Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 20:14:08 (4778)

2003-03-11 20:14:08# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, LB
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[20:14]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég hef þegar talað einu sinni í þessari umræðu, gerði það fyrr í dag, en tilefni þess að ég bið um orðið aftur er fyrst og fremst sú ræða sem hæstv. samgrh. flutti fyrr í dag þar sem hann fjallaði aðeins um þær hugmyndir sem starfshópur um bættar samgöngur við Vestmannaeyjar setti fram þar sem hann reyndi að bera í bætifláka fyrir þær hugmyndir sem þar er að finna.

Ég gagnrýndi það í ræðu minni fyrr í dag að þær hugmyndir sem þessi starfshópur var að skila og kynnti sl. fimmtudag gera ekki ráð fyrir því að ráðist verði í neinar aðgerðir gagnvart Vestmannaeyingum næstu 5--10 árin. Hins vegar eru uppi hugmyndir um að innan ekki langs tíma verði farið í rannsóknir á svokallaðri Bakkafjöru og það mun taka a.m.k. 2--3 ár frá því að þær rannsóknir hefjast. Það má því alveg ljóst vera að miðað við þá stöðu sem uppi er núna mun lítið sem ekkert gerast næstu --- til að vera ekki of stóryrtur í þessu held ég að fullyrða megi að næstu 5 árin muni ekkert gerast, og líklegra að þau verði 7--10 ef farið verður að (Gripið fram í.) hugmyndum þessa hóps. Einn hv. þm. kallar að í þessu felist einhver svartsýni. Hins vegar er veruleikinn sá að það er gert ráð fyrir því að eftir að rannsóknir hefjist muni þær taka 2--3 ár og ég geri fastlega ráð fyrir því að hönnun, framkvæmdir og annað eftir það, verði ráðist í þetta, muni a.m.k. taka annað eins. Það eru þá bjartsýnustu spár bara út frá því sem er mögulegt að menn sjái einhverjar úrbætur orðnar að veruleika eftir 5--6 ár. Þetta er það sem Vestmannaeyingar standa frammi fyrir og þetta var það sem hæstv. samgrh. reyndi að bera í bætifláka fyrir í ræðu sinni í dag.

[20:15]

Það sem vakti líka sérstaka eftirtekt í hugmyndum samgrh. eða þeim hugmyndum sem hópur hans lagði fram er að þar eru algerlega slegnar af hugmyndir sem framsóknarmenn hafa talsvert verið með og eins hef ég lagt fram tillögu á hinu háa Alþingi í þá veruna að leitað verði leiða til að ná í nýja ferju til siglinga milli lands og Eyja. Öllum má ljóst vera að ef samfélag eins og er í Vestmannaeyjum ætlar að standa í samkeppni við önnur sveitarfélög, þá er alveg grundvallaratriði að samgöngur séu í þokkalegu ástandi. Veruleikinn er bara sá og tíminn líður hratt í þessum efnum að núverandi ástand stenst ekki þær kröfur sem nútíminn gerir. Það er einfaldlega sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir.

Að sama skapi vildi ég aðeins svara því sem kom fram hjá hv. formanni samgn. þegar hann fyrr í dag svaraði því sem ég setti fram í ræðu minni sem var haldin mun fyrr í dag eða um hádegisbil en hv. formaður samgn. var hér um sexleytið ef ég man þetta rétt. (GHall: Ég sat hér í allan dag.) Já, ég veit það en hv. þm. flutti ræðu sína um sexleytið. Það var það sem ég vildi segja.

Það sem ég sagði í ræðu minni var einfaldlega þetta að það voru ekki nein vandkvæði fyrir borgarstjórn Reykjavíkur að taka við þeim fjármunum sem þetta viðbótarfjárframlag gerði ráð fyrir. Það voru engin vandkvæði að taka við þeim og koma þeim í þau verk sem menn voru tilbúnir að ráðast í. Og það fjárframlag sem var hugsað á höfuðborgarsvæðinu, sem var u.þ.b. milljarður í heild, um 300--400 millj. í Reykjavík, því var vitaskuld auðvelt að koma í tiltekin verk eins og fram hefur komið, hvað þá til að eyða þeim á næstu 18 mánuðum eins og áætlanir gera ráð fyrir. Við vitum, bæði ég og hv. formaður samgn., Guðmundur Hallvarðsson, að við förum ekki langt með þá fjárhæð þegar kemur að því að búa til mislæg gatnamót á Miklubraut og Kringlumýrarbraut. Það held ég að ég og hv. þm. séum alveg sammála um og kannski kaus hann dálítið að taka það inn í þessa tilteknu umræðu.

