Almannavarnir o.fl.

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 23:14:39 (4658)

2003-03-10 23:14:39# 128. lþ. 94.34 fundur 464. mál: #A almannavarnir o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv. 44/2003, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[23:14]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja að í þessari umræðu er hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir einhver öflugasti talsmaður ráðherra síns og gengur mjög hart fram í því að reyna að verja þann málflutning sem hæstv. ráðherra setur fram. Og auðvitað á hv. þm. heiður skilinn fyrir það að standa svo mjög með sínum ráðherra. Og vissulega skiptir það máli.

[23:15]

Það er hins vegar verra þegar rangt er farið með. Það er heldur verra þegar menn fara í vörn. Það kom skýrt fram að ríkislögreglustjóri og framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins komu ekki að þessu máli áður en farið var að vinna að þessum hugmyndum. Þau komu ekki að þessum hugmyndum. Það kemur fram í skriflegri greinargerð ríkislögreglustjóra og skriflegri greinargerð framkvæmdastjóra Almannavarna (Gripið fram í.) þegar hún kom fyrir nefndina. Hví skyldi ég telja að þessir aðilar færu með rangt mál fyrir nefndinni? Hví skyldi ég telja það? Hví skyldi ég hafa það eftir úr skriflegum gögnum þeirra að ég teldi þetta rangt eftir haft? Ég held að það sé fráleitt að leggja þetta upp með þessum hætti.

Niðurstaðan er einfaldlega sú, virðulegi forseti, að það er verið að fækka sérhæfðum starfsmönnum á þessu sviði. Það er verið að draga úr framlögum um helming. Satt best að segja hefur ekkert komið fram sem skýrir að þessi leið skuli farin. Ég verð að segja það líka, virðulegi forseti, að mér þykir mjög ólíklegt að það verði skýrt við þessa umræðu.