Ferðakostnaður vegna tannréttinga

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 11:30:18 (4721)

2003-03-11 11:30:18# 128. lþ. 95.6 fundur 676. mál: #A ferðakostnaður vegna tannréttinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[11:30]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég ber fram fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmrh. um ferðakostnað vegna tannréttinga. Ég bendi á að við erum með mismunandi reglur í almannatryggingakerfi okkar hvað varðar aðgengi sjúklinga að sérfræðiþjónustu og stuðning við þá sem þurfa að leita sérfræðinga utan heimabyggðar við ferðakostnað.

Þegar kemur að sérfræðingum, öðrum en læknum í tannréttingum, geta sjúklingar fengið styrk til ferða en þegar kemur að tannréttingunum er það ekki nema við mjög alvarlega skilgreinda fæðingargalla eða vegna alvarlegra tilvika.

Nú háttar svo til á Austurlandi, í þeim stóra fjórðungi, að við höfum haft þar þjónustu tannlæknis sem hefur séð um tannréttingar í þó nokkur ár en nú er hann fluttur af staðnum og er því engin tannréttingaþjónusta fyrir íbúa Austurlands. Þetta er sérhæfð þjónusta sem venjulegir tannlæknar geta ekki séð um. Kannað hefur verið hversu margir einstaklingar þurfa á slíkri þjónustu að halda. Þetta eru yfir 70 einstaklingar, aðallega börn og unglingar, sem þurfa núna að fara um langan veg til þess að fá sína meðferð, en áætlað er að hver einstaklingur þurfi 15 sinnum að leita til sérfræðingsins vegna tannréttinga og þetta tekur nokkurn tíma.

Fyrir þau börn og þá unglinga sem þurfa að fá tannréttingar eru þessar aðgerðir í fyrsta lagi dýrar en í öðru lagi getur ferðakostnaðurinn ekki síður verið hár. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann muni beita sér fyrir breytingu á ákvæðum laga um greiðslu ferðakostnaðar vegna tannréttinga barna og unglinga sem búa þar sem ekki er kostur á þjónustu tannréttingasérfræðinga.