Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 15:55:14 (4741)

2003-03-11 15:55:14# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[15:55]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu þakka hv. samgn. fyrir góða vinnu við að fara yfir þær till. til þál. sem hér eru til umfjöllunar, annars vegar áætlun til fjögurra ára og hins vegar til 12 ára. Ég verð að viðurkenna að ég er mjög ánægður með þau viðbrögð sem tillögurnar hafa fengið og þær jákvæðu umsagnir sem samgönguáætlunin hefur fengið hjá þingmönnum, hvort sem um er að ræða stjórnarsinna eða stjórnarandstæðinga. Það segir mér að vel hafi verið að þessu verki staðið, bæði hvað varðar undirbúninginn, lagasetninguna á sínum tíma þar sem lög voru sett um samgönguáætlun, samræmda áætlun allra samgönguþátta, vinnuna við undirbúninginn, þ.e. í samgönguráði og stofnunum ráðuneytisins við að leggja upp tillögurnar, og síðan í þinginu. Ég tel að vinna samgn. sé til fyrirmyndar og fyrir það vil ég þakka alveg sérstaklega.

Hér hafa verið lagðar fram brtt. samgn. sem byggja á mjög mikilli vinnu, bæði í Siglingastofnun, Flugmálastofnun og Vegagerðinni. Í þeirri vinnu er að sjálfsögðu mikið samráð haft við þingmenn kjördæmanna, og sérstaklega á það við um skiptingu vegafjár. Þingmenn kjördæmanna koma mjög mikið að því verki í samstarfi við Vegagerðina og virðist vera nokkuð víðtæk sátt um þær tillögur sem hér eru til afgreiðslu, og er það ánægjulegt.

Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram í dag vil ég koma inn á nokkur atriði. Vegna þess að nokkuð hefur verið rætt um öryggismál á vegum vil ég í fyrsta lagi nefna að þar er af mörgu að taka. Auðvitað eru bæði flugöryggismálin og öryggismál sjófarenda til meðferðar í samgönguáætluninni en öryggismál á þjóðvegum hafa verið nokkuð til umræðu. Af því tilefni vil ég minna á að í þessari samgönguáætlun er verið að leggja á ráðin um meiri framkvæmdir á vegakerfi landsins, bæði í þéttbýli og dreifbýli, en nokkru sinni áður hefur verið. Ég undirstrika að í hverri einustu framkvæmd á vegakerfinu er um að ræða endurbætur sem auka öryggi, eiga að draga úr slysum og munu leiða til þess að vegakerfið verður öruggara. Nánast allar framkvæmdir eru umferðaröryggisaðgerðir.

Við getum farið á hraðferð í kringum landið og minnt á nokkur stórvirki á höfuðborgarsvæðinu. Í gær var verið að opna tilboð í mislæg gatnamót við Stekkjarbakka. Á síðasta ári var lokið við framkvæmdir við mislæg gatnamót, bæði á Vesturlandsvegi við Víkurveg og sömuleiðis í Mjóddinni á Reykjanesbrautinni, við Breiðholtsbraut. Þetta eru mjög mikilvægar umferðaröryggisaðgerðir og samkvæmt samgönguáætluninni er gert ráð fyrir að á þessu ári verði hafist handa við breikkun Vesturlandsvegarins og á fjögurra ára áætlun er gert ráð fyrir mislægum gatnamótum við Suðurlandsveg og Nesbraut eða Vesturlandsveginn og breikkun Reykjanesbrautar úr Reykjavík í gegnum Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð, og áfram Reykjanesbrautina suður eftir til Keflavíkur. Þetta eru geysilega mikilvægar aðgerðir á sviði umferðaröryggismála og ég vil nefna það alveg sérstaklega.

[16:00]

