Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 13:52:06 (4730)

2003-03-11 13:52:06# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, GE
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[13:52]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Langflestir Íslendingar hafa skoðun á því máli sem hér er til umræðu, ekki síst þingmenn, þ.e. samgöngumálum á næsta kjörtímabili og kjörtímabilum. Það er til umræðu hér, þ.e. vegáætlun frá 2003--2006 og síðan frá árinu 2003 til 2014, sem kalla mætti langtímaáætlun.

Það er eðlilegt að þingmenn hafi skoðun á þessum málum, a.m.k. landsbyggðarþingmenn sem margir hverjir eru á milli 600--700 klukkustundir á ári undir stýri. Það er eðlilegt að menn velti fyrir sér hvort slíkt sé normalt. Það er auðvitað hægt að benda á kjördæmi eins og Norðausturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi þar sem vegalengdir eru miklar. Í Norðvesturkjördæmi liggja t.d. um 2.200--2.300 km af vegum um kjördæmið, ætli menn að ná því að fara um sveitir og milli allra staða sem ber að hafa samskipti við. Á svo löngum leiðum komast menn óþyrmilega að því hvernig vegakerfið er. Því er eðlilegt að þessi mál séu mikið rædd og mikið um þau hugsað.

Það sem mér finnst í megindráttum vandinn við þessa framlagningu er að hv. þingmenn í samgn. segja hver á eftir öðrum að ekki hafi gefist nægur tími til að fjalla um málið. Mér finnst það kannski ekki alveg nógu gott. Þó vil ég taka undir með hv. síðasta ræðumanni með að þau gögn sem lögð eru fram eru aðgengileg, góð og skilmerkileg. Þau ættu að gagnast hverjum þeim sem þarf og þyrftu í raun að liggja mjög víða frammi þannig að almenningur úti á landi og í Reykjavík geti nálgast þessi gögn og kynnt sér það sem á ferðinni er. Fjárveitingar til samgöngumála á Íslandi þurfa eðlilega að vera háar. Svo er bara spurning um forgangsröðun og hvernig menn vilja nálgast þessa hluti.

Mín skoðun er almennt sú að við eigum að leggja sem mest í að gera vegi sem greiðfærasta og auðvelda byggðarlögum samgöngur til meginhringvegarins. Ég tel að það eigi fyrst og fremst að klára hringveginn til að unnt sé að nálgast það markmið sem sett hefur verið fram, að það sé hægt að komast til Reykjavíkur frá öllum stöðum á landinu á innan við 3,5 til 4 klst. Það er auðvitað meginmarkið og síðan að gera öryggið sem mest á vegunum hvar sem er.

Menn deila einnig um hvar skórinn kreppir. Menn deila um hvort fara eigi fyrst í Reykjanesbraut eða láta það ganga fyrir að fara í Hellisheiði, hvort það eigi að fara í Vesturlandsveg á milli Reykjavíkur og Akraness og síðan ýmsa aðra staði. Einnig er deilt um á hvern hátt menn vilja stytta vegalengdir í kjördæmum, m.a. með því að grafa göng og stytta leiðir. Um það hefur verið rætt á Austfjörðum, Vestfjörðum og á Norðurlandi eystra. Svo að ég nefni dæmi þarf að losna við þann mikla farartálma sem Hrafnseyrarheiði er. Það þarf að komast fram hjá þeim mikla farartálma Dynjandisheiði, hvaða leið sem menn velja. Ég tel að það hafi ekki verið skoðað nógu vel hvernig best er að fara um þetta svæði, t.d. frá Dýrafirði og yfir að Mjólkárvirkjun. Þar eru menn að tala um göng allt að 10 km en rannsóknir eru ekki hafnar. Menn hafa bara áætlað leiðir.

