Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 13:40:31 (4729)

2003-03-11 13:40:31# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[13:40]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér eru til umfjöllunar tvær tillögur, till. til þál. um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006 annars vegar og hins vegar till. til þál. um samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014. Fyrri tillagan er eins konar framkvæmdaáætlun, síðari tillagan er stefnumótunarplagg. Ég verð að segja það að mér finnast þessi plögg, og vísa ég þá ekki síst til stefnumótunarplaggsins, vera mjög vel unnin. Og ég hugsaði það þegar ég fletti þessum bókum, þetta eru lítil rit, hve mörg mjög vönduð gögn eru unnin í stjórnsýslunni sem ættu erindi víða.

Sú markmiðslýsing sem sett er fram í þáltill. um samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014 greinir frá fjórum markmiðum. Í fyrsta lagi um greiðari samgöngur, í öðru lagi um umhverfislega sjálfbærar samgöngur, í þriðja lagi um öryggi í samgöngum og í fjórða lagi um hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri samgangna. Þarna er greint frá fjórum meginmarkmiðum. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem í þál. með samgönguáætlun er að finna eins ítarlega umfjöllun og hér um ræðir sem lýtur að umhverfisþættinum og byggir á skýrslu stýrihóps um samgönguáætlun sem var birt í fyrra, að því er ég hygg. Þetta er nokkuð sem ég vildi leggja áherslu á, það er ástæða til að hrósa þessum vinnubrögðum.

Reyndar er það eitt varðandi umhverfisþáttinn sem ég sakna og það snýr að ferðaþættinum. Ég hef einhvern tíma sagt frá því áður að ég gerði grín að nefnd sem var skipuð hér fyrir rúmlega tíu árum á vegum samgrn. til að finna það út til hvers menn legðu vegi. Mér fannst vera alveg augljóst að menn legðu vegi til að komast frá einum stað til annars. En ég er löngu hættur að hlæja að þessu vegna þess að vegagerð getur haft margvísleg markmið að leiðarljósi. Í fyrsta lagi að komast frá einum stað til annars, í öðru lagi að flytja vörur frá einum stað til annars, en vegir geta einnig gegnt mikilvægu hlutverki í ferðaiðnaði og í ljósi þeirra markmiða leggja menn vegi á annan hátt en þeir gera ef markmiðið er einvörðungu að komast frá einum stað til annars á hraðvirkan hátt. Menn þekkja það frá Evrópu þar sem annars vegar er hægt að ferðast eftir svokölluðum ,,átóbönum`` á mjög skjótan hátt og hins vegar eru ferðamannaleiðir sem fara með klettum, gegnum boga og göng o.s.frv. Önnur sjónarmið og önnur markmið eru þar lögð til grundvallar.

Þetta finnst mér vanta í umfjöllun okkar um vegamál, þetta sem lýtur að ferðaþjónustunni. Þetta sjáum við í blaðagreinum og heyrum í umræðu í þjóðfélaginu. Það birtist í deilum um það hvort það eigi að byggja vegina á hálendinu upp eða láta þá fara með landinu. Þetta eru sjónarmið sem ég sakna í þessari annars mjög vönduðu umfjöllun sem fylgir þál.

[13:45]

Annað sem ég vildi vekja athygli á er hin pólitíska ábyrgð á öryggisþætti í umferðarmála og hvar hún á að hvíla. Í þessum gögnum er vikið að öryggismálum í umferð en ábyrgðin þar er ekki hjá samgrn. Hún er hjá dómsmrn. Ábyrgð á öryggi á sjó og í lofti er hjá samgrn. en hvað vegakerfið áhrærir er það dómsmrh. og dómsmrn. sem bera þar ábyrgðina. Ég held að þetta sé nokkuð sem við eigum að taka til endurskoðunar. Er ekki rétt að hafa þessa þætti alla á einum stað, samgöngurnar og ábyrgðina varðandi öryggismálin? Við skulum ekki gleyma því að hér hjá samgrn. eru fjármunirnir sem m.a. þarf að ráðstafa í öryggisskyni.