Ef farið er vestur um land eru stórframkvæmdir þar sem ástæða er til að minna á. Við höfum verið að vinna að fækkun einbreiðra brúa og náð mjög miklum og stórum áföngum í því, bæði á hringveginum og öðrum vegum. Opnuð voru tilboð í framkvæmdir við veginn um Kolgrafarfjörð á Snæfellsnesi í gær. Í Kolgrafarfirði er um að ræða vegkafla sem hefur sýnt sig vera mjög hættulega leið, bæði vegna erfiðra veðuraðstæðna og vegna þess að aðstæður eru almennt þannig. Þær framkvæmdir munu bæta mjög umferðaröryggið svo ekki sé talað um allar þær stórframkvæmdir sem verið er að undirbúa núna bæði á Vestfjarðavegi um Barðaströnd, í Djúpi og á Ströndum, norður um á Norðausturlandi, á norðausturhorninu. Allt eru þetta framkvæmdir sem munu segja til sín, jarðgöng á Austurlandi sem taka af vegi um stórhættuleg skriðusvæði og svo mætti lengi telja. Ég vil því bara minna á það að allar þessar framkvæmdir lúta að auknu umferðaröryggi og ég hvet menn til þess að hafa það ríkt í huga.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. kom talsvert inn á framkvæmdir á Akureyri, innan marka Akureyrarbæjar. Ég get alveg tekið undir það að við þurfum mjög rækilega að hafa það í huga að leggja á ráðin um framkvæmdir víðar en á höfuðborgarsvæðinu innan sveitarfélagamarka og Akureyri er dæmi um það. Sem betur fer hefur tekist að vinna að framkvæmdum innan Akureyrarbæjar á síðustu árum sem skiptir mjög miklu máli. Það var eitt af mínum fyrstu verkum að opna þar brúarmannvirki og endurbætur á vegakerfinu innan Akureyrar í upphafi þessa kjörtímabils, og vissulega þarf að huga að slíku. Ég tel að við endurskoðun á vegáætluninni eftir tvö ár hljóti það að koma sterklega inn í myndina við þá endurskoðun og þá yrði það í höndum þingmanna Norðausturkjördæmisins að taka afstöðu til þeirra óska sem forsvarsmenn Akureyrarbæjar hafa sett fram um framkvæmdir innan þeirra bæjarmarka. En ég tel hins vegar að það hafi verið rétt mat hjá Vegagerðinni, þingmönnum kjördæmisins og samgn. að forgangsraða með þeim hætti sem tillögur gera ráð fyrir hér. En engu að síður tek ég undir með hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni að huga þarf að framkvæmdum á Akureyri.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson gerði mjög glögga grein fyrir því í ræðu sinni áðan að á Vestfjörðum er af mörgu að taka. Sérstaklega nefndi hann Vestfjarðaveginn, úr Þorskafirði í Kollafjörð. Í tillögum samgn. er gert ráð fyrir að það fjármagn sem kom til viðbótar og er til þess að flýta framkvæmdum verði nýtt m.a. á þeirri leið og þeim áformum er stillt þannig upp að þeir verði nýttir á næsta fjögurra ára tímabili til þess að vinna að endurbótum á Vestfjarðaveginum úr Þorskafirði í Kollafjörð. Ekki er tekin afstaða til þess hvaða leiðir verði farnar. Það er alveg ljóst að bæta verður Ódrjúgshálsinn, veginn þar um. En engu að síður þarf að leggja upp tillögur og leggja í umhverfismat og skoða þar fleiri en einn kost. Einn kosturinn er sá sem ég tel alveg einsýnt að farinn verði, þ.e. að fara yfir Þorskafjörðinn, fyrr en seinna og síðan er spurningin hvort fara eigi yfir hálsana annars vegar og þvera síðan firðina innanvert eða þá að fara út Þorskafjörðinn og í mynni Djúpafjarðar og yfir á Ströndina í átt til Kollafjarðar. Þetta eru kostir sem þarf að skoða. Þingmenn hafa fjallað ítarlega um þetta og ég tel að það sé alveg einsýnt að í umhverfismati þurfi að bera saman þessar leiðir og það er nægur tími til þess áður en kemur að frekari ákvörðunum. Fjármunirnir eru til staðar og það er aðalatriði málsins. Næsta verkefnið er síðan að Vegagerðin leggi í undirbúning og undirbúi umhverfismatsskoðun og síðan verði teknar frekari ákvarðanir um þessar veglínur. Þetta vildi ég segja að gefnu tilefni vegna ágætrar ræðu og athugasemda hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar.

