almannavarna, framkvæmdastjóra Almannavarna og ríkislögreglustjóra. Sett var fram dagsetning, 6. júní 2002, þar sem þeim var gerð grein fyrir þessum fyrirhuguðu breytingum.

Síðan verð ég líka að segja að það samráð hélt áfram frá Almannavörnum ríkisins. Það var ekki framkvæmdastjórinn reyndar, heldur aðalsviðsstjóri Almannavarna ríkisins sem kom með konkret tillögur í október um breytingar á frv. Það var því sýnilega haft samráð við starfsmenn, hina sérhæfðu starfsmenn Almannavarna ríkisins. Þetta eru starfsmenn sem hafa allt upp í þriggja áratuga reynslu á sviði almannavarna og þeir hinir sömu sem sögðu á fundi allshn. í björgunarmiðstöðinni að þessi breyting kæmi til með að styrkja stöðu almannavarna í landinu, og þeir í ljósi reynslu sinnar styðja þetta mál. Það var haft samráð. Það var rangt sem hv. þm. hélt fram áðan.