Sama má segja um vegi víða um Ísafjarðardjúp. Þar eru menn t.d. með áætlanir um að þvera Hestfjörð frá Hvítanesi og yfir að Hesti. Það eru bara áætlanir. Menn hafa ekki reiknað út hagkvæmnina leiðarinnar eins og nauðsynlegt væri. Menn hafa heldur ekki áttað sig á því hvort rétt sé að fara undir Eyrarfjall, Kleifina sem kölluð er, sem liggur á milli Ísafjarðar og Mjóafjarðar í Ísafjarðardjúpi --- eða hvort menn velja þá leiðina að fara út í Reykjanes og yfir Mjóafjörð um Hrútey. Þetta er allt á umræðustigi. Menn eru ekki komnir nógu langt í rannsóknum og því segi ég að rannsóknir eru því miður of skammt á veg komnar til þess að menn geti ákveðið framkvæmdir.

Ég velti mikið fyrir mér tillögu sem kom fram fyrir skömmu og er komin á fjáraukalög. Ég velti því fyrir mér hvernig sú tillaga var sett fram og hugsuð. Menn tala um að setja 4,2 milljarða í flýtiframkvæmdir. Þessi flýtiframkvæmd þýðir raunverulega ekki annað en að það er verið að flýta framkvæmdum sem átti að vera lokið 2014. Það er verið að flýta þeim fram til ársins 2012.

[14:00]

Ég hefði gjarnan viljað forgangsraða öðruvísi en menn gera. Ég hefði viljað leggja þessa fjármuni í það að klæða sem mest vegi þar sem malarvegirnir eru raunverulega tilbúnir undir klæðningu. Það er mjög víða á landinu sem hefði mátt gera vegi greiðfærari á þann hátt að leggja slitlag á malarvegi sem þegar eru tilbúnir. En samkvæmt framsetningunni eru stór svæði á landinu skilin út undan í þeim efnum.

Ég mun aðallega, virðulegur forseti, gera samgöngur um Norðurland vestra, Vestfirði og Vesturland að umfjöllunarefni. Ég mun fjalla að einhverju leyti um Hvalfjarðargöng. Ef ég byrja á Norðurlandi vestra þá kemur fram í gögnum að menn hugsa sér að halda áfram með Þverárfjallsveg sem er gífurleg samgöngubót á leiðinni milli Sauðárkróks og Skagastrandar, og er gífurleg samgöngubót fyrir íbúa á Norðvesturlandi með styttingu leiðarinnar til Reykjavíkur í huga og munar þar ansi miklu í vegalengdum. Ég tel að þar hafi menn tekið rétta ákvörðun þegar grannt er skoðað, þó deilt hafi verið um þá vegaframkvæmd.

Einnig má benda á að leiðin um Kolkuós hefur ekki verið nægjanlega skoðuð, þ.e. frá Hofsósi til Sauðárkróks, hvort skynsamlegt sé að fara þar strandveginn. Það er algjörlega óathugað mál og menn virðast vera með það á stefnuskrá að fara um núliggjandi veg og eru þar kannski með Hóla í huga, en ég tel að menn þurfi að skoða það mál miklu betur áður en menn hafna þeim möguleika sem ég er hér að nefna. Um þetta er ekkert fjallað í till. til þál. og hvorki í fjögurra ára samgönguáætlun né í samgönguáætlun til ársins 2014.

Á Vestfjörðum liggja gífurleg verkefni fyrir. Það vita þeir best sem við þær samgöngur búa. Ýmist er talað um suðursvæði og þá um veginn um sunnanverða Vestfirði, eða þá norðursvæði, þ.e. veginn um Djúp og yfir Þorskafjarðarheiði, eða þá til Hólmavíkur og þannig suður, annaðhvort eftir Ströndum eða eftir Tröllatunguheiði, eða Arnkötludal sem á undanförnum árum hefur verið fjallað verulega um. Og úr því ég nefni Arnkötludal er ástæða til að geta þess að sveitarstjórnin í Bolungarvík, hreppsnefnd Súðavíkurhrepps, bæjarráð Ísafjarðar og hreppsnefnd Hólmavíkur hafa fundað um þá leið, þ.e. ályktað um það að fara Arnkötludalsleiðina og sendu þingmönnum og frambjóðendum í Norðvesturkjördæmi eftirfarandi ályktun sem ég leyfi mér að lesa, með leyfi forseta:

,,Fundurinn var sammála um að senda frá sér svohljóðandi ályktun:

Sameiginlegur fundur bæjarráðs Bolungarvíkur, bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, hreppsnefndar Súðavíkurhrepps og hreppsnefndar Hólmavíkurhrepps fagnar þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja einn milljarð til viðbótar í vegamál á Vestfjörðum.

