Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 15:27:10 (4739)

2003-03-11 15:27:10# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, GAK
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[15:27]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við ræðum hér tvær þáltill. um samgönguáætlanir, annars vegar frá 2003--2006 og hins vegar frá 2003--2014. Í upphafi máls er sjálfsagt að geta þess að ég tel að þau vinnubrögð sem tekin hafa verið upp, að horfa lengra inn í framtíðina í heildstæðri samgönguáætlun, séu til bóta. Það hefur reyndar áður komið fram í máli mínu og fjölda annarra þingmanna að menn eru almennt sáttir við að þannig sé staðið að málum.

Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði varðandi verkefni í samgöngumálum. Almennt hafa hins vegar landshlutar eins og Vestfirðir og norðausturhornið setið svolítið eftir í vegaframkvæmdum á undanförnum árum. Í þeim fjórðungum er mikið óunnið, ekki aðeins að þar hafi ekki verið unnið að vegaframkvæmdum heldur er mikið óunnið á þessum svæðum við að koma vegagerðinni í það stand sem við teljum í samræmi við nútímakröfur, um samgönguöryggi og ástand vegakerfisins. Það er auðvitað hægt að fara um það mörgum orðum en ég vil eingöngu segja, varðandi mitt gamla kjördæmi, Vestfirðina, að þar er unnið að því að lagfæra ákveðna vegakafla, t.d. á Barðaströnd á Kletthálsi. Það er unnið að því að koma suðurhluta Vestfjarða í varanlegt akvegasamband við þjóðvegi landsins. Mönnum hefur auðvitað fundist það ganga hægt á undanförnum árum en vissulega er verið að gera þar átak.

Ég vil hins vegar láta það koma skýrt fram, varðandi þá vegarlagningu og fyrirhuguð vegstæði sem gert er ráð fyrir á veginum frá Kollafirði og austur um að Bjarkarlundi, að ég er eindregið þeirrar skoðunar að fara eigi fyrir utan firðina, yfir Djúpafjörð og Gufufjörð og síðan yfir Þorskafjörð og þar sé framtíðarvegstæðið.

[15:30]

Ég tek undir það sem komið hefur fram frá sveitarstjórnum á sunnanverðum Vestfjörðum um legu vegarins og hvaða áfanga þar eigi að gera. Ég tel rétt og eðlilegt að horfa til þess að stytta vegalengdir í markverðum áföngum. Ég hef stundum sagt að ég teldi betra að keyra á mölinni í eitt eða tvö ár, jafnvel þrjú ár, til þess að fá þá betri framtíðarlausnir en að gera sérstakar lagfæringar á vegarköflum sem við höfum keyrt eftir áratugum saman og sitja svo kannski eftir með þá kafla í framkvæmdunum sem gætu stytt leiðirnar. Ég er t.d. að víkja í þessu máli mínu að Þorskafirði. Ég hefði talið eðlilegt að menn horfðu til þess að þvera Þorskafjörðinn, tækju þann áfanga og löguðu þá aðkomuna upp á Ódrjúgsháls til að þar væri eðlilega akfært. Við það að fara yfir fjörðinn stytta menn bara strax vegalengdina um tæpa 10 km. Menn væru þá að horfa til þess að það væri einn hluti af framtíðarvegarlagningu á þessu svæði, sem ég tel að eigi að liggja með sjónum og fyrir firðina og yfir á Melanes. Ég vildi láta þessa sérstaklega getið vegna þess að ég hef ævinlega verið þeirrar skoðunar og hef lýst því í sérstakri þáltill. sem ég flutti fyrir þremur árum um hugsanlega vegarlagningu á þessu svæði og reyndar samtengingu úr Djúpi um Kollafjarðarheiði yfir á Barðaströndina sem ég tel að sé mjög athugandi möguleiki. Sú hugmynd byggðist auðvitað á því á sínum tíma að menn færu ekki yfir Kletthálsinn heldur sameinuðu þær áætlanir í einni jarðgangaáætlun. Menn færu þá undir Kletthálsinn. Nú liggur það hins vegar fyrir að verið er að vinna á Kletthálsi og leggja þar varanlegan veg. Auðvitað munum við búa að honum um einhverja áratugi og við gerum ekki tvennt í einu, að fara fyrst með nýja vegarlagningu yfir fjöllin og fara svo í gegnum þau nokkrum árum síðar. Það var einmitt þess vegna sem ég benti á þetta á sínum tíma, að það væri eðlilegt að skoða þetta með því hugarfari hvernig framtíðin ætti að líta út í þessum efnum.

