Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 11:53:00 (4726)

2003-03-11 11:53:00# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, Frsm. meiri hluta GHall
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[11:53]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta samgn. um till. til þál. um samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014. Nefndin hefur fengið fjölmarga aðila á sinn fund og enn fremur hafa margar umsagnir borist samgn.

Með lögum um samræmda samgönguáætlun, nr. 71/2002, sem samþykkt voru á seinasta þingi var samgönguráðherra falið að leggja fram á Alþingi á fjögurra ára fresti tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun sem tekur til fjáröflunar og útgjalda til flugmála, vegamála og siglingamála, þar með talið hafnamála og sjóvarna, og rekstrarstofnana. Jafnframt skal í áætluninni skilgreina það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna í landinu, gera grein fyrir ástandi og horfum í samgöngumálum og marka stefnu fyrir allar greinar samgangna næstu tólf ár. Samhliða tólf ára áætlun ber samgönguráðherra að leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára áætlun sem nánari sundurliðun. Fjögurra ára áætlun kemur í stað flugmálaáætlunar, siglingamálaáætlunar og vegáætlunar.

Samkvæmt framansögðu er hlutverk þessara tveggja áætlana nokkuð ólíkt. Tólf ára áætlunin felur fyrst og fremst í sér stefnumótun. Í fyrirliggjandi áætlun er markmiðið sett á greiðari samgöngur með auknum flytjanleika í samgöngukerfinu sem taki bæði til fólks og vöru með það að markmiði að skapa skilyrði fyrir flesta landsmenn til að komast til og frá höfuðborgarsvæðinu á innan við þremur og hálfri klukkustund. Þá er markið sett á meiri hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri samgangna, að samgöngur verði umhverfislega sjálfbærar og öryggi aukist. Loks er skilgreint grunnnet samgangna sem tekur allt í senn til flugvalla, hafna og vega. Grunnnetið nær til allra byggðakjarna með um það bil 100 íbúa eða fleiri. Fjögurra ára áætlunin er eins og áður segir nánari sundurliðun þar sem gerð er grein fyrir fjáröflun og útgjöldum, skipt eftir einstökum framkvæmdum, rekstri, þjónustu og viðhaldi fyrir hvert ár.

Meiri hlutinn telur hina breyttu framsetningu veg-, flugmála- og siglingamálaáætlunar mjög til bóta sem og hina tólf ára stefnumótandi langtímaætlun, enda fæst nú í fyrsta sinn heildstæð yfirsýn samgöngumála í landinu. Þá telur meiri hlutinn að ávinningurinn felist ekki síst í því nána samstarfi sem skapast á milli Vegagerðarinnar, Siglingastofnunar Íslands og Flugmálastjórnar Íslands í gegnum samgönguráð. Jafnframt telur meiri hlutinn ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga um samgönguáætlun afar þýðingarmikið, en samkvæmt því skal samgönguráð minnst einu sinni á hverjum fjórum árum standa fyrir samgönguþingi sem ætlað er að vera til ráðgjafar og leiðbeiningar við gerð samgönguáætlunar en til þess ber að bjóða öllum helstu hagsmunaaðilum samgöngumála. Með þessu er skapaður grundvöllur fyrir virk skoðanaskipti um samgöngumál.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á fyrsta tímabili tillögunnar. Breytingarnar leiðir af þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til við tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006 og er til nánari glöggvunar vísað til skýringa í nefndaráliti meiri hlutans í því máli. Þá mælist meiri hlutinn jafnframt til þess að flokkun vega í grunnneti verði athuguð sérstaklega við næstu endurskoðun samgönguáætlunar og þá einkum með tilliti til safnvega og tengivega.

Að lokum telur meiri hlutinn eðlilegt að umferðaröryggisáætlun 2001--2012 sem Alþingi hefur samþykkt verði hluti samgönguáætlunar í framtíðinni. Meiri hlutinn telur sérstaklega að hraða þurfi úrbótum á stöðum þar sem liggja fyrir gögn um að umferðaröryggi sé ábótavant á þjóðvegi eitt.

Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir tillögu meiri hlutans rita auk frsm. hv. þm. Magnús Stefánsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir og Sigríður Ingvarsdóttir.

Þá mæli ég, herra forseti, fyrir nál. meiri hluta samgn. um till. til þál. um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006. Nefndin hefur fengið á sinn fund fjölda aðila sem hafa gert grein fyrir skoðunum sínum og jafnframt hafa margar umsagnir borist nefndinni varðandi þessa þáltill.

[12:00]

Um almenna umfjöllun um tillöguna er vísað til nefndarálits meiri hlutans með tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014.