Fundurinn vísar til fyrri samþykkta fjórðungsþinga Vestfirðinga og sameiginlegra funda Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkur og Súðavíkurhrepps, en þar er kveðið á um að framtíðarleiðin úr Djúpi liggi um Arnkötludal á Ströndum. Er það rúmlega 40 km stytting á leiðinni til Reykjavíkur og er samstaða meðal sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum og sveitarstjórnar Hólmavíkurhrepps um þá leið.

Vegur um Arnkötludal og Gautsdal mun stytta vegalengdina milli norðanverðra Vestfjarða og suðvesturhornsins auk þess sem hann mun tengja tvö atvinnu- og þjónustusvæði á Vestfjörðum sem næstum engin landfræðileg samskipti hafa í dag, þ.e. Stranda og Austur-Barðastrandarsýslu Framkvæmdin yrði nauðsynlegur og eftirsóknarverður hlekkur í Vestfjarðahringnum.

Á það er lögð áhersla að komið verði bundið slitlag á Djúpveg inn á þjóðveg nr. 1 á 5 árum í stað 12 eins og kemur fram í tillögu til þingsályktunar að samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014, enda er um að ræða aðalveg íbúa á norðanverðum Vestfjörðum inn á þjóðveg nr. 1.

Sveitarfélögin óska eftir góðu samstarfi við samgönguráðherra, þingmenn, og starfsmenn Vegagerðarinnar um samgöngumál og æskja þess að samráð verði haft við sveitarfélögin áður en endanleg ákvörðun verður tekin um ráðstöfun þeirra fjármuna sem nú bætast við til vegamála.``

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að doka aðeins við þegar þessi ályktun er lesin, þar sem bent er sérstaklega á að bundið slitlag verði komið á Djúpveg á næstu fimm árum. Þá er rétt að minnast þess að fyrrv. samgrh., hv. þm. Halldór Blöndal, sagði árið 1991 á fjölmennum fundi á Ísafirði að lokið skyldi við að klæða Djúpveg með bundnu slitlagi fyrir árið 2000. Núna er áætlunin um að þessu skuli lokið árið 2014. Ástæða er til að rifja það upp þegar svona lagað er sagt, vegna þess að væntingar fólksins sem býr úti á landi eru mjög miklar eftir að þingmenn, ég tala nú ekki um þegar menn í embætti ráðherra segja slíkar setningar, og eftir slíkum orðum tekið og menn muna það eilíflega. Og þeir sem á eftir koma verða örugglega minntir á þessi orð.

Vissulega eru deild sjónarmið um leiðina um Arnkötludal og þeir sem búa á Ströndum vilja gjarnan fá sinn veg á milli Hólmavíkur og Brúar í Hrútafirði. Og það er skiljanlegt. En þarna verða menn að velja á milli og velja hagkvæmustu leiðir. Það getur átt við í báðum tilvikum að þar séu kaflar sem mjög auðvelt er að klæða með slitlagi og þá tel ég að því eigi að veita forgang. Við erum ágætlega vön því að inni á milli komi gott slitlag og síðan komi holóttir malarvegir og ég held að það skapi ekki þá hættu að menn eigi ekki að velja klæðningu þar sem það er mögulegt. Það hefur reynst með ólíkindum vel þegar menn gripu til þess ráðs að setja einbreitt slitlag nokkuð víða, bæði í Djúpi og svo í Dölum, þar sem ég þekki mætavel til hvernig það hefur reynst. Þótt það sé ekki ákjósanlegasta leiðin, þá dugði hún verulega, það bætti mjög möguleikana til að aka um þessi svæði.

