Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 17:01:12 (4751)

2003-03-11 17:01:12# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, Frsm. meiri hluta GHall
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[17:01]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Í dag hafa farið fram góðar umræður um þennan stóra og mikilvæga málaflokk sem allir alþingismenn eru sammála um að skipti miklu fyrir byggð í landinu.

Í upphafi er vert að skoða að á þessu áætlunartímabili frá 2003--2014, sem skipt er í þrjú tímabil, eru 80 milljarðar ætlaðir á hverju tímabili til vegaframkvæmda, samtals 240 milljarðar sem er engin smáupphæð. Það er einnig rétt og nauðsynlegt að vekja athygli á því að hvergi annars staðar í Evrópu eru ríkisstjórnir að veita jafnmikið fjármagn til samgöngumála og við Íslendingar nú. Það er líka athyglisvert, af því að hér hefur verið vitnað til erinda sem bárust samgn. og til nokkurra aðila sem senda inn umsagnir um þetta mikilvæga mál og tjá sig um ágæti þessa máls. Ég tók t.d. eftir því að allir þingmenn sem hér töluðu í dag voru á einu máli um að þetta væri hið besta mál, þ.e. samræmd samgönguáætlun vega, hafna og flugvalla.

Í áliti Umferðarstofu segir, með leyfi forseta:

,,Góðir vegir eru meðal grundvallarþátta til að skapa umferðaröryggi. Þess vegna er fagnaðarefni hversu vel og markvisst hefur verið unnið á undanförnum árum að því að afla upplýsinga um veður og akstursskilyrði á vegakerfinu. Það er grundvallaratriði til að hægt sé að koma áreiðanlegum skilaboðum til vegfarenda, sem væntanlega leiðir af sér öruggari og betri umferð.

Ástæða er til að fagna þeim viðhorfum sem felast í tillögunni, að markmið stefnumörkunarinnar sé að gera samgöngur eins hraðar og kostur er, en að öryggi sé alltaf haft að leiðarljósi. Einnig telur Umferðarstofa ástæðu til að fagna áherslum á rannsóknir sem leiða til enn frekara öryggis á næstu árum.``

Og Byggðastofnun segir:

,,Byggðastofnun telur mikilvægt að samgönguáætlun stuðli að því að efla búsetuskilyrði og styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins á landsbyggðinni, svo sem kveðið er á um í þingsályktun um stefnu í byggðamálum 2002--2005 og athugasemdum við hana. Byggðastofnun telur tillögu að samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014 í meginatriðum uppfylla þessi markmið, og bendir sérstaklega á mikilvægi markmiða um greiðari samgöngur og markmið um öryggi í samgöngum.``

Herra forseti. Margir þingmenn hafa rætt um þessi mál, m.a. hv. þm. Jón Bjarnason. Hann kom m.a. inn á að eðlilegt væri að stytta leiðir en vildi þó geta þess sérstaklega að byggðir ættu ekki að bíða tjón af því, t.d. ef stytting leiða leiddi til að þjóðvegi yrði breytt og viðkomandi byggðarlag lægi ekki að þjóðveginum. Við vitum alveg hvaða byggðarlag þingmaðurinn á við. Vandinn er bara að það verður mjög erfitt að stytta leiðir, t.d. Akureyri -- Reykjavík, öðruvísi en að það komi niður á öðrum byggðarlögum. Það er okkur öllum ljóst. Þingmönnum hlýtur líka að vera ljóst að nútíminn gerir kröfu til þessa --- eins og gert er ráð fyrir í samgönguáætlun --- að það taki þrjár og hálfa klukkustund fyrir fólk í hinni dreifðu byggð að komast til höfuðborgarinnar sem og frá höfuðborginni til hinna dreifðu byggða.

