Ferðakostnaður vegna tannréttinga

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 11:33:24 (4722)

2003-03-11 11:33:24# 128. lþ. 95.6 fundur 676. mál: #A ferðakostnaður vegna tannréttinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[11:33]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Það er meginregla í lögum um almannatryggingar að Tryggingastofnun ríkisins tekur ekki þátt í að greiða kostnað vegna tannréttinga nema um sé að ræða alvarlegar afleiðingar fæðingargalla, slysa eða sjúkdóma, t.d. klofinn góm, skarð í vör og annars sambærilegs. Þó greiðir Tryggingastofnun ríkisins styrki vegna tannréttinga barna og unglinga samkvæmt reglugerð nr. 815/2002. Styrkurinn er föst fjárhæð, óháð kostnaði við tannréttingar, og er nú 150 þús. kr.

Meðal annars af framangreindum ástæðum eru ekki fyrir hendi samningar milli heilbr.- og trmrn. og tannlækna um tannréttingar og því hefur verið erfitt um vik að tryggja þjónustuna um land allt. Þrátt fyrir að samningar séu ekki fyrir hendi hafa á nokkrum svæðum verið stundaðar tannréttingar. Svo virðist sem þessi þjónusta fari minnkandi og verður kannað í heilbr.- og trmrn. hvort ekki verði unnt að fá tannlækna til að veita þjónustuna áfram á tilteknum landsvæðum. Ekki er talin þörf á að breyta ákvæðum laga um ferðakostnað ef tannlæknar sjá sér ekki fært að taka að sér framangreinda þjónustu.

Í i-lið 1. mgr. 36. gr. laga um almannatryggingar segir að sjúkratryggingar skuli veita hjálp vegna óhjákvæmilegs ferðakostnaðar með takmörkum og eftir reglum sem tryggingaráð setur og ráðherra staðfestir fyrir sjúkratryggða sem þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni eða á sjúkrahúsi, með og án innlagnar. Lagaákvæðið virðist veita svigrúm til að greiða ferðakostnað vegna tannréttinga barna og unglinga sem búa þar sem ekki er kostur á þjónustu tannréttingasérfræðinga.

Í áðurnefndum lögum er gert ráð fyrir að tryggingaráð setji reglur um óhjákvæmilegan ferðakostnað sjúkratryggðra sem þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni eða á sjúkrahúsi, með eða án innlagnar. Heilbr.- og trmrh. skal staðfesta reglur tryggingaráðs. Frumkvæði að breytingum að reglum um ferðakostnað er því hjá tryggingaráði en ef ekki tekst að tryggja þjónustu tannréttingasérfræðinga um land allt er rétt að beina þeim tilmælum til tryggingaráðs að það taki reglurnar til endurskoðunar með tilliti til þess. Ef talin er ástæða til að víkka út reglurnar þannig að þær nái til þessa hóps mun ég beita mér fyrir því að fjárveiting fáist til þessa verkefnis.

Herra forseti. Hv. þm. spyr hvort ráðherra muni beita sér fyrir breytingum á ákvæðum laga um greiðslur ferðakostnaðar vegna tannréttinga barna og unglinga sem búa þar sem ekki er kostur á þjónustu tannréttingasérfræðinga. Ekki er talin þörf á lagabreytingu til að auka þátt Tryggingastofnunar ríkisins í ferðakostnaði, heldur er talin ástæða til að fara aðrar leiðir. Í fyrstu mun ég láta kanna hvort hægt sé að fá tannlækna til að veita þessa þjónustu um land allt þar sem ég tel að það sé heppilegasta leiðin. Ef ekki er unnt að fara þá leið kemur til skoðunar að beina tilmælum til tryggingaráðs um að það hefji endurskoðun á ferðakostnaðareglunum þannig að þær komi til móts við þarfir þessa fólks. Í framhaldi af því þarf að tryggja að fjármagn fáist til að auka þátt Tryggingastofnunar í ferðakostnaði, og mun ég beita mér fyrir því ef niðurstaða tryggingaráðs leiðir til aukins réttar þessa fólks.