Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 15:07:18 (4737)

2003-03-11 15:07:18# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, Frsm. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[15:07]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég tek aftur til máls um samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014 og 2003--2006 og mæli fyrir brtt. sem ég flyt við samgönguáætlunina og við brtt. meiri hlutans varðandi flugvelli í grunnneti.

Eins og ég gat um í ræðu minni í morgun er skilgreining samgöngukerfisins í grunnnetinu sú að það nái til allra byggðakjarna með u.þ.b. 100 íbúa eða fleiri og það nær einnig til þeirra staða sem eru mikilvægastir fyrir fiskveiðar, ferðamennsku og flutninga til og frá landinu. Í þáltill. um samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014 er kveðið á um hvaða flugvellir skuli vera í svokölluðu grunnneti, þ.e. að hafa þá stöðu. Þar eru taldir upp flugvellirnir í Reykjavík, Bíldudal, Ísafirði, Þingeyri, Sauðárkróki, Akureyri, Þórshöfn, Egilsstöðum, Höfn í Hornafirði, Vestmannaeyjum, Bakka og Keflavík. Í þáltill. fyrir árin 2003--2014 er kveðið á um að áætlunarflugvellirnir á Gjögri, Grímsey og Vopnafirði séu utan grunnnets.

Hins vegar er í till. til þál. fyrir árin 2003--2006 gerð breyting á. Í kaflanum um flugvelli í gunnneti er auk þeirra sem áður voru upp taldir í grunnnetinu flugvöllurinn í Grímsey gerður að flugvelli í grunnneti, sem ég í sjálfu sér fagna. Eftir standa þá tveir flugvellir sem eru í áætlunarflugi, þ.e. flugvellirnir á Vopnafirði og Gjögri. Þegar spurt var í samgn. hvers vegna þessir flugvellir mættu ekki vera hluti af grunnnetinu fengust í sjálfu sér engin ákveðin svör, heldur bara að þetta hefði verið svona. Að vísu er vakin athygli á því að það er ekki mjög mikil byggð í Árneshreppi þar sem Gjögurflugvöllur er og eins hinu að unnið er að annars konar samgöngubótum með fullkomnari vegagerð til Vopnafjarðar. Það eru í sjálfu sér ekki rök því að komi aðrar samgöngur betri sem menn vilja leggja meiri áherslu á og að flugvellirnir leggist af sem aðalsamgönguæð til þessara staða er minnsta mál að fella þá út úr tölu flugvalla í grunnneti.

Ég tel, herra forseti, að samkvæmt þeirri skilgreiningu sem gildir um grunnet samgöngukerfisins, þar sem talað er um staði sem eru mikilvægir fyrir fiskveiðar, ferðamennsku, flutninga til og frá landinu, byggðir staðir, staðir sem eru í byggð og skipulagðar áætlunarferðir eru á og við viljum hafa svo, sé eðlilegt að þessir flugvellir, á Gjögri og á Vopnafirði, fari ásamt flugvellinum í Grímsey inn í tölu flugvalla í grunnneti. Þetta er þá sú brtt. sem ég legg hér fram, virðulegi forseti.

Ég geri mér grein fyrir því að þó að flugvöllur sé ekki í grunnneti geti hann jafnt fyrir því notið alveg fullkominnar þjónustu. Engu að síður er þetta ákveðið stöðutákn, ákveðin trygging fyrir því að á meðan flugvöllur er í grunnneti sé líka staðið við skipulegar áætlunarferðir til hans.

Mér finnst það eiga að vera bara góð og örugg skilaboð frá hinu háa Alþingi gagnvart þessum byggðum sem þarna eiga hlut að máli að þetta liggi alveg klárt fyrir. Við vitum með Árneshrepp að þar er ekki fast vegasamband og vegurinn norður í Árneshrepp er ekki einu sinni í tölu hinna eiginlegu þjóðvega, heldur er hann fjármagnaður sem hluti af ferðamannaleiðum og er ekki í heilsársnotkun. Ég hefði reyndar talið að setja ætti stóraukið fé til þess að styrkja veginn norður í Árneshrepp og gera það myndarlega, en það er annað mál.

Virðulegi forseti. Ég kom hingað fyrst og fremst til þess að mæla fyrir þeirri brtt. að flugvöllurinn á Gjögri og flugvöllurinn á Vopnafirði verði hluti af flugvöllum í grunnneti.