Almannavarnir o.fl.

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 23:37:56 (4665)

2003-03-10 23:37:56# 128. lþ. 94.34 fundur 464. mál: #A almannavarnir o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv. 44/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[23:37]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem fram kemur í máli hv. þingmanns. Að sumu leyti er hér ekki um veigamiklar breytingar að ræða. Það er alveg rétt. Engu að síður er verið að stíga markandi spor til framtíðar. Það er verið að færa starfsemi og verkefni sem hafa verið í höndum almannaráðs og Almannavarna ríkisins undir embætti ríkislögreglustjóra, enda segir það skýrt í athugasemdum með frv. og lagatextanum, út á þær ganga þessar breytingar. Deilurnar snúa að því hvort við eigum frekar að efla Almannavarnir ríkisins sem sjálfstæða einingu, og það eru ýmsir sem telja það heppilegri leið. Og við höfum fært rök fyrir því hvers vegna við eigum frekar að fara þá leiðina en hina, að keyra þetta undir embætti ríkislögreglustjóra.

Nú langar mig til að spyrja hv. þingmann: Hvað var að? Hvað er það sem kallaði á og krafðist þessara breytinga? Hv. þm. spurði mig einmitt um þetta. Hvað var svo slæmt við fyrirkomulagið eins og það var að það kallaði á þessar breytingar? Ég vil snúa þessu upp í spurningu á hv. þingmann og fá svör við þessu.