Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 15:46:11 (4740)

2003-03-11 15:46:11# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[15:46]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil koma inn í þessa umræðu með nokkrum orðum því að hér er stór hluti af okkar vinnu í raun, þ.e. það sem snýr að okkur þingmönnum eru samgöngumálin. Sá málaflokkur skiptir íbúa landsins miklu máli og það er eðlilegt. Það er sama hvar menn búa, ef ekki eru þær áhyggjur að það vanti vegi og betra vegasamband eru áhyggjurnar af öðru, t.d. að umferðin sé orðin of mikil og of þung og þess vegna aukin slysahætta. Alls staðar hvíla þessi mál á fólki og það hefur viljað ræða samgöngumálin við okkur. Þess vegna langar mig til þess að koma inn í þessa umræðu núna.

Hvað varðar samgönguáætlun út af fyrir sig aðhyllist ég þessi vinnubrögð. Það er okkur til sóma að hafa samræmda samgönguáætlun til lengri tíma þannig að hægt sé að stilla saman hafnarframkvæmdum, vegaframkvæmdum, flugáætlunum og uppbyggingu flugvalla þannig að þetta myndi eina heild og eitt net. Það er til bóta og síðan er bara að vinna úr því. Auðvitað eru ekki allir sáttir við hlutskipti sitt í þessari áætlun en við höfum þó sýn til framtíðar og það er það sem skiptir máli.

Herra forseti. Þrátt fyrir að það hafi komið umtalsvert fjármagn inn í vegaframkvæmdir nú á vordögum eru enn stór svæði sem ekki eru í nægilega góðu vegasambandi, t.d. Vestfirðirnir, norðausturhornið og hluti af Austfjörðunum. Á þessum svæðum eigum við stór verkefni eftir. Við sjáum orðið fram á nokkuð góða tengingu eftir þetta viðbótarfjármagn inn á norðausturhornið og eins tengingu niður í Vopnafjörð þó að þangað sé aðeins lengra. Hitt er aftur annað mál að hvað varðar þessa heildarsýn er ekki nægilegt að velja núna framtíðarveg frá hringvegi og niður í Vopnafjörð heldur verður að horfa strax á næsta skref sem þarf að taka og það eru þá jarðgöng sem eru inni á jarðgangaáætlun með fjármagn til rannsókna á seinni hluta jarðgangaáætlunar. Við þurfum að horfa á þetta í einni heild og ekki láta staðar numið við að gera þennan veg. Það er mikilvægt að horfa á þennan hluta landsins sem eitt atvinnusvæði. Möguleikar svæðisins felast í því að styrkja það sem eitt atvinnusvæði, og með þeirri ákvörðun að koma niður álveri á Reyðarfjörð er enn mikilvægara að halda við þá áætlun að gera jarðgöng undir Hellisheiði og tengja þannig ekki bara Vopnafjörð heldur norðausturhlutann inn á þetta athafnasvæði. Það hillir núna undir að hægt verði að hefja framkvæmdir við jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar og það er vel því að það eru göng sem við hefðum samkvæmt öllum eðlilegum framkvæmdahraða átt að vera byrjuð á fyrir þó nokkru. En það eru þessar tengingar sem við lítum á sem heils árs tengingar og stofnbrautir og síðan tengingar milli svæða sem geta verið sumarvegir eða tengivegir. Ég vil bara nefna það, herra forseti, að leiðin frá Héraði og niður í Berufjörð, þ.e. yfir Öxi, er þessu svæði mjög mikilvæg. Þótt þarna sé verið að gera jarðgöng og þótt verið sé að byggja upp veginn frá Breiðdal, inn á Breiðdalsheiði, verður þessi leið mikilvæg og sérstaklega yfir sumartímann. Umferð á þessari leið hefur stóraukist og þó að við lítum ekki í dag á veginn yfir Öxi sem heilsársveg er mikilvægt að halda áfram að byggja hann upp og gera hann að betri sumarvegi en hann er í dag. Til þess þarf fjármagn og ég tel að við eigum að íhuga það verulega að halda áfram að laga þennan veg yfir Öxi.

Það er önnur tenging líka inn á þetta svæði sem við höfum ekki náð að setja inn í þessa samgönguáætlun. Það er að klára veginn inn Skriðdalinn og fjarlægja þær einbreiðu brýr sem þar eru, stórhættulegar. Ég held að menn séu allir sáttir við það að vegurinn yfir sjálfa heiðina verði ekki gerður að upphækkuðum vegi umfram það sem núna er en það er mikilvægt að horfa á þessa heildartengingu, ekki aðeins um Breiðdalinn heldur verður að taka svo Skriðdalinn hið allra fyrsta. Þá er ég sérstaklega líka að horfa á það út frá slysahættu.

Það væri til að æra óstöðugan að nefna alla þá staði sem hafa ekki komist að í þeirri áætlun sem núna hefur verið unnin en ég tel að þingmenn hvers kjördæmis hafi lagt sig fram við að ná sem mestu úr því fjármagni sem lagt hefur verið til samgönguáætlunarinnar. Vissulega er sárt að sjá og vita af því að það eru vegir eins og vegurinn út Jökulsárhlíðina og vegurinn niður í Borgarfjörð eystri, ef ég tek þá bara sem dæmi, sem verða út undan samkvæmt þessari áætlun en svona er það. Ég hvet næstkomandi stjórn til að halda áfram að leggja myndarlegt framlag til vegagerðar því að enn þá eru stórir kaflar eftir og það hættulegir, t.d. allar skriðurnar fyrir austan, ef ég held mig bara við mitt kjördæmi, sem kostar stórfé að fara í og klára og er ekki áætlað fjármagn á þessari samgöngu- og vegáætlun.

Herra forseti. Þetta er ekki hægt að taka með áhlaupi. Við erum með þannig vegakerfi að það er dýrt og sérstaklega þessir staðir sem út undan hafa verið. Þeir hafa verið það vegna þess að þeir voru dýrir og annað hefur setið fyrir þar sem fjölmenni hefur verið meira en þar er áfram verk að vinna. Ég hvet þá ríkisstjórn sem hér mun sitja, sem við vitum ekki í dag hver verður en margir vona að verði önnur en sú sem er í dag, til að halda áfram að leggja kapp á að bæta samgöngur í landinu.