Ég tel ástæðu til, virðulegur forseti, að vitna hér í aðra greinargerð eða bréf frá samgöngunefnd sveitarfélaga í Barðastrandarsýslu. Það er ástæða til að átta sig á því að mismunandi sjónarmið eru á mismunandi stöðum, þó allir séu frá Vestfjörðum sem um er að ræða, þá eru ekki sömu sjónarmið á sunnanverðum Vestfjörðum og á norðanverðum Vestfjörðum. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Varðar: Tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014.

Í kaflanum um verkefni á landsbyggð á bls. 11 er fjallað um Vestfjarðaveg milli Bjarkarlundar og Flókalundar, og gert ráð fyrir samtals 2.600 millj. kr. í hann á næstu 12 árum.

Í kafla 4.3 um helstu framkvæmdir á grunnneti vegakerfis, er á bls. 55 fjallað um Vestfjarðaveg milli Bjarkarlundar og Flókalundar. Þar segir að lagt sé til að unnið verði að framkvæmdum á þessum vegi allt áætlunartímabilið og honum lokið. Síðan segir: ,,Gerð verður nánari grein fyrir tillögu að leiðavali og áfangaskiptingu við meðferð málsins á Alþingi.``

Rík áhersla er lögð á að tillögur um leiðaval og áfangaskiptingu verði ákveðnar í meðferð málsins á Alþingi, eins og boðað er í þingsályktunartillögunni, sérstaklega hvað varðar kaflann frá Melanesi, vestan Gufufjarðar og að Bjarkarlundi.

Sveitarfélögin í Barðastrandarsýslu hafa árum saman lagt áherslu á að lega vegarins verði í samræmi við svæðisskipulag fyrir Reykhólahrepp, sem vinna hófst við árið 1994 og staðfest var af umhverfisráðherra í janúar 1996. Það er jafnframt sú leið sem gert er ráð fyrir í samgönguáætlun fjórðungsþings Vestfirðinga frá árinu 1997, sem enn er í gildi. Í vinnugögnum Vegagerðarinnar um leiðir um Austur-Barðastrandarsýslu er leiðin nefnd leið B.

Það vegstæði sem hér um ræðir er að öllu leyti á láglendi og styttir núverandi veg um 22,2 km og tekur af tvo fjallvegi, um Ódrjúgsháls og Hjallaháls, og eru miklir farartálmar, sérstaklega að vetrarlagi. Leiðin liggur þvert yfir Þorskafjörð um svokallaðan Ytri-Vaðal frá Kinnarstöðum til Þórisstaða og þaðan út Hallsteinsnes og yfir mynni Djúpafjarðar í Grónes og áfram yfir mynni Gufufjarðar í Melanes.

Sveitarstjórnirnar leggja áherslu á að verkinu verði skipt í tvo áfanga. Fyrri áfanginn verði þverun Þorskafjarðar, sem einn og sér styttir núverandi veg um 9,5 km og nýtist strax. Seinni áfanginn verði lagning vegarins út Hallsteinsnes og vestur í Melanes. Þar sem síðari áfanginn er fyrirsjáanlega það kostnaðarsamur að gera verður ráð fyrir að allmörg ári líði þar til honum yrði að fullu lokið, er lögð áhersla á að vegurinn um Ódrjúgsháls austanverðan verði lagfærður fljótlega, þannig að unnt verði að halda honum opnum árið um kring.

Það er eindregin ósk sveitarfélaganna í Barðastrandarsýslu, Vesturbyggðar, Tálknafjarðarhrepps og Reykhólahrepps að samgöngunefnd Alþingis og Alþingi sjálft geti þessa leiðarvals og áfangaskiptingar nú við afgreiðslu þingsályktunar um samgönguáætlun.``

Virðulegur forseti. Ég hef lokið að fara yfir bréf frá samgöngunefnd sveitarfélaganna í Barðastrandarsýslu sem er undirritað af Þórólfi Halldórssyni formanni.

Ástæða er til að nefna þetta við umræðuna, vegna þess að ég sé þessa í engu getið þegar samgönguáætlunin er skoðuð, en það er sérstök ósk þessara sveitarfélaga að um þetta sé fjallað við afgreiðslu þess máls sem við nú ræðum. Þess vegna, virðulegur forseti, kom ég með þetta bréf og vitnaði til þess, það er þó a.m.k. hægt að vísa í það að þessu hafi verið komið á framfæri.