Verður ekki að stytta leiðir milli byggðarlaga, tökum t.d. til Norðurlands, líka ef horft er til Austurlands, til Egilsstaða og fleiri staða og að sjálfsögðu Vestfjarða? Við stöndum frammi fyrir því að gera þarf bragarbót á og það er alveg ljóst að einhverjar byggðir munu gjalda þess. Það er þá mál sem bregðast þarf við, ekki sem vanda heldur sem úrlausnarverkefni.

Hér var komið inn á sjóflutningana. Ég get tekið undir að það er ákveðið vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Það er kannski tengt því sem ég var að segja áðan. Fólkið í hinum dreifðu byggðum vill fá matvörur mörgum dögum fyrir síðasta söludag. Það vill ekki að vörurnar komi í heimabyggð sína á síðasta söludegi. Á því er miklu meiri hætta ef sjóflutningar eru viðhafðir en ekki haldið áfram að þróa flutninga með bifreiðum eins og verið hefur.

Í samgönguáætlun eru sett fram áform um að skoða samkeppnisstöðu sjóflutninga gagnvart landflutningum og leitað leiða til þess að leiðrétta þann mun sé hann til staðar. Einnig hefur nokkur vinna farið fram á þessu sviði, einkum á vegum Hafnasambandsins. Fátt bendir þó til að þeirri þróun sem nú hefur staðið í um 10 ár verði snúið til baka í fyrirsjáanlegri framtíð. Spyrja mætti hvort einhver vilji í raun breytingar til eldra fyrirkomulags. Í dag er þjónustan við íbúa dreifbýlisins margfalt betri en áður var. Þetta er staðreynd sem blasir við.

Þá komum við að forgangi í áætluninni sem mikið hefur verið rætt um. Skipting fjár milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðarinnar er ákveðin þannig að tekinn er heildarkostnaður á báðum stöðum eins og hann var metinn í markmiðum fyrir höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina og bæði svæðin fengu hlutfallslega jafnmikið. Röðin er síðan ákveðin samkvæmt þeim áætlunum sem til eru, þ.e. langtímaáætlun í vegagerð, eldri vegáætlun og svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins.

Hv. þm. Jón Bjarnason sagði að hann teldi ekki nægjanlega komið inn á öryggisþáttinn í þessari samræmdu samgönguáætlun. Um hann er hins vegar getið í umsögn okkar sem stöndum að nál. meiri hluta nefndarinnar. Það er umhugsunarefni sem komið hefur fram hjá hv. þm. sem töluðu í dag að eðlilegt væri að skoða öryggismálin og hvort ekki sé eðlilegt að flytja þau til samgrn.

Komið var inn á reiðhjólafólk og umferð gangandi fólks. Það er rétt að það hefur ekki verðið hugað sem skyldi að þeirri umferð í samræmdri samgönguáætlun. Í þéttbýli hafa hins vegar í auknum mæli verið lagðir göngustígar. Þeir hafa jafnframt verið notaðir sem hjólreiðastígar. Nú er horft til lagningar Reykjanesbrautar og viðbótar sem þar verður. Þar verður hjólandi umferð haldið frá hraðbrautinni en umferð þeirra beint inn á eldri vegi sem fyrir eru og reynt að gera hlut hjólreiðamanna sæmilegan. Enda er líklega hvergi hjólað meira en á milli Reykjaness og Reykjavíkur, þ.e. yfir sumarmánuðina þegar flestir ferðamenn koma til landsins.

Við erum sammála um að endurskoða safnvegi og tengivegi. Hv. þm. Jón Bjarnason lýsti síðan yfir áhyggjum sínum af lækkun á framlögum til hafna og ræddi siglingar skipa og að strandferðir væru að leggjast niður. Í því sambandi er athyglisvert að skoða niðurstöður nefndar sem skilaði nýlega áliti um stöðu sjóflutninga gagnvart landflutningum. Í þeirra greinargerð kemur m.a. fram að það er 70% dýrara að flytja 40 feta gám landleiðina frá Vestfjörðum til Reykjavíkur á móti því sem væri ef þessi gámur væri fluttur sjóleiðina.

