Skógrækt 2004--2008

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 21:17:05 (4789)

2003-03-11 21:17:05# 128. lþ. 96.24 fundur 689. mál: #A skógrækt 2004--2008# þál. 39/128, ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[21:17]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir að leggja fram þessa metnaðarfullu þáltill. um skógrækt á Íslandi 2004--2008. Það er auðvitað mjög brýnt að hafa framtíðarsýn í þessum málum sem og öðrum, m.a. vegna þess að gerð eru útboð á plöntum, (Gripið fram í.) framleiða þarf plöntur með ákveðnum fyrirvara á ákveðnum tíma, eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson, sem kallar hér fram í, veit manna best, þar sem Héraðsskógar voru ákveðið brautryðjendaverkefni í landshlutabundnum skógræktarverkefnum, sem mjög aukinn áhugi er á hjá landsmönnum öllum. Og nú er svo komið að í hverju héraði eða í hverjum landshluta eru sérstök verkefni þar að lútandi, þ.e. Héraðsskógaverkefnið á Austurlandi og Austurlandsskógaverkefnið í beinu framhaldi af því, Suðurlandsskógaverkefnið, Vesturlandsskógaverkefnið, Skjólskógaverkefnið á Vestfjörðum og síðan Norðurlandsskógarnir.

Þetta tengir fólk saman. Skógarbændur eru með mjög merkilegan félagsskap sem hittist og fer yfir þessi mál. Garðyrkjuskóli ríkisins heldur námskeið fyrir það fólk sem hefur áhuga á slíkum hlutum og þarna er um að ræða námskeið bæði fyrir þá sem búa í þéttbýli og dreifbýli, og skógurinn brúar í raun og veru þá hópa. Fólk hefur áhuga á slíkri ræktun og þetta skiptir land og þjóð mjög miklu máli.

Ég sat afar merkilega ráðstefnu á Kirkjubæjarklaustri í upphafi þessa mánaðar þar sem einmitt var farið vítt og breitt yfir þessi mál hér á Íslandi. Einnig var þar írskur skógræktarráðunautur sem fór yfir það á hvern hátt Írar hafa verið að þróa þessi mál á síðustu áratugum. Þeir hafa notið mikilla styrkja í gegnum ESB og eru að byggja upp atvinnuskógrækt, og við gætum mjög margt af þeim lært í þessum efnum.

Talsvert löng hefð er fyrir skógrækt á Íslandi, talað er um það í Landnámu að landið hafi verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru. En á síðustu missirum hefur áhugi á skógrækt aukist mjög mikið og það ber auðvitað að þakka. Margir hafa komið þar að og lagt hönd á plóginn, ekki hvað síst fyrrverandi forseti okkar, Vigdígs Finnbogadóttir, sem glæddi mjög skógræktaráhuga á Íslandi og auðvitað eru margir fleiri sem þar hafa komið að máli.

Ég gleðst líka yfir því að í gær var einmitt samþykkt þáltill. sem ég flutti á þessu þingi varðandi nýtingu á trjáviði sem til fellur við grisjun. Það er auðvitað orðið talsvert mikið af trjáviði sem til fellur við grisjun og það skiptir mjög miklu máli á hvern hátt sá trjáviður er nýttur. Möguleikarnir eru mýmargir í þeim efnum og ber að nýta þann við til fullnustu --- ég sé að hv. 1. þm. Norðurl. e. horfir á mig stórum augum að þessu leytinu til --- en eins og hann þekkir vel úr Eyjafirðinum vex þar skógur og það ber að nýta þann trjávið sem til fellur við grisjun sem allra best, eins og mjög margir eru að átta sig á þessi missirin.

Á þeirri ráðstefnu sem ég sat á Kirkjubæjarklaustri kom m.a. fram að á Hallormsstað er framleitt talsvert mikið af trjáviði sem er nýttur á margvíslegan hátt, m.a. seldur í trönur fyrir fiskþurrkun og þess háttar. Auk þess er viðurinn nýttur í alls konar listmunagerð, í parketframleiðslu, í gluggaefni, húsgagnagerð og þess háttar og við eigum að gefa þessum málum gaum. Þess vegna lýsi ég enn og aftur mikilli ánægju með þessa þáltill. sem hæstv. landbrh. leggur hér fram. Hann sýnir mikinn metnað og mikla framsýni sem á eftir að leiða til góðra hluta hér á landi.