En ugglaust eru menn með fjölmörg atriði í huga sem samgöngunefndir ákveðinna svæða hafa í forgang sem við þingmenn getum kannski ekki höndlað á öllu landinu, en gætum þó höndlað a.m.k. á því svæði þar sem við gefum kost á okkur og sækjumst eftir að vera í framboði.

[14:15]

Ef ég fjalla örlítið um samgöngur á Vesturlandi þá er það nú ansi víða sem skórinn kreppir. Fyrst dettur mér í hug að fara í norðanvert Vesturland þar sem vegurinn kemur beint frá Vestfjörðum og um Dali. Þar liggur núna frá Saurbæjarhreppi og að Laugum vegur um Svínadal sem á löngum kafla er tilbúinn, gjörsamlega tilbúinn til þess að taka við klæðningu. Það er ástæða til að skoða það. Þar þarf ekkert að gera nema leggja bara slitlagið ofan á. Það er ekki gert ráð fyrir því í þeim tillögum sem nú komu í fjáraukalögum um flýtiframkvæmdir. Þar er ekkert nefnt í þessu sambandi. Engar tillögur eru gerðar í neinni áætlun fyrr en árið 2004, að þá verði hafnar framkvæmdir á þessari leið. Þetta yrði hagkvæm framkvæmd og þar mundu fjármunir nýtast vel.

Virðulegur forseti. Þó ég fagni út af fyrir sig tillögum hæstv. ríkisstjórnar um flýtiframkvæmdir þá held ég að það fylgi þeim ekki nægjanlega mikið eða sem sagt þessar áætlanir um hvert fjármagnið er látið eru ekki nógu vel grundaðar.

Lagt er til að fjárheimild samgrn. verði aukin um 3 þús. millj., eða þrjá milljarða, til nýframkvæmda og það er auðvitað í samræmi við átak ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. Þetta er það sem liggur fyrir. Það á að hækka framlög í heildina til vegamála um samtals 4,6 milljarða til að efla atvinnu á næstu 18 mánuðum. Gert er ráð fyrir að um 3 milljarðar falli á yfirstandandi ár en 1,6 milljarðar á árið 2004.

Hér er sagt að undirbúningur framkvæmda sé kominn mismunandi langt á veg. Það er einmitt málið. Það er alveg rétt. Mismunandi undirbúningur er í gangi og það er langt í land með að það fjármagn sem úthlutað er nýtist nægjanlega vel, eins og ég sé það fyrir mér, til þess sem það er ætlað. Það á ekki bara að auka möguleika á atvinnu heldur bæta samgöngurnar. Það er eitt af meginatriðunum því það bætir líka atvinnumöguleikana.

Ég sé t.d. að hér er gert ráð fyrir 500 millj. kr. til Suðurstrandarvegar sem alls ekki var inni í áætlun og ekki ætla ég að fara að mæla því í mót. Ég er bara að útlista það, virðulegur forseti, að ég tel að það hafi legið fyrir og liggi fyrir að það eru mörg svæði sem hægt er að ganga beint að og fara í klæðningar á og sem mundu nýtast íbúum á mismunandi svæðum á landinu best.

Ég fjallaði aðeins um vegarlagningu um Svínadal. Ég fagna því að nú eygir í að vegur um Bröttubrekku verði kláraður þannig að hann verði tilbúinn hugsanlega á þeim tíma sem áætlað var. Framkvæmdir nú eins og þær standa eru töluvert á eftir því sem menn gerðu ráð fyrir. En í heildina tekið gæti verið að hægt væri að klæða veginn yfir Bröttubrekku á þeim tíma sem menn ætluðu sér. Ég hef nú ekki nægjanlegt verksvit til þess að geta metið það. Mér sýnist þó miðað við undirstöðuna í veginum að sunnanverðu í Bröttubrekku, yfir Bjarnardalsá og ofan úr Gili, að mögulegt sé að klæða þann veg vegna burðarins í honum nokkuð fyrr en venjulega er gert við nývegalagningu.