Þetta var annað atriði sem ég vildi gjarnan leggja áherslu á og síðan hitt, sem er heldur betur ástæða til minna þessa ríkisstjórn á, helst kvölds og morgna, þ.e. að vara sig á þeirri einkavæðingar- og markaðsvæðingarbakteríu sem herjar á stjórnarflokkana og hefur gert þeim marga skráveifuna á liðnum árum. Hér er að sjálfsögðu að finna þessi markmið, að einkavæða og markaðsvæða. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur gert ítarlega grein fyrir afstöðu okkar til þeirra þátta. Hann vísaði m.a. í stefnumótunarplaggið þar sem fjallað er um hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri samgangna. Þar segir að rekstur samgangna í lofti, á sjó og á landi sem ríkið kemur að skuli boðinn út til að tryggja eðlilegt samkeppnisumhverfi. Hér segir einnig að leitað skuli leiða til að nýta kosti markaðsaflanna við uppbyggingu og rekstur samgöngukerfisins.

Að sjálfsögðu er ekkert við það að athuga að einstök verk séu boðin út. Verktakar koma að gerð vega og brúarsmíði o.s.frv. og ekkert við því að segja. Öðru máli gegnir þegar um er að ræða rekstur á samgöngukerfinu. Þar hef ég miklar efasemdir um að notast eigi við markaðsöflin. Við skulum ekki gleyma því að þegar Hvalfjarðargöngin voru lögð á sínum tíma þá var sá valkostur einnig fyrir hendi að ríkið annaðist framkvæmdina að öllu leyti, tæki lánin beint og án nokkurra milliliða. Milliliða, segi ég, vegna þess að í reynd var ríkið bakábyrgðaraðili að lánunum. Stjórnarmenn í Speli hafa sagt mér, þar á meðal stjórnarformaðurinn, að lánin hefðu orðið miklu hagkvæmari ef þau hefðu verið tekin af ríkinu beint. Þetta er staðreynd.

Þess vegna furða ég mig á að því skuli haldið fram að þetta sé leið til að ná niður kostnaði. Þetta er leið sem alfátækustu ríkin fara til að fjármagna uppbyggingu stoðkerfis samfélagsins. Ef enga peninga er að hafa er ráðist í framkvæmdir af þessu tagi, einkaframkvæmd, með þá von í brjósti að síðar komi betri tíð og unnt verði að greiða skuldirnar upp þó að þær séu teknar á óhagkvæmari kjörum. Að við skulum fara inn á þessa braut er mér óskiljanlegt.

Ég tók eftir einu í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar sem ég vil vekja sérstaka athygli á. Hann fjallaði um útboðin, að þar skyldu menn jafnan hafa almannahagsmuni í huga. Undir þetta vil ég taka. Ég minni t.d. á það er leigubílaakstur var boðinn út í Reykjavík og menn gerðu leigubílastöðvunum að taka afarkjörum þar. Ég man ekki hvað þær voru komnar langt niður, fóru í 30--40% af eiginlegum kostnaði við aksturinn. Þetta voru samdráttartímar og fyrirtækin áttu ekki annarra kosta völ en að taka það sem byðist til að tryggja fjármuni í sínar hirslur. Fyrirtækin voru keyrð undir raunkostnaði. Þetta getur gerst líka ef útboðsstefnunni er mjög grimmt haldið að markaðnum á samdráttartímum. Þá eiga fyrirtæki ekki annarra kosta völ en að keyra niður verð. Þetta þurfum við allt að hafa í huga þegar við beitum þessari aðferð, útboðsaðferðinni, sem að sjálfsögðu er þó rétt að fylgja sem meginaðferð.

Ég vildi koma þessum meginatriðum að við þessa umræðu. Ég ítreka að mér finnast þessi gögn og skýrslugerðir mjög vel unnar. Ég finn þó að því að ýmsir þættir mættu vera þarna og við þurfum að taka það betur upp sem lýtur að ferðaiðnaði og ferðaþjónustunni. Ég vek athygli á því hvort ekki er orðið tímabært að taka öryggisþáttinn frá Vegagerðinni og færa til samgrn. Að lokum vara ég við þessari markaðsvæðingaráráttu ríkisstjórnarinnar.