Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 20:30:31 (4782)

2003-03-11 20:30:31# 128. lþ. 96.17 fundur 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál. 19/128, 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál. 20/128, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[20:30]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins til að koma inn á þetta, Vestmannaeyjar eru vart nefndar á nafn í þeirri samgönguáætlun sem við hér ræðum þannig að því sé skilmerkilega til haga haldið vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið um Reykjavík og þær 300--400 millj. sem hugmyndin er að settar verði í samgöngubætur þar. Það er dálítið langsótt og að minni hyggju útúrsnúningur og ekki til þess að dýpka umræðuna --- ég er ekki að saka hv. þm. Guðmund Hallvarðsson um að hefja þá umræðu --- því þeir fjármunir sem verja á í vegaframkvæmdir í Reykjavík hefðu aldrei dugað til þess að takast á herðar það mikla verkefni sem mislæg gatnamót eru við Miklubraut og Kringlumýrarbraut. Þess vegna hefur mér fundist dálítið langsótt að tengja það við fjárframlögin núna að R-listinn hafi tekið þetta út af skipulagi 1994. Jafnvel þó að svo hefði verið og jafnvel þó að mögulegt hefði verið að ráðast í þessa framkvæmd eru engir fjármunir til þess að gera það. Þetta verða menn að hafa bak við eyrað í þeirri umræðu sem hér fer fram. Auk þess getum við vitaskuld endalaust deilt um hluti á þessum nótum og komumst kannski ekki nær og það þjónar svo sem ekki miklum tilgangi. En ég held að rétt sé að þessu sé öllu skilmerkilega til haga haldið þannig að við getum farið að ræða það sem virkilega skiptir máli.

Eins vil ég nefna það að einhvers staðar kom það fram í þessari umræðu, sennilega hjá hæstv. samgrh., að við værum að ráðast í meiri vegabætur á Íslandi en nokkurs staðar annars staðar þekkist. Ég vil bara segja það í þessari umræðu að líklega þekkist hvergi í Evrópu jafndapurt vegakerfi og á Íslandi, enda strjálbýlt og stórt land.