Það eru miklar væntingar á Vesturlandi m.a. um Uxahryggjaveg. Við þingmenn höfum viljað reyna að sinna þessu máli eins vel og kostur hefur verið. Við höfum skoðað þessi mál og núna eru fjármunir á vegáætlun til þess að hefja þar framkvæmdir. Síðan er auðvitað mismunandi hvar menn telja að hefjast eigi handa. Ég tel að það ætti að hefjast handa þar sem mestur árangur næst í að klæða vegi og geyma sér torveldu kaflana í upphafi vega og enda á þeim, þ.e. gera eins marga kílómetra og hægt er að greiðum leiðum.

Einn er sá vegkafli sem ég hef gert oftar en einu sinni að umræðuefni í ræðum mínum. Það er vegurinn undir Hvalfjörð eða veggöngin undir Hvalfjörð. Ég má til með að segja það, virðulegur forseti, að það hefur margsinnis komið fram bæði á hv. Alþingi og í fjölmiðlum að einstaka hafa talið undirritaðan vera með ósanngjarnan málflutning í garð hæstv. samgrh. Um það eru ýmis dæmi nefnd, m.a. þessar fyrirspurnir mínar um möguleika á lækkun gjalds fyrir umferð um göngin. Ég hef lagt fram fyrirspurnir og ritað greinar um að kannaðir verði möguleikar á lækkun eða niðurfellingu veggjalds um Hvalfjarðargöng og vitnað þar í fyrirspurnir og ræður á hv. Alþingi. Ég hef borið fram fyrirspurnir til hæstv. fjmrh. um hvort unnt sé að fá þeirri ósk framgengt að virðisaukaskattur verði felldur niður af veggjaldi um Hvalfjarðargöng, ekki síst á sanngirnisgrundvelli. Fjmrh. brást þannig við að ekki væri unnt að fá þetta fram. Með leyfi forseta, vitna ég í svar hæstv. fjmrh. þar sem segir:

,,Svarið við þessum spurningum er nei. Að vísu er mér illa við að notast skuli við orðið sanngirni þarna í lokin. Ég vil ekki vera ósanngjarn en ég held að orðið eigi ekki við í því samhengi sem það var notað í spurningunni.``

Það var spurt hvort það væri sanngirni í því að þeir sem greiða t.d. þungaskatt greiði svo aftur aukalega þungaskatt fyrir að aka um göngin --- þá á ég við vöruflutningabifreiðar --- og greiði síðan virðisaukaskatt ekki bara vegna ferðarinnar heldur líka vegna orkunotkunar eða olíunnar eða bensínsins sem notað er á leiðinni.

Samgrh. hæstv. hefur á stundum tekið undir það að eðlilegt sé að skoða hvort á einhvern hátt sé unnt að athuga með lækkun á gjaldi fyrir umferð um Hvalfjarðargöng. En hæstv. samgrh. hefur einnig borið undirritaðan þeim sökum að reyna að slá sig til riddara í þessu máli.

Virðulegur forseti. Ég mótmæli þeirri framsetningu vegna þess að ég tel að málið sé miklu meira virði en svo að einhver þingmaður eða einstaklingur sé að reyna að slá einhverjar pólitískar keilur í þessu sambandi. Um er að ræða mikinn fjölda manna í öllum stjórnmálaflokkum og reyndar er stærstur hlutinn í Norðvesturkjördæmi, sem hefur gífurlegan hag af því að gjald um Hvalfjarðargöng verði lagt niður eða lækkað. Ég segi það fullum fetum að það er unnt að lækka veggjald um Hvalfjarðargöng um 34% með beinni aðgerð án þess að hafa nokkur áhrif á þau lán sem eru kölluð Hancock-lán, sem eru bundin ákveðnum samningum við Spöl hf.

Ég fagna bréfi hæstv. samgrh. sem loksins fór af stað nú fyrir skömmu. Það er auðvitað spurning hvort það er í tilefni af því að kosningar eru í nánd. Það breytir út af fyrir sig engu í mínum huga. En ég fagna því að hæstv. samgrh. ritaði bréf til stjórnar Spalar þar sem einmitt var farið fram á nákvæmlega það sem sá þingmaður sem hér stendur er búinn að bera margsinnis upp, þ.e. hvort ekki sé rétt að leita leiða til að lækka veggjald um Hvalfjarðargöng.

