Almannavarnir o.fl.

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 23:25:48 (4663)

2003-03-10 23:25:48# 128. lþ. 94.34 fundur 464. mál: #A almannavarnir o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv. 44/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[23:25]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Við þessa umræðu hafa menn rætt nokkuð um hvort samráð hafi verið haft við starfsmenn Almannavarna við samningu þessa frv. Ég held að allir hafi rétt fyrir sér í þessari umræðu, einfaldlega vegna þess að í huga stjórnarliða, Framsfl. og Sjálfstfl., hefur samráð, þ.e. hugtakið svolítið sérstaka merkingu. Við kynntumst því þegar bankarnir voru einkavæddir. Þá var haft samráð við starfsmenn bankanna. Það var haft samráð við starfsmannafélögin. Þetta var allt gert í samráði við þau. Í hverju fólst þetta samráð? Samráðið fólst í að tilkynna þeim hvaða breytingar væru á döfinni. Það var allt samráðið. Ég er því ekki í einum einasta vafa um að það er talað af fullri sannfæringu þegar sagt er að haft hafi verið samráð við starfsmenn Almannavarna áður en ráðist var í þessa frumvarpssmíði.

Hvað felur þetta frv. í sér? Samkvæmt þessu frv. verður stjórnsýslu Almannavarna breytt þannig að verkefni sem hafa verið á hendi almannavarnaráðs og Almannavarna ríkisins færast til embættis ríkislögreglustjóra. Þetta er grundvallarbreytingin sem gerð er með þessum lögum. Það er gert ráð fyrir því að stofnuð verði sérstök deild við embætti ríkislögreglustjóra í þessu skyni sem annist heildarskipulagningu og samhæfingu almannavarna. Einnig er gert ráð fyrir því að sérstök ráðgjafarnefnd verði ríkislögreglustjóra til ráðuneytis um stefnumörkun og skipulag. Stjórn almannavarna í héraði verði samkvæmt frv. í höndum lögreglustjóra með aðkomu almannavarnanefnda.

Í rauninni er þetta ekki ýkja mikil breyting eftir því sem ég skil þetta, frá því sem verið hefur. (ÞKG: Engin breyting.) Engin breyting, segir hv. formaður allshn.

Það er athyglisvert að skoða umsögn frá fjmrn. Þar kemur fram að þessar lagabreytingar séu í samræmi við fjárlög sem samþykkt voru í lok síðasta ár. Með öðrum orðum gerðu fjárlögin ráð fyrir þeirri lagabreytingu sem nú á að samþykkja á þingi. Ég vil taka undir með hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, að eðlilegra hefði að sjálfsögðu verið að hafa aðra röð á þessu ferli, að fyrst hefðu menn smíðað lögin og síðan væru fjárlögin í samræmi við þau.

Hvaða rök eru að baki þessari lagabreytingu? Þau koma fram í þremur liðum í athugasemdum með frv.

Í fyrsta lagi segir að þessi breyting feli í sér aukið öryggi og eflingu almannavarna í landinu. Því er haldið fram að þessi lagabreyting komi til með að efla almannavarnir í landinu.

Í öðru lagi er rætt um að þetta stytti boðleiðir í kerfinu. Hér segir á þá leið, ekki orðrétt, að samkvæmt þeim lögum sem nú eru í gildi fari lögreglustjórar með stjórn almannavarna og ríkislögreglustjóri gegni m.a. samhæfingarhlutverki gagnvart lögreglustjórum og veiti þeim aðstoð, en nú sé verið að færa þetta inn í markvissara boðkerfi.

Í þriðja lagi segir að þessi breyting feli í sér sparnað í opinberum rekstri. Það er alveg rétt. Þetta felur í sér sparnað í opinberum rekstri enda kemur fram í umsögn fjmrn. að gert er ráð fyrir því að 20 millj. sparist á þessum kerfisbreytingum. Er það slæmt? Nei. Það er ekki slæmt. Í sjálfu sér er það ekki slæmt. Ef við hins vegar viljum efla þessa starfsemi, efla almannavarnir, þá vakna ýmsar spurningar.

