Almannavarnir o.fl.

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 23:41:46 (4667)

2003-03-10 23:41:46# 128. lþ. 94.34 fundur 464. mál: #A almannavarnir o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv. 44/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[23:41]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. vitnar í aðila sem eru þessu fylgjandi, Landsbjörg og aðra slíka. En ég spyr: Hvað með Vegagerðina? Hvað með slökkviliðið? Hvað með lækna? (ÞKG: Slökkviliðið var ekki andsnúið þessu.) Slökkviliðið í Reykjavík kom með mjög afdráttarlausar efasemdir um þetta mál, ef ég man rétt, á fundi sem ég sat. Hvað með hjúkrunarfólk? Og hvað með okkur þingmenn sem einnig höfum legið yfir þessu máli og teljum mjög vafasama ráðstöfun að færa þessa starfsemi undir ríkislögreglustjóra? Þvert á móti viljum við efla Almannavarnir ríkisins sem sjálfstæða einingu. Og hvernig kemur það heim og saman að þegar fjármagn til þessarar starfsemi er minnkað um helming, þegar starfsmönnum sem sinna almannavörnum er fækkað, sé verið að efla Almannavarnir ríkisins? Ég held ekki. (Gripið fram í.) Ég held að það sé ekki verið að gera það.