Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 20:24:30 (4779)

2003-03-11 20:24:30# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[20:24]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna ferjusiglinga og hvort þær séu ekki hluti af samgöngukerfinu þá hef ég alltaf litið svo á að með tilflutningi yfirstjórnar á ferjum til Vegagerðarinnar séu menn beint að samþykkja að þær séu hluti af þjóðvegakerfinu. Ég hef alltaf litið svo á.

Hvað varðar Bakkafjöru, þá tók ég eftir því að hæstv. samgrh. orðaði það svo að hann ætti von á frekari upplýsingum þeirra aðila sem nú eru og hafa rannsakað hafnalægi við Bakkafjöru, og þar væri að vænta einhverra frétta. Ég hjó eftir því, og ég held að fleiri hafi tekið eftir því. Hann orðaði það þannig að niðurstöður kæmu fyrr en menn bjuggust við og kemur þar margt til og efa ég ekki að þetta ágæta starfsfólk hjá Siglingamálastofnun hafi staðið vel að verki og þar þekkjum við ágæta menn sem hafa unnið vel að rannsóknum, bæði varðandi ölduhæð og brim við strendur landsins. Allt mun þetta koma í ljós innan tíðar, ég hef trú á að svo verði.

Aðeins varðandi höfuðborgarsvæðið --- ég ætla ekki að deila við hv. þm. Lúðvík Bergvinsson um það. En það liggur þó ljóst fyrir að 1994, til óheilla, voru af þáverandi og núverandi borgaryfirvöldum mislæg gatnamót við Miklubraut/Kringlumýrarbaut tekin út af skipulagi. Síðan er það auðvitað deilan um Sundabrautina sem hefur náttúrlega því miður verið á hraða snigilsins eins og Vestmannaeyingum hefur fundist rannsóknin við Bakkafjöru vera á.

En allt er þetta nú nokkuð gott. Meginmálið í þessu er að allir þingmenn sem hafa tekið hér til máls fagna því að lagt hafi verið upp með samræmda samgönguáætlun. Ég held að virðulegur forseti sem hér situr nú eigi einhvern hlut þar að máli líka og þetta veit á gott.