[23:30]

Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnast þær röksemdir sem hér hafa verið settar fram og ég hef vísað til að mörgu leyti sannfærandi, að þetta spari peninga, að kraftarnir sem koma að þessu starfi samnýtist betur, boðleiðir verði markvissari o.s.frv. Allt finnst mér þetta geta verið sannfærandi og mæla með þessum breytingum.

Þá koma gagnrökin, og hver eru þau? Gagnrökin eru þau að almannavarnir spanna mjög vítt svið. Þar koma margir aðilar að, sem ég veit að hæstv. landbrh. þekkir vel, maður sem ekur hér um vegi landsins. Þar kemur Vegagerðin mjög við sögu. Þar koma sveitarfélögin að málum. Þar koma læknar og hjúkrunarfólk að, sjúkraflutningamenn, þeir sem annast fjarskipti o.s.frv. Almannavarnir hafa síðan það verkefni að samhæfa starf allra þessara aðila. Þegar litið er á hina daglegu önn í þessu starfi er þar unnið margvíslegt forvarnastarf, námskeiðahald o.s.frv. Hlutverk Almannavarna ríkisins er að leiða alla þessa aðila saman.

Það sem verið er að gera núna er að færa þetta samhæfingarstarf undir lögregluvaldið. Jafnvel þótt það sé röksemd í sjálfu sér að við spörum með því peninga og gerum boðleiðir styttri o.s.frv. efast ég stórlega um að þetta sé heppileg ráðstöfun. Þvert á móti ættum við að efla Almannavarnir sem sjálfstæða stjórnsýslueiningu. Það er ekki erfitt verk og á ekki að vera erfitt að stytta boðleiðir innan kerfisins þótt svo verði gert. Og erum við þar með að mæla gegn nýrri björgunarmiðstöð? Nei, síður en svo. (Gripið fram í: Enda kemur hún þessu máli ekkert við.) Enda kemur hún þessu máli alls ekkert við. Við erum einfaldlega að vara við því að þessi starfsemi sem snertir alla þá aðila sem ég vék að áðan, alla þá aðila sem ég taldi upp, verði færð öll undir embætti ríkislögreglustjóra. Er hann að sækjast eftir þessu? Nei, hann er algerlega hlutlaus í því máli. Það kom fram þegar hann kom á fund allshn. Hann er algerlega hlutlaus í þessu máli.

Ég gagnrýni síðan að sú sem gegnt hefur embætti forstöðumanns hjá Almannavörnum var ekki höfð með í ráðum við samningu þessa frv. Ég efast ekki um að margir sem koma að björgunarstarfi og almannavarnastarfi eru þessu fylgjandi. Og eins og ég segi finnst mér margt mæla með því að reyna að ná þeim markmiðum sem menn segjast vera að gera með þessu frv., en þetta er ekki rétta leiðin til þess. Sú spurning hefur stundum vaknað í huga mínum hvort við séum ekki að stíga of mörg og of stór skref í að færa margvíslega starfsemi undir embætti ríkislögreglustjóra. Ég hef ákveðnar efasemdir um það. Ef við viljum beina þjóðfélaginu inn á aðrar brautir en þessar --- ég er ekki að ætla að við séum að búa til lögregluríki hérna, ég er ekki að ætla það, en engu að síður er þarna ákveðin áhersla sem ég held að við eigum að varast. Þetta eru almannavarnir og að sjálfsögðu á lögreglan að koma að þeim og að sjálfsögðu nýtur lögreglan fyllsta trausts í mínum huga. Ég er ekki að setja fram neinar slíkar efasemdir og ég vona að enginn misskilji orð mín þannig. Ég er heldur ekki að ætla þeim sem standa að þessum lagabreytingum að vilja keyra þjóðfélagið inn á slíkar brautir, en ég held hins vegar að við eigum að vera svolítið vakandi fyrir því hvert við viljum stefna í þessum efnum.

Og þar hefði ég haldið, og tek undir þau sjónarmið sem komu fram í máli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, að heppilegri leið væri að efla Almannavarnir sem sjálfstæða stjórnsýslueiningu og síðan mundum við að sjálfsögðu sameinast um að ná fram þeim ágætu markmiðum sem keppt er að með þessu frv.