Almannavarnir o.fl.

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 23:35:46 (4664)

2003-03-10 23:35:46# 128. lþ. 94.34 fundur 464. mál: #A almannavarnir o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv. 44/2003, Frsm. meiri hluta ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[23:35]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnaleg gagnrök. Ég vil engu að síður leiðrétta hv. þm. Ögmund Jónasson, það er ekki verið að færa eitt eða neitt undir lögreglu. Það er ekki breyting frá því sem nú er. Það sem verið er að gera núna er að það er verið að skerpa yfirstjórnina, það er verið að skapa og móta skýrari línur. Þar fyrir utan, þegar lögin um almannavarnir voru samþykkt árið 1962 var embætti ríkislögreglustjóra ekki til, ekki yfirmaður lögreglumanna sem það er í dag. Það er bara verið að samræma það því stjórnsýsluhlutverki og stjórnsýsluskipan sem er núna.

Þegar menn tala um að þetta sé ekki löggæslumál höfum við í rauninni ekki mótmælt því. Almannavarnir eru ekki eingöngu löggæslumál, við tökum öll undir það. Engu að síður hefur yfirstjórn almannavarna heima í héraði fram til þessa, frá árinu 1962, verið á höndum lögreglu. Og hefur það verið alslæmt? Ég segi nei. (Gripið fram í: Af hverju er þá ...?) Það er afskaplega gott að þetta er undir lögreglu. Síðan koma menn núna og mótmæla því að þetta sé sett undir ríkislögreglustjóra. Það getur vel verið að menn hafi haft skoðanir á því embætti í gegnum árin og að kannski hafi verið færð ýmis hlutverk sem kannski ekki alla jafna eiga heima þar í gegnum valnefnd til ríkislögreglustjóra, en það kemur þessu máli ekki við. Þetta er bara eðlileg breyting í ljósi þeirra aðstæðna sem við búum við í dag.

Ég vil enn og aftur ítreka það að helstu sérfræðingar á sviði almannavarna, leitar og björgunar, eins og Landsbjörg, styðja af alefli þessar breytingar, kannski í ljósi þeirrar reynslu sem þeir hafa sjálfir eftir að hafa sameinað allar björgunarsveitir í landinu fyrir um átta eða tíu árum. Þeir sjá að ein yfirstjórn yfir björgunarsveitunum skiptir máli. Þeir hafa reynsluna.