Ég minnist þess að á fundi með forsvarsmönnum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi var þessu máli hreyft. Ég leyfði mér að fagna frumkvæði Borgnesinga í þessu máli og það voru ekkert allir ánægðir með það fagnaðaróp mitt. Ég vona samt að það sé fyrsta skrefið í því að af alvöru verði leitað leiða til að fella niður það gjald sem Vestlendingar að stærstum hluta og íbúar á Norðvesturlandi greiða að mestu leyti. Það eru íbúar þessara svæða sem að stærstum hluta, eða yfir 75%, standa undir rekstrarkostnaði og niðurgreiðslu kostnaðar vegna ganga undir Hvalfjörð.

Margra spurninga var spurt, virðulegur forseti, þegar þessi mál voru rædd. Það var spurt m.a. um það hversu miklum tekjum virðisaukaskatturinn hefði skilað á ári að meðaltali. Það kemur í ljós að virðisaukaskatturinn af umferð um Hvalfjörð skilar 100 millj. kr. beint í ríkissjóð á hverju einasta ári sem Hvalfjarðargöng hafa verið rekin. Það eru beinar tekjur. Þar að auki sparar ríkissjóður vegna þess að það er nánast ekkert viðhald á gamla veginum um Hvalfjörð. Unnt er að fresta því að endurnýja brúna um Laxá sem þoldi engan veginn umferðina. Það nemur bara --- bara brúin nemur 800 millj. kr. fyrir utan fyrirhugaðar aðgerðir í vegamálum í Hvalfirði sem voru einhvers staðar á bilinu milli 400 og 500 millj. kr. Til þessa er ekkert tillit tekið þegar fjallað er um þetta mál.

Ég minnist þess að hafa spurt hæstv. ráðherra hvort eðlilegt sé að Snæfellingar, Borgfirðingar og Akurnesingar standi undir meira en helmings fjármögnun þessa hlutar hringvegarins um Ísland. Þá kom svar hæstv. samgrh., með leyfi forseta:

,,Svar mitt er að það er mjög erfitt að gefa sér út af fyrir sig hverjir fari aðallega um göngin. Hins vegar er alveg ljóst að þeir sem næst göngunum búa nota þau langmest. Það liggur í augum uppi að íbúar þeirra svæða sem hv. þm. nefnir greiða stóran hluta af þessu án þess að hægt sé að fullyrða um það. Ekki hefur verið gerð nein greining á umferðinni um göngin eftir búsetu. En þetta liggur nokkuð ljóst fyrir.``

Það er gaman að velta því fyrir sér, virðulegur forseti, hvað verið er að segja. Það er verið að taka undir það sem undirritaður þingmaður setti fram, en nánast engin skilgreining. Spurningin er nákvæmlega endurtekin með framsetningu hæstv. ráðherra.

Virðulegur forseti. Það eru að koma kosningar. Ég fagna því að hæstv. samgrh. hefur ritað bréf til Spalar hf. þar sem farið er fram á að skoðaðir verði möguleikar til lækkunar gjalds um Hvalfjarðargöng. Ég segi bara: Betra seint en aldrei. Ég endurtek að ég fagna þessu framtaki hæstv. samgrh. sem lýtur að því að fella niður eða lækka veggjald um Hvalfjarðargöng. Það er stórmál. Einstaklingarnir eru margir að greiða allt að 200 þús. kr. í beinan ferðakostnað á hverju ári vegna atvinnu eða skólasóknar, annaðhvort frá Reykjavík til Akraness eða á suðursvæði Vesturlands eða frá þessum svæðum, suðursvæðum Vesturlands til Reykjavíkur vegna vinnu eða skóla. Þess má geta að í Noregi er heimilt að draga frá skatti svona kostnað vegna ferða milli svæða vegna vinnu eða skóla. Ef menn hefðu nú viljað skoða þá leið þá hefðu þeir getað sett það fram eins og skot. Ekki var því að heilsa í þessu tilviki að menn vildu gefa því gaum því það var líka nefnt. Sá möguleiki var líka nefndur þegar talað var um kostnað einstaklinganna vegna ferða til og frá Reykjavík.

