Heimakennsla á grunnskólastigi

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 10:51:18 (4706)

2003-03-11 10:51:18# 128. lþ. 95.2 fundur 641. mál: #A heimakennsla á grunnskólastigi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[10:51]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessi svör. Eins og fram kom hjá honum hefur ekki reynt á þessar reglur. Eigi að síður er full ástæða til að velta fyrir sér þessum möguleika og hvort, eins og ég sagði í upphafi, við erum að stíga skrefið aftur á bak eða áfram. Við sem þekkjum skólasöguna vitum að heimakennsla var hið viðurkennda form í upphafi formlegrar skólagöngu eða menntunar barna á Íslandi og síðan þótti það framför þegar byggðir voru skólar og börn fóru að sækja skóla. Vegalengdir á Íslandi urðu hins vegar til þess að byggja þurfti upp heimavistir sem nú hafa verið aflagðar og eins og ég sagði áðan, herra forseti, þá er víða um langan veg að fara fyrir lítil börn til að sækja skóla. Þess vegna fannst mér rökrétt að einhverjir foreldrar sem byggju afskekkt vildu hlífa börnum sínum við slíkum ferðum.

Það kemur mér ekki á óvart sem kemur fram hjá hæstv. ráðherra að foreldrar sem hafa menntast erlendis og kynnst þessu fyrirkomulagi vilji fá að reyna það líka hér heima. Þessir foreldrar gætu verið með svipaðar hugleiðingar og við vorum ýmis hér á árum áður um skólastefnur, róttækan skóla og möguleika til náms og kennslu. Alla vega finnst mér persónulega eðlilegt og jákvætt að þessi möguleiki sé fyrir hendi. Ég sé að það er farið með mikilli varfærni í reglum ráðuneytisins. Þetta er kallað tilraun og miklar kröfur eru gerðar til þeirra sem taka að sér heimakennsluna. En að því slepptu, herra forseti, eins og ég sagði áðan, finnst mér eðlilegt að menn skoði þennan kost sem einn af þeim sem er fyrir hendi í okkar dreifbýla landi þó að eðlilegt sé að farið sé með þeirri varfærni sem hér er gert.