Áfengis- og vímuefnameðferð fyrir fanga

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 11:10:42 (4712)

2003-03-11 11:10:42# 128. lþ. 95.3 fundur 583. mál: #A áfengis- og vímuefnameðferð fyrir fanga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[11:10]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að fangelsisvist eigi að miða að því að koma föngum á réttan kjöl í tilverunni aftur og að dvölin eigi að miða að því og að meðferð eigi að eiga sér stað í fangelsum. Ég er eindregið þeirrar skoðunar. Til þess er heilbrigðiskerfið tilbúið að hafa viðræður við fangelsisyfirvöld um hvernig best er að þessu staðið, hvernig við getum bætt þessar aðferðir, hvernig við getum bætt þjónustuna. En til þess þarf þetta samstarf að vera gott og náið og auðvitað þurfum við að skoða aðferðir okkar hjá heilbrigðisþjónustunni og hafa þær ávallt í endurskoðun eins og ég sagði í svari mínu.

Ég vil undirstrika það að fangelsin eiga að vera stofnanir, finnst mér, þar sem fangarnir fá meðferð til þess að undirbúa þá undir að koma út í lífið aftur. Þær eru ekki eingöngu stofnanir til að refsa fólki heldur til að koma því á réttan kjöl. Ég held að við verðum að hafa þetta alltaf í huga þegar við erum að ræða aðferðirnar við meðferð og dvöl á þessum stofnunum.