Endurhæfing krabbameinssjúklinga

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 11:26:23 (4719)

2003-03-11 11:26:23# 128. lþ. 95.5 fundur 643. mál: #A endurhæfing krabbameinssjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[11:26]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. En þó að sá vilji sé fyrir hendi til að efla samþættingu mismunandi sérfræðihópa og styrkja endurhæfingu krabbameinssjúklinga eða þeirra sem hafa greinst með krabbamein kostar það fjármagn, og það verður líka að vera aðstaða til þess að byggja upp þessa þjónustu. Svæðið í Kópavogi hefur að margra áliti verið talið mjög heppilegt til að byggja upp samþætta endurhæfingu, bæði eins og hún er í dag með göngudeild og eins að koma þarna upp dagdeild. En nú hefur verið komið fyrir annarri starfsemi í húsinu þar sem dagdeildinni var ætlaður staður. Það er vissulega erfitt tímabil núna fyrir alla sem koma að þjónustu Landspítala -- háskólasjúkrahúss, gríðarleg óvissa um staðsetningu og um möguleika á rekstri eins og endurhæfingarsviðs fyrir krabbameinssjúklinga sem í upphafi átti að byggja upp í Kópavogi og síðan er komin þangað önnur starfsemi. Nú á deildin hugsanlega að fara á Grensás. Menn vita ekkert hvar þeir standa, og á þessum tíma er auðvitað erfitt að byggja upp markvisst starf þó að vilji sé fyrir hendi. Það kostar líka fjármagn.

Svo vil ég benda á það að af einhverjum skipulags\-ástæðum fá þær konur sem fara í meðferð á kvennadeild Landspítalans ekki endurhæfingu á göngudeildinni í Kópavogi. Þær fara inn í annað kerfi en það verður að gæta þess að ef við byggjum upp slíka starfsemi sé hún fyrir alla, sama hvar í líkamanum sjúkdómurinn stingur sér niður.