Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 18:40:54 (4768)

2003-03-11 18:40:54# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, Frsm. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[18:40]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. fer mikinn þegar hann fer fjallabaksleiðirnar sínar fjarri öllum byggðum með hugmyndir sínar. Hann fer nokkuð mikinn og býsna hratt fram úr sér.

Það er nú svo að í samgöngumálum, og það ætti hv. þm. að vita manna best sjálfur, er margt ógert. Samgöngur eru fyrst og fremst til að tengja saman byggðir þannig að hægt sé að stunda þar bæði flutninga og ferðir. Það eru fleiri staðir á landinu en Akureyri þó að Akureyri sé allra góðra gjalda verð. Ég ber og mikla virðingu fyrir umhyggju hv. þm. um að lækka flutningskostnað.

Hv. þm. sagði að ef farin væri þessi leið sem hann var að nefna, yfir hálendið og niður í Skagafjörð eða önnur leið styttri til Akureyrar, mundi þörfin fyrir endurbætur á veginum sem liggur upp Norðurárdal í Borgarfirði yfir Holtavörðuheiði og norður um Húnavatnssýslur, minnka. Ég held að við ættum frekar að snúa þessu við og segja: Látum þennan veg virkilega njóta forgangs. Norðurárdalur í Borgarfirði, hvernig er sá vegur? Hann er stórlega vanræktur. Veginn norður Húnavatnssýslur þarf einnig að styrkja upp á burðargetu að gera. Ég bið hv. þm. að huga að orðum sínum. Verði hann tekinn alvarlega, sem hann vonast til, hefur það áhrif á framtíðarsýn byggðanna í Húnavatnssýslu.