Það skipafélag sem eitt stundar enn strandferðir, þ.e. Eimskip, hefur lýst því yfir að sé ákveðinn gámafjöldi til staðar í höfnum þá muni þeir fara inn og sækja gámana. En getur verið að fiskvinnslan á mismunandi stöðum sé ekki samtaka um að keyra gáma til tiltekinnar hafnar og safna þeim þar til að skip komi inn og taki gámana og flytji þá á áfangastað, með það að leiðarljósi og þær upplýsingar að það sé 70% dýrara að flytja 40 feta gám landveg en sjóveg? Hvað kemur í veg fyrir að þessir gámar séu fluttir sjóleiðina? Getur verið að það sé andstaða á milli hafna eða byggðarlaga um að sameinast um einhverja eina ákveðna útflutningshöfn? Er það kannski vegna þess að þá fær viðkomandi höfn vörugjöld, skipagjöld o.s.frv.? Þetta er mjög áhugavert að skoða og þarf auðvitað að gera það. Hvernig stendur á því að menn fara þá leið að flytja gámana landleiðina í ljósi þessara staðreynda?

Hv. þm. Jón Bjarnason vék jafnframt að því að það væri mjög alvarlegt mál að ekki kæmi fram í þessari samræmdu samgönguáætlun neitt um millilandasiglingar. Það er rétt að við stöndum frammi fyrir ákveðnum vanda hvað flutninga áhrærir. Ég held að við séum öll sammála um að eyþjóð í Norður-Atlantshafi verður auðvitað að eiga kaupskipaflota til að vera sjálfri sér nóg ef eitthvað gerðist í heiminum þannig að erfitt yrði að fá skip til að flytja vörur til og frá landinu. Hins vegar hefur þróunin verið sú varðandi kaupskipaflotann að mikið hefur verið um svokallaða þurrleigu þar sem skipafélögin hafa notast við tilfallandi flutninga hverju sinni, ýmist notast við skip sem flytja minna magn eða meira magn, allt eftir þörfum markaðarins.

Hv. þm. kom inn á það sem við segjum í álitinu um samstarf við hafnarstjórnir úti á landi. Það var ekki gert að þessu sinni en mun verða tekið upp að nýju. Þar er ekki breyting á nema vegna þessa þreps sem hér er stigið í samgönguáætlun 2003--2014.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson kom eins og aðrir þingmenn inn á að hann væri ánægður með þessa samræmdu samgönguáætlun. Hann telur þó menn ekki nógu metnaðarfulla í samgöngumálum þar sem of litlum fjármunum, sé varið til þeirra. Ég vék að því í upphafi máls míns að á þessu tímabili 2013--2014 er hvorki meira né minna en 240 milljörðum varið til þessara framkvæmda. Þar er ekki um neina smáupphæð að ræða.

Þegar talað er um hvernig skipta skuli þessu fjármagni þannig að það nýtist sem best koma fram miklar kröfur. Meira er talið liggja á framkvæmdum í einu kjördæminu frekar en öðru. Þá er ekki alltaf litið á hagkvæmni framkvæmdanna, t.d. þegar spurt er: Hvers vegna er ekki sett lýsing á Hellisheiði? Nú er hins vegar búið að veita aukafjármagn til að bæta þar um, þ.e. með svokölluðum vegöxlum, þ.e. þungaflutningabílar munu þá ekki tefja umferð akandi upp í móti. Það er eitt af hinu góða sem fram undan er.

[17:15]

Varðandi samgöngumál til Vestmannaeyja vil ég benda á það sem hæstv. samgrh. kom inn á í sambandi við Bakkafjöru sem er mjög áhugavert. Ég er ánægður með að hafa staðið að flutningi þeirrar þáltill. um rannsóknir þar. Ég vona að því verði mjög hraðað. Við tökum öll undir það að samgöngum við Vestmannaeyjar sé komið í gott horf, ekki eingöngu vegna þess að við viljum efla flutningakerfið heldur fólksins vegna.