Ég er enn á þeirri skoðun, herra forseti, að það geti verið mjög arðsöm framkvæmd til framtíðar litið að búa til veg úr Djúpi, úr Múladal og yfir í Fjarðarhólsdal í Kollafirði, ég tala nú ekki um ef menn færu undir Kollafjarðarheiðina og notuðu dalverpin á móti eins og hægt væri. En það er auðvitað framtíðarmúsík sem er lengra inni í framtíðinni því að það næsta sem við gerum í jarðgöngum á Vestfjörðum er að komast úr Dýrafirði yfir í Arnarfjörð. Þá þarf auðvitað að huga sérstaklega að því að þegar sá áfangi verður tekinn komum við ekki í flöskuháls þar, heldur getum við komist áfram yfir Dynjandisheiðina. Það þarf þá jafnframt að huga að því hvaða breytingar menn ætla að gera á Dynjandisheiði svo hún verði vetrarathvarf þegar slík samgöngubót um jarðgöng úr Dýrafirði yfir í Arnarfjörð verður komin. Þetta vildi ég sagt hafa um suðurhluta Vestfjarðanna og samtenginguna á milli byggða á Vestfjörðum.

Síðan hef ég lengi verið þeirrar skoðunar og dreg ekki neina dul á hana að ég teldi að menn ættu að skoða styttingu vegalengda þegar verið er að tala um vegi inni í Djúpi, frá Ísafirði inn Djúp og inn á þjóðveg eitt. Þar eru auðvitað ákveðnir möguleikar til staðar, eins og þverun Hestfjarðar. Það vill svo til að malarvegurinn í Hestfirði er sennilega einhver besti malarvegur sem á Vestfjörðum er, og þess vegna hefði ég gjarnan viljað að það hefði verið skoðað í alvöru, annars vegar að meta það að þvera Hestfjörðinn utarlega og stytta þar vegalengdir og hins vegar að skoða hvernig aðrir kostir byðust í styttingu vegarins. Ég tel að við eigum að raða þessu svolítið niður fyrir framan okkur hvað er hagkvæmast og í hvaða röð verkefnin geta orðið. Það hefur hins vegar orðið að ráði að taka núna fyrir það flýtifé sem ríkisstjórnin lagði fram til að gera sérstakt átak í vegamálum og reyndar í öðrum málum einnig, eins og í menningarhúsum og 0,7 milljarða til Byggðastofnunar og til byggðamála. Það verði þá sérstaklega farið í flýtiframkvæmdir á Barðaströnd, í Djúpi og einnig á Ströndum. Ég held að þingmenn hafi náð saman um þær áherslur eins og reyndar hefur ævinlega verið, þingmenn hafa auðvitað staðið saman í því hvernig standa eigi að þessum áföngum. Það breytir auðvitað ekki því að þingmenn geta haft mismunandi framtíðarsýn á það hvernig þetta landslag eigi að líta út þegar þessum stærri verkefnum á Vestfjörðum lýkur.

Nú hef ég staldrað nokkuð við það sem mér finnst um þessa fyrirhuguðu vegarlagningu og vegstæði á Vestfjörðum og ætla ekki að fara lengra yfir það. Það væri hægt að halda um það langt mál og tala um margar fleiri framkvæmdir sem eru í Norðvesturkjördæminu og reyndar líka á Norðausturlandi en það eru þau svæði hér á landi sem mér finnst hafa setið lengst eftir í gerð varanlegra og nýrra vega.

Það var aðeins rætt fyrr í dag um það hvort æskilegt væri að taka einstakar vegaframkvæmdir og greiða þær niður með veggjöldum eða vegtollum. Ég er á þeirri skoðun, herra forseti, að þar sem menn eiga tvo valkosti, tvo þokkalega góða valkosti, til umferðar megi vissulega huga að því að flýta framkvæmdum með því að menn greiði eitthvað fyrir að nýta þær. Þannig var auðvitað farið í göngin undir Hvalfjörð sem er einhver mesta vegarbót sem gerð hefur verið hér á landi á undanförnum árum og nýtist öllum landsmönnum þótt hún skipti e.t.v. þá sem búa norðan Hvalfjarðar mestu máli og þeir noti þau mest allra, þ.e. byggðirnar á Akranesi, upp í Borgarfjörð og Vestlendingarnir. Samt eru Hvalfjarðargöngin bara þjóðvegur landsins og allir landsmenn njóta þeirra og allir greiða auðvitað fyrir að fara þar um en af sjálfu leiðir að þeir sem næst búa fara þar oftast og greiða þar af leiðandi mest.

