Fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 21:36:27 (4793)

2003-03-11 21:36:27# 128. lþ. 96.23 fundur 688. mál: #A fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[21:36]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við ræðum hér till. til þál. um stofnun sjóðs til þess að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða. Hæstv. ráðherra fór yfir þetta mál áðan. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning sem kynni annars að koma upp í ræðu minni vil ég byrja á að taka það fram að ég tel að hér sé verið að hreyfa ágætlega þörfu máli og mun að sjálfsögðu styðja það til þess að efla hér verðmætasköpun og nýbreytni.

Ég hefði hugsað mér að ræða þetta mál á eftir út frá svolítið öðru sjónarmiði sem auðvitað byggir á því að við erum hér að stofna til sjóðs til þess að ná meira verðmæti út úr sjávarútveginum. Ég get ekki látið hjá líða að nefna það að ég tel að auðveldasta leiðin, samkvæmt skýrslu sjútvrh. sem unnin var fyrir hann af þessum starfshópi, hinni svokölluðu AVS-skýrslu, sem stendur fyrir ,,aukið verðmæti í sjávarútvegi``, a.m.k. eins og ég las hana sýndist mér auðveldasta niðurstaðan til þess að auka verðmæti íslensks sjávarfangs vera að stuðla að því að hér yrði enn meiri vinnsla á ferskum fiski en þó hefur verið, og hefur hún vissulega verið að aukast á undanförnum árum. Það kom greinilega fram í skýrslunni --- þó að ég sé ekki með hana hérna fyrir framan mig held ég að ég muni þessar tölur nokkurn veginn --- að það væri hægt að ná tugum króna verðmætisauka við það að breyta vinnslu þorskflaka í fersk flök í staðinn fyrir frosin, og þá var það sama hvort menn voru að tala um að fiskurinn væri frystur úti á sjó eða í landi. Og ef ég man þessar tölur rétt voru þetta 88 kr. á hvert reiknað kíló upp úr sjó, eins og það stendur í skýrslunni. Segi það nú samt með fyrirvara vegna þess, eins og ég sagði áðan, að ég er ekki með skýrsluna hérna fyrir framan mig eða tölurnar.

Sama var auðvitað varðandi ýsuna, það var hægt að ná miklum verðmætisauka með því að flytja meira út af ferskum ýsuflökum en frosnum. Verðmætisaukinn var meiri í ýsunni á hvert kíló en í þorskinum. Reyndar var verðmætisaukinn mestur í ferskum karfaflökum þar sem munaði talsvert á annað hundrað krónum á kílói í verðmætisauka, allt reiknað á sambærilegu samanburðarferli, eftir því sem ég gat lesið þessa skýrslu, þ.e. á afla upp úr sjó.

Það liggur auðvitað fyrir að þó að vissulega hafi verið bent á mörg önnur atriði í þessari skýrslu, eins og aukaafurðir og nýjar áherslur og betri nýtingu, liggur það fyrir, að mínu viti, að fljótvirkasta aðferðin til þess að ná miklum verðmætisauka út úr íslenskum sjávarútvegi væri að breyta áherslunni á fiskveiðistýringuna, fá inn meira af ferskum fiski og vinna hann meira til útflutnings. En til þess þarf fiskurinn auðvitað að vera vel ferskur og vel kældur þannig að hann standist þær kröfur sem kaupendur gera til fersks fisks.

Herra forseti. Ég sé að tími minn líður ansi hratt og ég mun sennilega fá að taka aftur til máls því að ég kemst engan veginn yfir það sem ég ætlaði að ræða hér. Vil þó láta þessa örlítið getið í ræðu minni að hér erum við að stofna til sjóðs sem á að fá ákveðið hlutverk, og eins og ég tók fram í upphafi mun ég styðja þetta mál, ég held að það sé þarft og gott. Það sem mig langar hins vegar að benda á, herra forseti, er að hér er ríkisstjórnin í raun að fara af stað í hringferð. Hún er að hefja þá hringferð sem reyndar var bent á þegar menn lögðu niður sjóði sjávarútvegsins, 1998 hygg ég að það hafi verið, þegar Fjárfestingarbanki atvinnulífsins var stofnaður, Fiskveiðasjóður lagður niður, Iðnlánasjóður lagður niður og Iðnþróunarsjóður lagður niður ásamt, held ég, gamla Fiskimálasjóðnum.

Þessir sjóðir höfðu auðvitað það hlutverk að styrkja nýsköpun að hluta til og segir í lögum um þá, eins og t.d. um Fiskveiðasjóð, hann átti að efla útgerð og nýsköpun og lána til arðbærra framkvæmda. Við þessu var öllu varað þegar ákveðið var að fara þá vegferð að breyta þessum sjóðum í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og reyndar voru teknir, að mig minnir, þrír milljarðar og síðan einn til viðbótar út úr þessum sjóðum og stofnaður Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, sem átti m.a. að verða til þess að styrkja nýsköpun í atvinnulífinu og efla frumkvæði manna. Ég held að reynslan af Nýsköpunarsjóðnum hafi orðið sú að hann hefur aðallega verið í því að styrkja það sem við getum kallað stærri áhættuverkefni en kannski ekki í raun og veru það sem mesti vaxtarbroddurinn virðist hafa verið í í ýmsum löndum hér í kringum okkur, lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru að vinna úr góðum hugmyndum. Þar er í flestum löndum mesti vaxtarbroddurinn.

Hér förum við hins vegar einmitt þá leið að búa til sjóð sem ætlað er að styrkja slík verkefni, m.a. í fiskeldi, líftækni og vinnslu aukaafurða, eins og hér segir í þessu áliti með þáltill.

En það sem ég er aðeins að vekja athygli á, herra forseti, er auðvitað að það eru ekki nema rétt rúm fimm ár liðin síðan við fórum þá vegferð að leggja niður sjóði hér á landi og stofna Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sem síðan var seldur Íslandsbanka. Og nú erum við sem sagt að hefja nýja vegferð vegna þess að fimm árum síðar hafa menn komið auga á að hér vantar áhættufé, það vantar styrki til þess að nýta þau tækifæri sem bjóðast og til þess að standa með mönnum sem hafa góðar hugmyndir og gætu orðið frumkvöðlar í atvinnulífinu. Þess vegna vík ég að þessu hér og mun víkja að því betur í síðari ræðu minni, herra forseti.