Meiri hlutinn leggur til ýmsar breytingar á tillögunni sem nánar eru tilgreindar hér á eftir. Veigamestu breytinguna leiðir af því viðbótarfjármagni sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita til vegaframkvæmda til eflingar atvinnutækifærum. Vegagerðin hefur á undanförnum vikum unnið ötullega að því, í nánu samstarfi við nefndina og þingmenn einstakra kjördæma, að móta tillögur um skiptingu fjárins á einstakar framkvæmdir. Niðurstaða þeirrar vinnu og tillögur meiri hlutans eru birtar á bls. 31 og 32 í breytingartillögunni. Sökum þess skamma fyrirvara sem verið hefur til skiptingar fjárins leggur meiri hlutinn til að farin verði sú leið að veita Vegagerðinni heimild til þess að breyta framkvæmdaröð og víxla verkum milli ára komi í ljós að það sé heppilegt vegna skipulagsmála eða undirbúningsvinnu fyrir viðkomandi verk. Þessar heimildir eru tilteknar í breytingartillögum meiri hlutans við tillögutextann undir hverri framkvæmd fyrir sig. Meiri hlutinn lítur svo á að túlka beri þær heimildir þannig að sem mest hagræðing náist.

Þá vill nefndin koma að eftirfarandi atriðum:

Meiri hlutinn vill geta þess að ekki er gert ráð fyrir framkvæmdum við höfnina í Helguvík vegna áformaðrar pípuverksmiðju. Meiri hlutinn gerir hins vegar ráð fyrir því að þegar endanlegar ákvarðanir um verksmiðjuna hafa verið teknar muni ríkisstjórnin taka málið upp og gera nauðsynlegar ráðstafanir.

Meiri hlutinn vekur jafnframt athygli á að nauðsynlegt er að klára framkvæmdir við brimvarnargarð milli Miðhólma og Skiphólma á Vopnafirði á þessu ári. Í áætluninni er gert ráð fyrir að framlag ríkishluta á árinu 2003 sé 108 millj. kr. og 15,8 millj. kr. á árinu 2004. Erfitt er að færa þessar fjárveitingar milli ára. Því er það álit meiri hlutans að nauðsynlegt sé að flytja fjárveitingar sem samsvara fjárveitingum ársins 2004 til Vopnafjarðarhafnar úr verkefnum hjá þeim sveitarfélögum sem kjósa að fresta framkvæmdum á árinu 2003 og að gerð verði tillaga þess efnis á fjáraukalögum á haustþingi. Fjárveitingum yrði síðan skilað á fjárlögum 2004.

Meiri hlutinn telur eðlilegt, og beinir því til Vegagerðarinnar, að við endurskoðun vegáætlunar eftir tvö ár verði framkvæmdaáætlun skipt upp í samræmi við nýja kjördæmaskipan. Jafnframt beinir meiri hlutinn því til Vegagerðarinnar að áfram verði unnið að hagkvæmisathugunum á styttingu vegalengda á milli landshluta og á helstu leiðum.

Að lokum telur meiri hlutinn rétt að taka fram að óvissa ríkir um tekjuöflun og rekstur Flugmálastjórnar Íslands. Álagning flugvallargjaldsins sem er helsti tekjustofn stofnunarinnar og notað til að fjármagna framkvæmdir á flugvöllum auk margs annars hefur verið kærður af Eftirlitsstofnun EFTA til dómstóls EFTA í Lúxemborg. Ef þessi gjaldtaka reynist ólögleg þarf að endurskoða tekjustofna Flugmálastjórnar. Það skal tekið fram hér að ekki hefur innan núverandi ramma samgönguáætlunar tekist að finna leiðir til þess að taka á framtíðarrekstrarvanda stofnunarinnar á næstu árum þó svo að árið 2003 eigi að teljast viðunandi. Rekstrarvandinn er einkum til kominn vegna fækkunar flugfarþega og þar með minni tekna og hins vegar að aukin áhersla á flugöryggi og fyrirséð áform vegna flugverndar munu reynast mjög kostnaðarsöm. Fram hefur komið að Ríkisendurskoðun er að ljúka stjórnsýsluendurskoðun á Flugmálastjórn. Að þeirri niðurstöðu fenginni og með hliðsjón af framgangi mála í Lúxemborg telur nefndin rétt að samgönguráðherra vinni nýjar tillögur um tekjuöflun og rekstur stofnunarinnar sem kynnt yrði á Alþingi næsta haust í tengslum við gerð fjárlaga fyrir árið 2004.

Meiri hlutinn vekur athygli á að tillögur um framlög til ríkisstyrktra framkvæmda í siglingamálakafla tillögunnar voru ekki, vegna tímaskorts, sendar til umsagnar til sveitarfélaga eins og venja hefur verið með hafnaáætlun. Meiri hlutinn telur mikilvægt að haldið verði í þá venju sem skapast hefur að Siglingastofnun Íslands leiti álits sveitarfélaga og mun það vera ætlun stofnunarinnar samkvæmt upplýsingum nefndarinnar.

Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Herra forseti. Ég hef lokið að mæla fyrir nefndarálitum meiri hluta samgn.