Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 18:35:02 (4764)

2003-03-11 18:35:02# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[18:35]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég efast ekki um þekkingu hv. þm. Halldórs Blöndals á vegum og vegagerð. En okkur hefur áður greint á um þessar hálendisvegahugmyndir. Ég deili á þær á þeirri forsendu að ég tel ekki nálægt því komið að því að fjalla um slíkan veg. Þó gæti ég hugsanlega fallist á að gerð verði athugun á vegstæði, veðurfari, hagkvæmni, arðsemi og umhverfismati. Það er hámark þess sem ég get hugsað mér í bili.

Ég bendi á að heimamenn í Húnavatnssýslum telja að veðurfar á þessum slóðum sé þannig að þar geti ekki verið ökufær vegur nema um hásumarið. Síðan hef ég miklar áhyggjur af tengslum byggða í Húnavatnssýslum við hringveginn, þ.e. atvinnustarfsemi o.s.frv. Þeir geta ekki unað við það á næstu árum, ekki ég heldur, að þetta komi til tals.

Ég vil spyrja hv. þm. Halldór Blöndal hvort hann fallist ekki á að þessi hálendisleið komi vart til álita fyrr en lokið er varanlegri tengingu allra byggðakjarna á landinu við hringveginn.

Bara til þess að skjóta því inn er ekki fyrr en árið 2012, ef hv. þm. hefur ekki tekið eftir því, að áætlað er að búið verði að leggja bundið slitlag, t.d. um Djúpveg.