Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 16:12:50 (4742)

2003-03-11 16:12:50# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[16:12]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því ef svo horfir að hægt verði að útbúa höfn á Bakkafjöru eða á öðru svæði nálægt Vestmannaeyjum þannig að auðveldlega megi í framtíðinni hafa örar og góðar ferjusiglingar milli lands og Eyja. Ég hef reyndar lengi verið á þeirri skoðun og hef tjáð það áður úr þessum ræðustól á hv. Alþingi að það væri kostur sem menn ættu að skoða mjög gaumgæfilega, að búa þar til höfn og hef auðvitað byggt það á því sem maður hefur séð úti í heimi. Ég hef séð það úti í Japan hvernig Japanar hafi brotið niður úthafsöldu með tveimur, þremur görðum sem eingöngu eru ætlaðir til að brjóta niður ölduna á tiltölulega sendinni strönd og eru svo með hafnaraðstæður þar fyrir innan. Ég vildi láta þessa getið hér. Ég tel að það sé mikið spor í rétta átt ef þetta tekst.

Annað sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um er að nú hagar svo til á landi hér að við búum við mjög blíðan vetur, lítinn snjómokstur. Og ég vildi spyrja að því hvort ráðherrann gæti ekki hugsað sér að beita sér fyrir því gagnvart Vegagerðinni að það fé sem hefur sparast á þessum blíða vetri okkar mætti nota í auknum mæli til þess að vinna á slysastöðum eins og einbreiðum brúm. Víða á þjóðvegum landsins, ég þekki reyndar best til á Vestfjörðum, eru enn þá einbreiðar brýr, kannski ekki mjög langar en einbreiðar samt og eru hættulegir staðir. Þetta á víða við á Vestfjörðum veit ég og hef séð. Ég vildi því sérstaklega spyrja hvort ekki væri hægt að gera enn meira átak í þeim málum með því að nýta það fé sem náttúran hefur sparað okkur.