Úrræði fyrir fullorðna sem eiga við læsisvanda að etja

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 10:42:54 (4703)

2003-03-11 10:42:54# 128. lþ. 95.1 fundur 603. mál: #A úrræði fyrir fullorðna sem eiga við læsisvanda að etja# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[10:42]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég leggja áherslu á að það sem skiptir máli nú eru úrræðin en ekki að kanna vandann því að ljóst er að vandinn er mikill, við þurfum ekki að deila um það. Það eru úrræðin sem skipta mestu máli og það skiptir mestu máli að þau séu til boða alls staðar á landinu og að allir sitji við sama borð.

Það er alveg ljóst að grípa þarf til aðgerða sem tryggja það að á þessum vanda verði tekið með samræmdum hætti þar sem grunnskólinn á í hlut. Grunnskólinn heyrir undir sveitarfélögin og taka þarf upp viðræður við sveitarfélögin hvernig þetta verður gert. Komi í ljós, eins og ég hygg að muni gerast, að kostnaður við þetta verkefni verði talsverður, ekki síst þar sem flóknustu vandamálin eru hjá þeim sem greinast með mesta lesröskun, er nauðsynlegt að skoða hvort sveitarfélögin ráði við þennan vanda. Ef svo er ekki er ljóst að ríkisvaldið verður að koma til og styðja lausn vandans. Það vill svo til að lesröskun og lesblinda er afar flókið fyrirbæri. Ástæðurnar virðast vera margslungnar og úrræðin sem standa til boða þurfa að vera mjög margvísleg. Það er rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að taka þarf á þessu með samræmdum hætti. Ráðuneytið er að gera það og mun gera áætlun um metnaðarfull tök á þessu máli. En ekki er þar með sagt að hægt sé að leysa þetta mál með einföldum hætti, það er ekki þannig. En verið er að taka með ábyrgð á málinu.