Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 17:26:24 (4754)

2003-03-11 17:26:24# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, HBl
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[17:26]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil fyrst segja að eins og við er að búast þegar samin er samgönguáætlun til tólf ára sem á að ná til allra þátta samgöngumála, sér maður þar ýmislegt órökstutt og ýmislegt sem þarf frekari athugunar við. Ég skal ekki fara djúpt í þá sálma en vil á hinn bóginn vekja athygli á því að fallist hefur verið á að Grímsey fari inn í grunnnetið. Sömuleiðis tel ég nauðsynlegt að flugvöllurinn á Vopnafirði verði tekinn inn í grunnnetið og (Gripið fram í.) hef ekki heyrt rök fyrir því að svo skuli ekki, en Vopnafjörður fellur innan þeirrar skilgreiningar sem sett er fram í skýrslunni um hvað skuli vera í grunnneti.

Auðvitað hefur þetta enga hernaðarlega þýðingu að þessu sinni en mér þykir rétt að við undirbúning nýrrar slíkrar áætlunar verði þetta tekið til athugunar og úr þessu bætt. Sömuleiðis legg ég áherslu á það, eins og raunar er gert í nál. meiri hluta samgöngunefndar, að óhjákvæmilegt er að fara yfir það nákvæmlega hvaða vegir eru í grunnnetinu. Einnig þarf að huga að flokkun vega, stofn- og tengivega, eftir kjördæmum. Öðrum þræði eru slíkir vegir að sjálfsögðu grundvöllur þeirra fjárveitinga sem fara til samgöngumála. Að hinu leytinu eru gefin út vegakort af Vegagerðinni sem taka mið af þessari upptalningu. Þess vegna er óhjákvæmilegt að taka þetta til athugunar.

Ég vil í framhaldi af því sérstaklega benda á veg um Mývatnsheiði hjá Stöng. Einnig er óhjákvæmilegt að gera sér grein fyrir því sambandi að vegurinn frá hringvegi niður í Kelduhverfi og niður í Öxarfjörð með Jökulsá á Fjöllum er millibyggðavegur. Samkvæmt þeirri skilgreiningu og þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru af Vegagerðinni á sú leið að vera hér inni. Ég get á hinn bóginn engum kennt um það nema sjálfum mér sem gömlum samgrh. að hafa ekki komið þessu í lag á þeim tíma. Ég vek hins vegar athygli á þessu nú. Það á raunar einnig við um veginn hjá Stöng, að ég hafði ekki áttað mig á því að hann væri ekki þar með eins og ýmsir vegir sem síður eiga þarna heima.

Ég vil þess vegna láta í ljós sérstaka ánægju yfir því að samgn. skuli hafa vakið athygli á þessu í nál. sínu og að það megi búast við að Vegagerðin geri samgn. innan tveggja ára grein fyrir þeim forsendum sem lagðar eru fyrir skiptingunni og skilgreiningunni. Um leið lýsi ég ánægju minni yfir því að hér er sérstaklega tekið fram að Vegagerðin, og ég lít raunar svo á að það gildi um stofnanir samgrn., hætti að miða við gömlu kjördæmaskipanina sem ekki er lengur í gildi og vegáætlun verði framvegis miðuð við hin nýju kjördæmi, sem eru auðvitað eðlileg vinnubrögð.

[17:30]

Ég vil í annan stað lýsa ánægju minni yfir þeirri yfirlýsingu nefndarinnar að beina því til Vegagerðarinnar að athuga hvernig megi stytta vegalengdir. Ég hefði að sjálfsögðu kosið að þarna væri tekið dýpra í árinni því að það sem mestu skiptir í því sambandi er að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur. Ég hef lagt fram tillögur um það, eins og ég veit að sumum a.m.k. í samgn. er kunnugt, að hægt sé að stytta leiðina um rúmlega 80 km eða um nær 1/4 með því að fara Mosfellsheiði, Kaldadal, Hallmundarhraun hjá Réttarvatni, Stóra-Sand sunnan Blöndulóns, sunnan Mælifells og upp Norðurárdal. Vegurinn er að vísu hár á nokkrum kafla en það er athyglisvert í þessu sambandi að uppi eru hugmyndir og tillögur um að leggja veg um Kaldadal sem sé opinn allt árið fyrir ferðamenn, fullkominn veg sem byggður yrði í samræmi við fyllstu kröfur og staðla Evrópusambandsins og mundi nýtast sem þungaflutningavegur. Það hefur líka verið talað um að byggja upp veginn yfir Kjöl en auðvitað er þá óhjákvæmilegt að fara sunnan Blöndulóns og sunnan Mælifells í Norðurárdal þannig að sá spölur sem eftir yrði er þá einungis leiðin frá Kjalvegi eins og hann er nú yfir Stóra-Sand að Kalmanstungu eða í Borgarfjörð. Þetta eru ekki nema 70--80 km og ef við horfum á þær tillögur sem fyrir liggja um kostnað við að stytta vegalengdir yrði þetta langsamlega ódýrasta vegagerðin sem við eigum völ á til þess að ná fram hagræðingu með styttri vegalengdum.

Ég hef vakið athygli á því að undir þessum kafla vegarins er auðvelt að standa með veggjaldi eins og gert er með Hvalfjarðargöngum. Þau stytta leiðina um 42--45 km. Hér erum við að tala um 55 km styttingu ef farið yrði niður Borgarfjörð en yfir 80 km styttingu ef Kaldidalur yrði farinn. Það er öldungis ljóst að í öllum löndum veraldar mundu menn sérstaklega leita eftir því að stytta vegalengdir á milli tveggja helstu framleiðslu- og byggðasvæða landsins, í þessu tilviki Akureyrar og Reykjavíkur. Ég vil líka í þessu sambandi benda á að hægt hefur gengið að byggja upp og lagfæra gamla hringveginn um Borgarfjörð, Húnavatnssýslu og upp Skagafjörð. Það eru endurbætur sem auðvitað þarf ekki að leggja í á mörgum stöðum ef í þennan veg yrði ráðist.

(Forseti (ÍGP): Forseti vill spyrja hv. þm. hvort hann eigi eftir mikið af ræðu sinni. Gert var ráð fyrir atkvæðagreiðslu um kl. hálfsex.)

Ég bjóst við því, herra forseti, að ég fengi að tala meira en 8 mínútur, a.m.k. lengur en eina mínútu, en ég óska eftir að fá að gera hlé á ræðu minni.