Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 18:45:05 (4770)

2003-03-11 18:45:05# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, Frsm. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[18:45]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Minn hugur er nú stærri en svo að ég sé bara þingmaður einstakra hreppa eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. gefur sig út fyrir. Ég lít svo á að við séum þingmenn alls landsins og horfum á hagsmuni landsins í heild sinni. Við verðum stöðugt að vera annars vegar með forgangsröð og hins vegar að gera okkur grein fyrir því hverju viðkomandi samgöngumannvirki eiga að þjóna.

Mér finnst alveg furðulegt ef hv. þm. telur að samgöngumál norður um Borgarfjörð og norður um Húnavatnssýslu séu í það góðu lagi að ekki þurfi þar úr að bæta og hægt sé að láta hugann reika að heiðabaki í draumórum sem alls ekki er tímabært í veruleikanum.

En varðandi það sem hv. þm. kom inn á með flugvellina og stöðu þeirra í grunnnetinu, hann minntist á Vopnafjörð eða að Vopnafjarðarflugvöllur ætti að vera í grunnnetinu, þá hef ég flutt tillögu um það að bæði Gjögur og Vopnafjörður flytjist inn í grunnnet flugvalla og óska eftir því að hv. þm. styðji það.