Ég skal líka viðurkenna að ég ætlaði að reyna að leita eftir svörum frá hæstv. samgrh. um það hvort til greina kæmi að skilgreina upp á nýtt ferjusiglingar til byggðarlaga sem ekki hefðu fast vegasamband sem part af þjóðvegakerfinu, og þá þannig að menn sem nýttu sér þann ,,þjóðveg`` þyrftu ekki að greiða hærri fjárhæðir en þeir sem nýttu aðra þjóðvegi landsins. Því miður er hæstv. samgrh. ekki viðstaddur þessa umræðu nú og því get ég ekki beint þeirri spurningu til hans. En það var hugmynd mín og vonandi gefst tækifæri til þess síðar. Ég hafði beint þessari spurningu til hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar sem mér fannst taka undir þau sjónarmið í ræðu sinni þó að hann svaraði því ekki beint, þ.e. að skilgreina ferjusiglingar sem part af þjóðvegakerfinu þannig að mér fannst hv. þm. taka undir þau sjónarmið þó hann í sjálfu sér tæki ekki skýra afstöðu til þess hvort það kæmi til álita.

Eins vil ég nefna það að ég tel að ljúka hefði mátt við Reykjanesbrautina, þ.e. tengingu við Reykjanesbæ, tvöföldun hennar, á skemmri tíma en gert er ráð fyrir í áætluninni og kannski er ekki ástæða til þess að svekkja sig mikið á því og sem betur fer, eins og fram hefur komið í umræðunni, er farið að styttast í kosningar og því kannski ekki líklegt að það komi á herðar þeirra sem nú stjórna ferðinni í þessum efnum að framkvæma þessa áætlun og því munu án efa gefast einhver tækifæri til að breyta þeirri áætlun. Þannig er kannski ástæðulaust að draga um of fram það sem við hv. þm. stjórnarandstöðunnar höfðum talið að hefði mátt öðruvísi fara. Hins vegar er það svo, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, að ég held að allir hafi fagnað þeim vinnubrögðum sem hér hafa verið tekin upp, þ.e. þessi svonefnda samræmda samgönguáætlun. Ég held að allir þeir þingmenn sem hafa tekið þátt í umræðunni í dag hafi talið það til fyrirmyndar að áætlanir um hafnargerð, flugmál og vegi væru teknar fyrir í einu lagi og menn horfðu á þetta á þann hátt og þar kemur fram.

Virðulegi forseti. Þetta er það sem ég vildi leggja til umræðunnar og tilefni þess er þá fyrst og fremst ræða hæstv. samgrh. frá í dag. Í þeirri ræðu gerði hann reyndar grein fyrir því sem rétt er og er rétt að halda því til haga sem þó var gert, að ferðum Herjólfs hefur verið fjölgað talsvert en að öðru leyti held ég að ég geti sagt það með fullri ábyrgð að þær tillögur sem samgönguhópurinn sendi frá sér hafa valdið alveg gríðarlegum vonbrigðum. Og það er algerlega óásættanlegt fyrir samfélag eins og Vestmannaeyjar að þurfa að horfa upp á það að næstu fimm árin verði ekki ráðist í neinar samgöngubætur sem hægt er að tala um, þ.e. að þær verði orðnar að veruleika. Vissulega eru menn að tala um rannsóknir og annað slíkt en miðað við þær hugmyndir sem fram hafa komið er ólíklegt að nokkur verði orðin að veruleika fyrr en í fyrsta lagi eftir 7--10 ár ef maður er sæmilega bjartsýnn.

Í þessari áætlun kemur líka fram að ekki er gert ráð fyrir kaupum á nýrri ferju eða endurbótum á þeirri sem fyrir er. Það er því ekki nema von að þær hugmyndir sem menn höfðu bundið þó nokkrar vonir við --- menn höfðu bundið þó nokkrar vonir við þennan starfshóp og í rauninni hefur það verið þannig að þeim hugmyndum sem fram hafa komið á meðan starfshópurinn hefur starfað hefur mestan part verið ýtt inn í þann starfshóp. Þess vegna olli það miklum vonbrigðum eins og ég hef áður sagt þegar þær hugmyndir litu dagsins ljós og í ljós kom að hugmyndin er sú að ráðast ekki í neinar aðgerðir sem komi samfélaginu að notum næstu 7--10 árin. Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum, virðulegi forseti, með þessar niðurstöður.