Sama kæmi auðvitað upp ef farið væri í það að gera göng undir Vaðlaheiði og við losnuðum við veginn um Víkurskarð. Að vísu væru tvær akstursleiðir eftir. Víkurskarð er iðulega ófært að vetrarlagi þegar tíðarfar er erfitt, ekki endilega miðað við það tíðarfar sem verið hefur á landinu bláa þennan veturinn, en ég held að við getum ekki búist við því, Íslendingar, að við fáum ekki aftur erfiða vetur. Þeir munu sjálfsagt koma þótt vonandi búum við í einhver ár við hlýindakafla. Ég held að einmitt vegagerð undir Vaðlaheiði gæti verið verkefni sem framkvæmt yrði öðruvísi en með fjármunum sem ætlaðir eru til vegagerðar og þar greiddu menn þá fyrir að nýta sér þann veg, enda um tvær leiðir að ræða. Því yrði auðvitað ekki að heilsa í sumum tilvikum, samanber dæmið sem ég tók úr Dýrafirði yfir í Arnarfjörð. Það samgöngusvæði verður aldrei opnað svo að vel sé með því að hafa annað val yfir fjöllin. Hrafnseyrarheiði verður alltaf mikill farartálmi eins og vegurinn er þar og þótt hann yrði lagfærður í þeirri hæð sem hann er yrði hann áfram farartálmi og ekki valkostur. Menn þurfa að gera greinarmun þarna á milli þegar verið er að tala um einkaframkvæmd og veggjöld annars vegar og hins vegar framkvæmdir sem eru hluti af uppbyggingu nýs vegakerfis og í raun og veru lausnir sem beðið hefur verið eftir í mörg ár. Það sjáum við auðvitað, Vestfirðingar, og þökkum fyrir að hafa fengið að njóta Vestfjarðaganganna sem hafa tengt saman byggðirnar á norðanverðum Vestfjörðum og í raun og veru gjörbreytt mannlífi þar, samgöngum fólks og samgangi innan svæðisins. Ég get látið þess getið að ég er á þeirri skoðun að ef göngin á norðanverðum Vestfjörðum hefðu komið 10--15 árum fyrr væri sennilega talsvert öðruvísi umhorfs á norðanverðum Vestfjörðum, menn hefðu kannski haldið betur á spilunum þar og betur á vopnum sínum í atvinnulífinu þó að auðvitað sé alltaf erfitt að fullyrða um ef-in í þessu sambandi. Það er þó margt sem gæti bent til þess.

Herra forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson ræddi um það að eðlilegt væri að fjármunir kæmu inn í áætlanir og menn ræddu þær og hefðu tíma til þess að velja sér þau verkefni sem best gætu nýst landsmönnum sameiginlega. Út af fyrir sig er það sjónarmið alveg rökrétt sem og það sem hv. þm. benti á, að ríkisstjórnin væri að bera á sig potta í ýmsum myndum, hálfgerða kosningapotta. Ég hygg að dálítið sé til í því og það megi færa fyrir því ákveðin rök eins og þingmaðurinn gerði. Við sjáum t.d. þennan pott sem kom í vegamálin, það kom einn milljarður í menningarhúsin og 0,7 milljarðar komu til byggðamála. Það eru þá menntmrh., byggðamálaráðherrann og samgrh. sem geta kynnt sig með því að þau hafi lagt þetta til og átt drjúgan þátt í því að þetta fé kom. Síðan sitjum við með tvö mál sem við eigum eftir að ræða og þau skiptast á milli sjútvrh. og landbrh. sem báðir eru að bera á sig áætlanir um það hvernig eigi að útdeila fé á næstu árum, áætlanir 2004--2008 í verkefnum sjútvrh. um það að stofna sérstakan sjóð sem údeili frá 200 og upp í 400 millj. á ári næstu fimm árin, samtals 1,5 milljörðum. Síðan er áætlun landbrh. um skógrækt, annars vegar um landshlutabundin skógræktarverkefni upp á 2,5 milljarða á árunum 2004--2008 og hins vegar Skógrækt ríkisins upp á 1,2 milljarða. Samanlagt er auðvitað verið að útdeila þó nokkru fé sem ráðherrarnir vissulega skreyta sig með fyrir kosningar og munu auðvitað tjalda í kosningabaráttunni. Það fer ekkert á milli mála að auðvitað eru menn að búa sig undir kosningabaráttuna með því að koma með þessi mál inn á þingið rétt fyrir kosningar og setja þau í þann búning að þetta hafi verið kraftaverk þeirra einna, þetta sé jafnvel sérstaklega ríkisstjórninni að þakka og alveg sérstaklega þeim sjálfum, ráðherrunum.

Ég vil bara segja það um þessi verkefni almennt eins og ég hef ævinlega sagt úr þessum ræðustól: Mér er sama hvaðan gott kemur. Ef ráðherrarnir vilja njóta þess að baða sig í þeim geislum að þeir hafi haft sérstaka forgöngu um það að koma hér með aukið fé segi ég bara sem þegn í þessu landi: Takk fyrir. Prýðilegt ef menn koma með aukið fé og setja það í það sem við teljum eðlileg og sjálfsögð verkefni, verkefni sem við munum búa að um langa framtíð. Menn geta hins vegar deilt um það, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson vék hér að, hvernig þetta ber að og hvort af þessu sé kosningalykt. Ég segi eins og áður: Frjálslyndi flokkurinn hefur ævinlega tekið þá afstöðu að styðja góð mál, hvaðan sem þau koma, hvort sem þau koma frá stjórn eða stjórnarandstöðu, og við gerum það enn og munum halda þeirri afstöðu okkar.

Þess vegna vil ég bara ljúka þessari ræðu minni á því að segja að ég vona að þess sem við erum að leggja hér til í sambandi við samgönguáætlun muni allir landsmenn njóta, hvar í flokki sem þeir standa og hvar sem þeir búa.