Ferðakostnaður vegna tannréttinga

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 11:37:05 (4723)

2003-03-11 11:37:05# 128. lþ. 95.6 fundur 676. mál: #A ferðakostnaður vegna tannréttinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[11:37]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir svörin því að það er alveg ljóst að í raun þarf ekki lagabreytingu. Það er túlkun á þeim lögum sem við höfum í dag og að viðurkenna að sérfræðiþjónusta tannréttingasérfræðinga sé sambærileg við aðra sérfræðiþjónustu innan heilbrigðisstéttanna og viðurkenna þann kostnað sem þessi börn og unglingar hafa af því að þurfa að fara um langan veg til þess að leita sér slíkrar þjónustu.

Auðvitað er mikilvægast af öllu að hafa sérfræðingana sem víðast um land þannig að fólk þurfi ekki að fara um langan veg til þess að nýta þá þjónustu. Því styð ég hæstv. ráðherra sannarlega í því að leita eftir samningum við sérfræðingana, og ef það tekst ekki og menn þurfa áfram að fara um langan veg, að veita þá fjármagn til málaflokksins þannig að ákvæði um sérfræðiþjónustuna og ferðakostnað taki einnig til þessara barna og unglinga.