Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 18:49:38 (4773)

2003-03-11 18:49:38# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[18:49]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég skil nú ekki hvað formaður samgn., hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, meinar þegar hann segir að vegalengdin skipti ekki máli, en svo skildi ég hann. En það er auðvitað ekki ástæða til að elta ólar við slíkar fullyrðingar.

En ég vil benda hv. þm. á að gjaldskrá flutningafyrirtækjanna segir ekki alla sögu. Það mundi hv. þm. komast skjótt að raun um ef hann ræddi við þá sem mest þurfa á þessum flutningum að halda. Það er veittur meiri og minni afsláttur af gjaldskrá. Ég skal ekki segja hversu mikill hann er hjá þeim fyrirtækjum sem mestan afsláttinn fá, en ég hygg að það sé ekki of mikið að tala um að það kunni að vera 50% eða jafnvel meir. Þannig að gjaldskráin er ekki raunverulegur flutningskostnaður fyrirtækja úti á landi.

Það liggur líka fyrir að ef við hugsum um það sem var kallað nýlenduvörur í gamla daga, daglegar nauðþurftir, þá eru þær seldar í þessum miklu og stóru mörkuðum. Mér var sagt nýlegt dæmi í gær af, ég má segja að það hafi verið epli sem voru ódýrari hjá Baugi á Egilsstöðum heldur en kaupmaður úr einu þorpinu þarna gat fengið hjá heildsalanum og hafði hann þó náð góðum samningi hvað honum sjálfum þótti. Þannig að þegar við erum að tala um verðlag úti á landi þá er miklu, miklu fleira í því heldur en bara gjaldskrár flutningafyrirtækja.