Úrræði fyrir fullorðna sem eiga við læsisvanda að etja

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 10:34:01 (4700)

2003-03-11 10:34:01# 128. lþ. 95.1 fundur 603. mál: #A úrræði fyrir fullorðna sem eiga við læsisvanda að etja# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[10:34]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Hinn 8. mars 2002 skipaði menntmrn. starfshóp til þess að benda á leiðir til að ná til fullorðins fólks sem á við lestrar- og skriftarörðugleika að etja og gera áætlanir um hvernig koma megi þeim aðilum til aðstoðar við að vinna bug á ólæsinu.

Starfshópur þessi skilaði niðurstöðum til ráðherra í októberlok 2002 þar sem fram kemur m.a. það álit að allstór hópur fullorðinna eigi við læsisvanda að stríða. Í skýrslu starfshópsins eru lagðar fram ýmsar tillögur til að koma til móts við fullorðna sem eiga við lestrarerfiðleika að etja. Þar má nefna lagasetningu, stofnun læsimiðstöðvar, útgáfu námsefnis fyrir markhópinn o.fl. Þessar tillögur eru nú til umfjöllunar í ráðuneytinu í sambandi við þær aðgerðir ráðuneytisins sem þegar hefur verið gripið til og áætlaðar eru á næstunni.

Mjög brýnt er að taka heildstætt á þessu vandamáli og það sem m.a. kom fram í þessari athugun var að ekki var tekið heildstætt á vandamálinu áður. Það þarf að reyna að koma nemendum með lestrarvanda til hjálpar sem allra fyrst í grunnskóla. Í þeim tilgangi kom ráðuneytið á lesskimunarkerfi við upphaf grunnskólans árið 2000. Þetta lesskimunarkerfi með prófun fyrir 1. og 2. bekk grunnskóla hefur því verið notað í þrjú ár með góðum árangri að mati ráðuneytisins. Gerð verður úttekt á þessu kerfi á næstunni.

Ráðuneytið hefur einnig styrkt gerð greinandi ritmálsprófs fyrir unglinga sem er nú tilbúið til notkunar. Gert er ráð fyrir að grunn- og framhaldsskólum standi þetta próf til boða með litlum kostnaði á næstunni. Þegar er byrjað að nota þetta próf í efstu bekkjum grunnskóla. Einnig hefur ráðuneytið styrkt útgáfu á prófi til notkunar á efstu stigum leikskóla þar sem leitast er við að finna nemendur sem síðar eiga á hættu að lenda í erfiðleikum með mál og lestur. Þetta próf er þegar tilbúið og hefur verið tekið í notkun í leikskólum með góðum árangri.

Ráðuneytið lítur á þessi þrjú próf sem mikilvæg skref til að finna sem fyrst nemendur sem hugsanlega lenda í lestrarerfiðleikum. Greinandi ritmálspróf getur einnig nýst nemendum í framhaldsskólum og fólki á fullorðinsaldri. Jafnframt þessu hefur ráðuneytið skipað samráðsnefnd vegna lestrarerfiðleika nemenda í grunnskólum. Þessi nefnd hefur nýlega hafið störf og á að skila tillögum til ráðuneytisins 1. apríl nk. Hlutverk nefndarinnar er að undirbúa breytingar á reglugerð um sérfræðiþjónustu skóla.

Ráðuneytið telur nauðsynlegt að sett verði í reglugerð ákvæði sem skylda grunnskóla til að framkvæma greiningu á sérstakri lesröskun með kerfisbundnum hætti. Í reglugerð verði kveðið á um hvaða aðferðum skuli beitt við greininguna og hvaða skyldur skólar bera gagnvart nemendum sem greinast með sértæka lesröskun. Ráðuneytið leggur áherslu á að lestrarerfiðleikar greinist sem fyrst á skólagöngu barnsins svo að hægara sé að leita leiða til úrbóta.

Ræða þarf verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þessu sambandi svo og skiptingu ábyrgðar, auk þess sem nauðsynlegt er að skilgreina ábyrgð á verkaskiptingu ráðuneytanna. Enn fremur skal nefndin ræða hvaða leiðir skulu standa nemendum í framhaldsskólum til boða þegar lestrarerfiðleikar greinast. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar félmrn., heilbrrn., Kennarasambands Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Fulltrúi menntmrn. er formaður nefndarinnar.

Þótt gripið hafi verið til margvíslegra aðgerða til að hjálpa nemendum í grunnskóla sem eiga við lestrarvanda að etja er ljóst að margir nemendur í framhaldsskólum og fullorðnir eiga við þennan vanda að etja, eins og fram hefur komið í áliti starfshópsins sem fyrirspurnin fjallar um. Ráðuneytið hefur nú til athugunar álit starfshópsins um hvernig best verður staðið að því að aðstoða fullorðna sem eiga við lestrarvanda að etja.

Eitt af því sem hefur komið til álita er að gera þjónustusamning við framhaldsskóla eða háskóla um framkvæmd kennslu fyrir lesblinda nemendur í framhaldsskólum og fullorðna með sama vanda. Það mætti leita til eins eða fleiri skóla sem hafa sýnt frumkvæði á þessu sviði um sjálfa framkvæmd kennslunnar, jafnframt því að byggður yrði upp gagnagrunnur og þróaðar yrðu greiningaraðferðir og námskeið sem næði jafnt til nemenda í grunn- og framhaldsskólum sem og fullorðinna.

Ráðueytið mun nú á næstunni ákveða hvaða leiðir verða farnar til að koma sem best til móts við fullorðið fólk sem á við lestrarvanda að etja og mun þá álit starfshópsins koma í góðar þarfir. Ég vil í lok máls míns, herra forseti, geta þess að það sem kom í ljós við vinnu starfshópsins var fyrst og fremst það að greining var ekki framkvæmd með samræmdum hætti um land allt. Menn sátu við mjög mismunandi borð í þessum efnum. Sums staðar var þetta gert með ágætum. Annars staðar var miður vel að þessu staðið. Í raun og veru má segja að það kerfi sem hér hefur tíðkast hafi leitt til þess, því miður, að allt of margir hafa komist í gegnum grunnskóla án þess að greinast og það skapar síðan heilmikil félagsleg vandamál síðar í lífinu.