Í sambandi við það sem hér kemur varðandi þjóðvegi og flutninga t.d. til Grímseyjar og Vestmannaeyja þá er eðlilegt að stuðla að því að ekki sé stórkostlegur aukakostnaður af því fyrir íbúa eyjanna að búa þar, eða eins og segir í lögum nr. 71/2002, um samgönguáætlun, með leyfi forseta:

,,Í samgönguáætlun skal skilgreina það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna og gera skal grein fyrir ástandi og horfum í samgöngum í landinu. Jafnframt skal mörkuð stefna fyrir allar greinar samgangna næstu tólf ár. Þá skal í samgönguáætlun meta og taka tillit til þarfa ferðaþjónustunnar fyrir bættar samgöngur.

Í samgönguáætlun skal gera ráð fyrir eftirfarandi skilyrðum:

a. að ná fram samræmdri forgangsröð og stefnumótun,

b. að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla,

c. að ná fram víðtæku samspili samgöngumáta og samstarfi stofnana samgönguráðuneytisins.``

Menn ætla að leggja sig fram um að ná betri nýtingu, t.d. á fluginu. Það er hins vegar athyglisvert, af því að hv. þm. Jón Bjarnason kom inn á það og taldi eðlilegt að Gjögur og Vopnafjörður kæmi inn í grunnnetið, að flugmálastjóri kom á fund hv. samgn. og gerði grein fyrir grunnnetinu og hvaða þýðingu það hefði fyrir einstaka flugvelli, m.a. Vopnafjörð og Gjögur. Í máli hans kom fram að fjárhagslega muni það ekki hafa nein neikvæð áhrif á þessa tvo flugvelli að því er varðar viðhald og fjármagn til þessara flugvalla. Ég vona að hv. þm. minnist þessa.

Í samgönguáætlun segir, með leyfi forseta:

,,Um 85% allra farþega í innanlandsflugi fara um fimm flugvelli landsins, þ.e. Reykjavík, Akureyri, Egilsstaði, Ísafjörð og Vestmannaeyjar. Flestir þessara farþega eru á leið til eða frá Reykjavík, þótt einnig sé um að ræða farþega á flugleiðum innan svæða, þ.e. til og frá Akureyri og milli Vestmannaeyja og Bakka. Um 15% farþega fljúga á öðrum flugleiðum til og frá Reykjavík, einkum til Bíldudals, Sauðárkróks, Hornafjarðar og Gjögurs.``

Í þessari samgönguáætlun kemur síðan fram nokkuð sem hlýtur að vekja áhuga íbúa hinna dreifðu byggða, þ.e. sú ætlan að stytta leiðina til og frá höfuðborgarsvæðinu. Það var komið inn á það áðan að rétt væri fyrir íbúa landsins að skoða þessar samgönguáætlanir. Þessar áætlanir eru komnar inn á vefsíðu Alþingis þannig að það er mjög auðvelt fyrir almenning að nálgast samgönguáætlunina fyrir tímabilið 2003--2014. Ég hvet fólk til að kynna sér þessi mál.

Ég hefði auðvitað viljað svara fleirum og koma inn á fleiri atriði. Ég ætla tímans vegna ekki að segja meira í bili. Nokkrir þingmenn tíunduðu hér einstakar vegaframkvæmdir í kjördæmum sínum. Ég ætla ekki að koma inn á þau mál en vil minnast aðeins á annað sem skiptir afar miklu máli varðandi þessa samgönguáætlun, af því að hér var talað um að við værum að tefla höfnunum saman vegna væntanlegs hafnalagafrv. sem kemur til umræðu síðar. Það er athyglisvert að bæði formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og formaður Hafnasambands sveitarfélaga eru sammála um að vinna að framgangi þess máls sem og þessarar þáltill. um samræmda samgönguáætlun.

Herra forseti. Ég gæti talað lengur vegna þess að hér voru fluttar margar ræður sem full ástæða væri til þess að víkja að. Tímans vegna mun ég ekki gera það en kannski gefst tilefni til þess síðar.