Almannavarnir o.fl.

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 23:18:56 (4660)

2003-03-10 23:18:56# 128. lþ. 94.34 fundur 464. mál: #A almannavarnir o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv. 44/2003, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[23:18]

Frsm. minni hluta allshn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég stend enn við það sem ég sagði í ræðu minni. Ég tel að breytingar meiri hluta allshn. á þessu máli séu til bóta. Ég sagði hins vegar að vegna þeirra hugmynda sem búa að baki frv. þá gat meiri hluti allhn. aldrei bjargað þessu máli. Ég tel hins vegar breytingarnar til bóta. Ég held að rétt sé að halda þessu til haga.

Að öðru leyti kom ekki margt nýtt fram í þessu andsvari. Ég held að þó sé rétt að rifja upp að því hefur verið haldið fram að sérhæfðum starfsmönnum á þessu sviði fjölgi. Því er haldið fram hér í umræðunni. Fjórir af þeim starfsmönnum sem nú vinna hjá Almannavörnum ríkisins fara yfir til ríkislögreglustjóra. Ekki allir. Þegar af þeirri ástæðu fækkar sérhæfðum starfsmönnum. Það er rétt að halda því til haga að fyrir þessar breytingar, áður en þessar breytingar eru gerðar, kom ríkislögreglustjóri að störfum við almannavarnaástand. Menn höfðu því aðgang að ríkislögreglustjóra. Þetta er engin breyting.

Ég auglýsi því enn eftir rökum fyrir því að fara þessa leið. Þau komu ekki fram við meðferð málsins hjá allshn. Eins og ég sagði áðan á ég ekki von á að þau komi fram í stuttu andsvari.