[14:30]

Það er að mörgu að hyggja í þessum málum. Ég hef hér undir höndum hugmyndir um einkafjármögnun vegar milli Hólmavíkur og Gilsfjarðar sem styttir leiðina um 40 km. Ég vísa bara á vef þar að lútandi. Ég vísa einnig á arðsemismat vegar milli Hólmavíkur og Gilsfjarðar um Arnkötludal og Gautsdal. Þar er hægt að fara inn á vefslóðina http://www.vegur.is, þetta er kunnugleg slóð fyrir marga, og ég tel að það sé ástæða til að skoða þessar hugmyndir félags um þennan veg; hagkvæmni, arðsemi og möguleika til einkafjármögnunar á þeirri leið.

Ég bendi líka á hugmyndir um göng undir Vaðlaheiði. Þar eru áhugaverðar hugmyndir á ferðinni og ég tel að það eigi að skoða þær. Ég tel að líka eigi að skoða þær með tilliti til þess hvaða kostnað menn eru tilbúnir að taka á sig við slíkar vegframkvæmdir.

Virðulegi forseti. Ég ætla að enda mál mitt eins og ég byrjaði það. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að þingmenn víða að af landsbyggðinni sitji 600--700 klst. á ári undir stýri. Til að menn átti sig á hve langur vinnutími það er er um að ræða hátt í fjóra mánuði miðað við 170 vinnustundir á mánuði. Þessi vinna er yfirleitt unnin í næturvinnu, þ.e. á nóttunni og um helgar, og segir dálitla sögu um hvað er á ferðinni. Ég held að þetta sé athugandi í sambandi við tillögur Samfylkingarinnar varðandi kjörorðin ,,Landið eitt kjördæmi`` þar sem svæðunum yrði skipt upp á milli einstaklinga innan flokkanna og það haft í huga að mönnum sé ekki ætlað, eins og nú er, að fara um svæði eins og Norðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi, og sinna þar málum eins og eðlilegt er að gerð sé krafa um, á þann hátt sem þetta liggur fyrir nú. Samanburðurinn við ferðalög hv. þingmanna í kraganum svokallaða, af því að ég sé hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson, mismunurinn á þeim ferðalögum sem þeir þurfa að leggja á sig á móti þeim sem eru í Norðausturkjördæmi er gífurlegur. Þar geta menn komist á nánast korteri á alla staði sem þeir þurfa og ætla að fara á, en það tekur upp í sjö klukkutíma að komast á milli staða í Norðvesturkjördæminu, svo þetta sé nefnt. Það er ástæða til að hafa orð á þessum mismun, virðulegur forseti, það er ástæða til að benda á að í kjördæmunum Reykjavík suður og Reykjavík norður er hægt að komast á innan við 20 mínútum til allra átta, hvar sem verið er í þessum kjördæmum. Þetta er samanburðurinn við landsbyggðarþingmanninn, og þó að við séum kannski öll þingmenn alls landsins er þetta mismunurinn fyrst og fremst.

Ég ítreka að 600--700 klst. undir stýri á ári er allt of langur tími til þess að það mál verði ekki skoðað sérstaklega og hvernig ætti að breyta því.

Virðulegur forseti. Ég vil segja það að lokum að gögnin sem fram eru lögð af hálfu hæstv. samgrh. eru góð, bæði till. til þál. um samgönguáætlun fyrir 2003--2014 og síðan fjögurra ára áætlun fyrir árin 2003--2006 og enn fremur framkvæmdaáætlun á árinu 2002. Það er ástæða til að geta þess að þar eru tíundaðar framkvæmdir og rannsóknir á umferðarhraða sem ber að gefa gaum að. Og það er ýmislegt sem liggur í þeim vinnuskjölum sem menn ættu að lesa og skoða, ekki síður þingmenn en aðrir.