Heimakennsla á grunnskólastigi

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 10:47:35 (4705)

2003-03-11 10:47:35# 128. lþ. 95.2 fundur 641. mál: #A heimakennsla á grunnskólastigi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[10:47]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Á undanförnum árum hafa nokkur erindi borist til menntmrn. þar sem foreldrar hafa óskað eftir því við ráðuneytið að fá heimild til að kenna börnum sínum heima. Samkvæmt lögum um grunnskóla, nr. 66/1995, er öllum börnum og unglingum á aldrinum 6--16 ára skylt að sækja skóla. Forráðamaður skólaskylds barns ber ábyrgð á að það innritist í skóla þegar það kemst á skólaskyldualdur og sæki skólann.

Í lögum um grunnskóla, nr. 66/1995, er ekki sérstakt ákvæði sem heimilar heimakennslu en með vísan til 53. gr. grunnskólalaga getur menntmrh. veitt sveitarfélögum og einkaskólum heimild til að reka tilraunaskóla eða gera tilraunir með ákveðna þætti skólastarfs með undanþágu frá ákvæðum laga og reglugerða. Slíkum tilraunum skulu ávallt sett eðlileg tímamörk og kveðið á um úttekt að tilraun lokinni. Menntmrn. hefur mótað sérstakar vinnureglur við mat á umsóknum vegna heimakennslu í tilraunaskyni á grunnskólastigi og eru þær aðgengilegar á vef ráðuneytisins. Þessar vinnureglur voru sendar í nóvember sl. þeim foreldrum sem höfðu óskað formlega eftir heimild menntmrh. um leyfi til heimakennslu grunnskólabarna og þeim sveitarfélögum þar sem viðkomandi börn eiga lögheimili.

Samkvæmt vinnureglum ráðuneytisins skulu foreldrar sem óska eftir undanþágu frá þessu lagaákvæði með heimakennslu sækja um slíkt til viðkomandi sveitarstjórnar. Gert er ráð fyrir að sveitarstjórn sæki formlega í bréfi til menntmrn. um heimild til heimakennslu í tilraunaskyni á grunnskólastigi skv. 53. gr. grunnskólalaga, nr. 66/1995, fyrir þá tilteknu nemendur sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu og skulu ákveðnar upplýsingar fylgja slíkri umsókn. Menntmrn. veitir síðan sveitarstjórn heimild til að leyfa heimakennslu að hámarki til tveggja ára í senn með ákveðnum skilyrðum. Þann tíma eru viðkomandi nemendur undanþegnir skólaskyldu skv. 1. gr. grunnskólalaga, nr. 66/1995. Það skal tekið fram að engin formleg umsókn hefur komið frá sveitarfélögum til ráðuneytisins um leyfi til heimakennslu á grunnskólastigi sem byggir á framangreindum vinnureglum. Því hefur hingað til ekki reynt á reglurnar. Samkvæmt vinnureglunum eru gerðar strangar kröfur til þeirra foreldra sem hyggjast annast heimakennslu, t.d. er gert ráð fyrir að þeir hafi kennararéttindi.

Ekki er hægt að segja fyrir fram hvaða ástæður geta helst réttlætt leyfi til heimakennslu. Þó er ljóst að heimakennsla er mjög víða valkostur í nágrannalöndunum og hefur t.d. náð verulegri útbreiðslu í Bandaríkjunum og skrifuð hafa verið stefnumarkandi rit víða erlendis um þessa kennsluskipan. Þeir sem fastast hafa sótt á að fá leyfi fyrir heimakennslu hér á landi eru kennaramenntaðir foreldrar sem hafa búið erlendis og hafa kennt börnum sínum heima erlendis eða hafa kynnst slíku kennslufyrirkomulagi og kjósa slíkt einnig hér á landi. Þar sem engin reynsla af heimakennslu er fyrir hendi hér á landi er ekki hægt að fullyrða um þróun mála en með vinnureglunum er þó opnaður sá möguleiki að foreldrar geti annast kennslu barna sinna heima og er það liður í auknum sveigjanleika í grunnskólastarfinu.