Að lokum vil ég, herra forseti, vegna þess sem kom fram fyrr í ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar fara nokkrum orðum um samgöngur við Vestmannaeyjar. Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum að mjög mikilvægt er að við tryggjum sem best samgöngur til Eyja. Þess vegna var það að ég skipaði starfshóp til þess að fara ofan í og gera tillögur um úrbætur í samgöngumálum Vestmannaeyja. Þessi hópur skilaði mér áfangaskýrslu og í framhaldi af því var ferðum Herjólfs fjölgað. Við höfum fjölgað ferðum Herjólfs milli lands og Eyja um 30% á skömmum tíma, sem skiptir auðvitað mjög miklu máli og er til mikilla bóta. En þessi samgönguhópur hefur nú lokið störfum og ég mun á næstu dögum kynna þær tillögur sérstaklega sem þessi hópur hefur lagt fram sem eru að mínu mati bæði vel unnar og stórmerkilegar tillögur. Hópurinn hefur skoðað marga kosti bæði hvað varðar siglingar og flug og vekur athygli á þeim möguleika sem áður hefur verið til skoðunar sem eru jarðgöng. Ég tel að þessar tillögur séu mjög vandlega unnar og þess vegna er ég að láta fara yfir þær skýrslur sem nú þegar liggja fyrir og þegar ég hef fengið í hendurnar endanlega greinargerð frá nefndinni, þá mun ég kynna hana og þingmenn munu væntanlega fá hana í hendur.

En það sem ég vil nefna fyrst og ég nefndi við 1. umr. þessara tillagna eru hugmyndir um ferjulægi á Bakkafjöru. Ég tel að miðað við þær rannsóknir sem nú þegar hafa farið fram þar og vinnu sérfræðinga Siglingastofnunar, þá sé það mjög líklegur kostur. Ég tel að það væri mjög mikilvægt fyrir Vestmannaeyjar ef sú niðurstaða gæti orðið að hægt væri að byggja upp nýja höfn á Bakkafjöru og stytta þar siglingaleiðina.

Samkvæmt úttekt sérfræðinga Siglingastofnunar má búast við því að fljótlega á árinu 2005 liggi fyrir endanlegar rannsóknir en nú þegar eru rannsóknir það lagt komnar að talið er mjög líklegt að það sé raunhæfur kostur að byggja upp hafnaraðstöðu fyrir ferju á Bakkafjöru. Þessar hugmyndir gætu leitt til þess að siglingaleiðin eins og ég sagði fyrr mundi styttast mjög mikið og það skiptir afar miklu máli. Hugmyndir um ferjulægi á Bakkafjöru munu verða kynntar alveg á næstunni. Í sambandi við þær rannsóknir og rannsóknir vegna hugmynda um jarðgöng, þá er mikilvægt að jarðvísindamennirnir fái stuðning við það og fyrir liggur að bandarískir jarðvísindamenn í samstarfi við íslenska jarðvísindamenn eru að skoða þessi mál. Fyrirhugaðar eru rannsóknir á þessu ári og tryggja þarf fjármuni til þess að þær rannsóknir geti farið fram. Þegar áætlanir og tillögur liggja fyrir um það er nauðsynlegt að tekið verði á því máli og ég mun beita mér fyrir því á næstunni.

Ég nefndi áðan hugmyndir um jarðgöng. Það er partur af tillögum og hugmyndum nefndarmanna sem fjallað er um í skýrslu þeirra og huga þarf að slíku.

Í samgönguáætluninni eru gerðar tillögur um endurbætur á Bakkaflugvelli sem skiptir mjög miklu máli. Aðstaðan á Bakkaflugvelli er mikilvæg fyrir Eyjaflugið en það sem er jafnframt mjög mikilvægt er það að innanlandsflugið hefur verið að styrkjast, aðstaðan í Reykjavík að batna og þar af leiðandi ættu flugfélögin sem sinna Vestmannaeyjum að geta byggt upp enn öflugri og betri þjónustu fyrir bragðið í flugi til Vestmannaeyja.

Herra forseti. Ég vildi nefna þetta alveg sérstaklega. Það er ljóst að óskir heimamanna í Vestmanneyjum standa til þess að fjölga ferðum Herjólfs enn frekar og þá að ferðum verði fjölgað í desembermánuði. Ég tel eðlilegt að taka það mál upp í haust við afgreiðslu fjárlaga og fjáraukalaga hvernig á því verði tekið. En þessi 30% fjölgun ferða Herjólfs og sú aukna þjónusta sem fylgir því er að mínu mati afar mikilvæg og starfshópurinn mun hafa fjallað mjög rækilega um þann þátt þannig að ég vísa til þess að það verði kynnt áður en langt um líður.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég endurtek þakkir til hv. þm. í samgn. fyrir vandaða vinnu og vænti þess að samgönguáætlunin megi verða til þess að auka hagsæld í landinu miðað við þær stórfelldu framkvæmdir á öllum sviðum samgönguþátta sem samgönguáætlunin gerði ráð fyrir.