Skógrækt 2004--2008

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 21:21:56 (4790)

2003-03-11 21:21:56# 128. lþ. 96.24 fundur 689. mál: #A skógrækt 2004--2008# þál. 39/128, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[21:21]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við fjöllum um till. til þál. um skógrækt 2004--2008, og ég hlýt að gleðjast yfir því eins og fleiri að hér sé lögð fram verkefnaáætlun til þetta margra ára. Það er eins og með vegáætlun og samgönguáætlun og samræmda samgönguáætlun, eins og við höfum núna, að það er mjög mikilvægt að horfa fram í tímann. Staðan hefur verið sú að um hvert skógræktarverkefni hafa verið gerðir samningar og áætlanir en vantað hefur hina lögformlegu staðfestingu á þeim samningum þannig að þeir hafa ekki sjálfkrafa komið hér inn eða fengið fjármagn til verkefnanna af fjárlögum ríkisins heldur er sótt um í hvert skipti þannig að það hefur alltaf ríkt nokkur óvissa um framlög til verkefnanna. Það að hafa áætlunina svona bundna, eins og hún er hér og er þar af leiðandi staðfesting á þeim samningum sem fyrir eru, er mjög til bóta því trjárækt er ekki skammtímaverkefni heldur langtímaverkefni og er verkefni nokkurra mannsaldra ef maður horfir fram í tímann. Það á þó sérstaklega við um græðlingaframleiðslu og plöntur til útplöntunar. Því er mikilvægt að vita hver áætlunin er og hver salan muni verða.

Herra forseti. Þar sem þáltill. kemur svo seint hér fram á þinginu hefur mér ekki unnist tími til að skoða þessar tölur og fara yfir það hvort þetta er samkvæmt þeim áætlunum sem eru inni í þessum landshlutabundnu skógræktarverkefnum, en ég ætla að svo sé, og ljóst er að þær tölur eiga svo að hækka í samræmi við þróun verðlags.

Herra forseti. Ég vil benda á eitt varðandi Skógrækt ríkisins, það eru fjármunirnir sem eiga að fara til Skógræktarinnar, í yfirstjórn stjórnsýslu, rannsóknir og þjóðskóga. Þá vil ég sérstaklega taka út þjóðskógana og benda á mikilvægi þess að áætlunin verði endurskoðuð og litið verði til þess að við höfum vanrækt þjóðskógana. Við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á að hirða þjóðskógana og gera þá aðgengilegri og sýna þeim þann sóma að þeir séu grisjaðir og um þá sé hugsað en mikið vantar upp á það. Ég dreg því í efa að rétt sé að miða við það framlag sem er til þjóðskóganna í dag, því að þeir eru vanræktir og þar þurfum við að bæta í frekar en hitt.

En við 1. umr. og við að lesa þetta yfir hafandi ekki neina ástæðu til að ætla að framlögin sem hér eru nefnd séu ekki nokkurn veginn í takt við það sem er í samningunum, og ef það er ekki verður auðvitað að skoða það vel, þá lít ég jákvætt á þetta. Ég tel að landbn. verði að fara vel yfir þáltill. og hún mun örugglega gera það með mjög jákvæðu hugarfari, því að svona langtímaáætlun er okkur öllum nauðsynleg og ég trúi því að þetta sé komið til að vera.