Endurhæfing krabbameinssjúklinga

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 11:18:57 (4717)

2003-03-11 11:18:57# 128. lþ. 95.5 fundur 643. mál: #A endurhæfing krabbameinssjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[11:18]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég ber fram fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um endurhæfingu krabbameinssjúklinga.

Allri tækni og þekkingu hefur fleygt fram hvað varðar greiningu og meðferð krabbameins og er það gott. Ég tel að við stöndum þar meðal fremstu þjóða hvað varðar þessa þætti. Áherslan hefur að sjálfsögðu verið á að lækna meinsemdina og síðan má segja að eftir að við náðum nokkrum tökum á lækningunni hafi áherslan einnig beinst að því að veita þeim sem greinast með krabbamein andlegan stuðning, og eins fjölskyldum þeirra.

Það sem út af stendur er að hafa heildarsýn og hafa það sem hluta af meðferð að hver og einn sem greinist með krabbamein, hver sem hefur gengið í gegnum sína meðferð og er vonandi með óvirkan sjúkdóm, fari í markvissa endurhæfingu og nái að byggja sig upp líkamlega og andlega. Slík endurhæfing á í raun og veru að vera eftirmeðferð lyfjameðferðar, geislameðferðar og hefðbundinnar meðferðar.

Nú nefni ég hér sérstaklega deildina í Kópavogi, endurhæfingardeild Landspítala -- háskólasjúkrahúss, en ekki Akureyri af þessu tilefni. Ástæðan er sú að á Akureyri er hægt að byggja upp endurhæfingarmeðferð á Kristsnesi en Kópavogur sem átti að vera endurhæfingarmiðstöð hefur orðið út undan. Þar er óformlega búið að opna göngudeild. Dagdeildin sem safnað var 3 millj. kr. til í þjóðarátaki til þess að standa að þessu hefur enn ekki tekið til starfa, og því spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Mun ráðherra beita sér fyrir eflingu endurhæfingardeildar krabbameinssjúklinga í Kópavogi?

2. Mun ráðherra beita sér fyrir rekstri dagdeildar fyrir krabbameinssjúklinga á sama stað og ef svo er, hvenær má búast við að rekstur slíkrar deildar geti hafist?

3. Mun ráðherra beita sér fyrir því að sálfræðiþjónusta, sjúkraþjálfun og endurhæfing verði ávallt samþætt læknisfræðilegri meðferð og hjúkrun krabbameinssjúklinga?